Næstu daga má reikna með al-íslensku ekki-veðri um allt land. Hvorki heitt né kalt, hvorki þurrt né blautt, hvorki sól né skýjað.
10-14 stiga hiti í dag með skúrum og skýjahulu. Á þriðjudaginn breytist lítið í höfuðborginni, þó talsvert minni úrkoma verði í borginni og sunnan til en gæti breyst í broslegri áttir fyrir norðan og austan. Stillt veður og alls ekki útilokað að dagurinn bjóði uppá þokkalegt útivistarveður þó sólgleraugna verði ekki þörf.
Miðvikudagurinn á annað borð virðist ætla að verða heldur grámyglulegur um allt land. Hiti 9-17 stig, hlýjast fyrir norðan en rigning eða skúrir um allt land. Glæsilegur dagur til að klára loksins internetið, lesa góða bók eða hámhorfa Netflix.
DV.is minnir lesendur sína á að rigning er góð fyrir gróðurinn.