Þegar siðferði og sjálfstjórn víkja
Tvö alvarleg mál hafa komið upp síðastliðnar vikur þar sem konum er gefið að sök að hafa annars vegar villt á sér heimildir með háskalegum hætti, í svokölluðu bakvarðarmáli, og hins vegar stolið umtalsverðum eigum og tugum milljóna af heilabiluðum systrum.
Þegar rifjuð eru upp nokkur af þeim svikamálum sem komið hafa upp síðastliðin ár kemur orðið siðblinda upp í hugann. Algengt er að brotið sé á eldra fólki, veikum eða þeim sem lítið þekkja til í tilteknum geira sem svikarinn gerir sér upp sérfræðikunnáttu í. „Gerendur vita að þeir eru að brjóta af sér en réttlæta það fyrir sjálfum sér á margvíslegan hátt,“ segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og afbrotafræðingur.
Jarðvegur fyrir svik og pretti
„Fjársvik, prettir eða falsanir sýna okkur að afbrot eru ekki bara bundin við fátækt, erfiða æsku eða misnotkun áfengis- og vímuefna. Brot af þessu tagi koma upp í öllum þjóðfélagshópum, bæði hjá konum og körlum, ríkum og fátækum. Mestu máli skiptir hvort tækifæri eða aðstaða til auðgunarbrota sé fyrir hendi, hvort aðgæsla eða eftirlit sé nægjanlegt og brotavilji gerenda til staðar. Ef allir þessir þrír þættir koma saman skapast jarðvegur fyrir svik og aðra pretti.
Margir eru í aðstöðu til að svíkja eða stela en gera það ekki jafnvel þótt freistingin geti verið mikil. Siðferði viðkomandi eða sjálfstjórn er klárlega hindrun sem dregur úr brotavilja margra. Ef brotavilji er til staðar eru óvarðar eignir alltaf í hættu. Ófullnægjandi eftirlit og verðmæti á glámbekk bjóða því hættunni heim.“
Helgi segir brýnt fyrir samfélagið að efla aðgæslu með verðmætum til að loka á tækifæri til auðgunarbrota og annarra svika. „Hver og einn borgari verður að gæta að sínu og hið opinbera þarf að tryggja eftirlit með starfsemi sinni og eignum. Áreiðanlegt réttarvörslukerfi við uppljóstrun brota, skilvirk málsmeðferð og viðurlög við hæfi einkenna traust réttarríki.
Ef litlar líkur eru á að upp um brotin komist skipta harðar refsingar í raun litlu. Á sama hátt þarf oft ekki þungar refsingar ef miklar líkur eru á að brotin upplýsist út af skömm og fordæmingu sem brotin einatt valda gerendum. Ef málin bíða lengi í kerfinu er einnig hætta á að dragi úr fælingarmætti refsinga. Öll fjársvikamál sem upp koma bera svipmót af þessum einkennum eða skorti á þeim með einum eða öðrum hætti.“
Svik og prettir virðast ekki vera á undanhaldi nema síður sé. Hér gefur að líta nokkur umdeildustu svikamál síðustu ára hérlendis.
Stóra Ikeamálið komst fyrst í fréttir árið 2013 en talið er að svikin hafi getað staðið frá árinu 2007.
Svikarar skiptu um strikamerki á vörum þannig að strikamerki af ódýrari vörum voru sett yfir strikamerki á vörum sem voru dýrari. Greiddu svikararnir fyrir ódýrari vörurnar, skiluðu síðan vörunum með upprunalega strikamerkinu á og fengu endurgreitt í peningum. Á þessum tíma þurfti ekki að sýna kassakvittun þegar vörum var skilað til Ikea. Nú hefur skilareglum verið breytt svo framvísa þarf kassakvittun við vöruskil þrátt fyrir að aðeins ein Ikea-verslun sé á landinu.
Fyrrverandi framkvæmdastjóri Ikea, Þórarinn Ævarsson, sagðist halda að kostnaður fyrirtækisins vegna svikanna hafi verið um 10 milljónir króna. Sá sem braut oftast af sér með þessum hætti gerði það 43 sinnum en dæmi eru um að slík svik hafi átt sér stað þrisvar sama daginn.
Svik Sigurðar Kárasonar ná aftur til ársins 1986 þegar hann rak tívolíið í Hveragerði. Í september 1989 var Sigurður dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fjársvik og fyrir að hafa haldið eftir vörslufé af launum starfsmanna tívolísins og Hótel Borgar sem hann átti hlut í.
Árið 1998 sveik hann 30 milljónir út úr Alzheimerssjúkri konu á níræðisaldri. Árið 2014 var Sigurður sakaður um að hafa svikið á annað hundrað milljónir króna út úr sextán einstaklingum á árunum 2006 til 2010. Sigurður fékk fólkið til að leggja inn á sig pening sem hann sagðist ætla að ávaxta fyrir það. Talið er að Sigurður hafi notað peningana til að greiða eldri skuldir og til eigin framfærslu.
Sigurður hlaut ekki dóm í því máli en saksóknari málsins sagði við aðalmálsmeðferð að mun fleiri hefðu verið undir í rannsókninni þó að ekki hefðu allir viljað kæra. Hann sagði einnig að í mörgum tilvikum hefði Sigurður sótt að fólki sem átti ekki peninga. En með einhverjum hætti tókst honum að fá það til að skuldsetja sig upp í rjáfur hjá banka sínum og færa honum peningana. Sigurði er almennt lýst sem miklum fagurgala og hann hafi með ótrúlegum hætti náð að tala fólk til til að láta allt sitt af hendi, og gott betur.
Í síðustu viku var gefin út ákæra á hendur Rocio Bertu Calvi Lozano og eiginmanni hennar fyrir að féfletta tvær systur á tíræðisaldri sem báðar eru með heilabilun. Er Rocio gefið að sök að hafa dregið að sér fé og numið á brott ýmsar eignir í eigu systranna yfir nokkurra ára tímabil. Hreiðar Gunnlaugsson, eiginmaður Rocio, er ákærður fyrir að hafa tekið við, geymt og nýtt ávinning af brotum konu sinnar. Málið þykir sérstaklega óhuggulegt þegar horft er til veikinda systranna.
Í ákærunni kemur fram að yngri systirin hafi búið og starfað í Bandaríkjunum stóran hluta ævi sinnar en flutt aftur til Íslands árið 2006 og verið lögð inn á heilbrigðisstofnun vegna heilabilunar. Einnig kemur fram að erfitt hafi reynst að taka skýrslu af systurinni árið 2017 þegar fyrst vöknuðu grunsemdir um meintan fjárdrátt. Yngri systirin tapaði fljótt þræðinum svo skýrslutakan varð að engu.
Fyrstu grunsemdir um heilabilun eldri systurinnar komu fram árið 2011 þegar hún mætti ekki í minnispróf. Árið 2017 kom í ljós að hún var Alzheimer-sjúkdóm á háu stigi. Rannsakendur gerðu tilraun til að taka skýrslu af henni 2017 vegna grunsemda um fjárdrátt en hún gat ekki haldið uppi almennum samræðum, segir enn fremur í ákærunni.
Systurnar eiga engin börn svo auðveldara reyndist að halda meintum fjárdrætti leyndum fyrir þeim er tengdust systrunum. Það var því fyrst fyrir þremur árum að grunsemdir vöknuðu hjá ættingjum þeirra.
Heildarfjárhæðin sem Rocio er talin hafa stolið nemur nærri áttatíu milljónum króna. Saksóknari gerir meðal annars kröfu um að húseign hjónanna, Audi Q7-jeppi og listmunir eftir Ásmund Sveinsson, Jóhannes Kjarval og Einar Jónsson verði gerðir upptækir.
Anna Aurora Waage Óskarsdóttir er grunuð um að hafa svindlað sér inn í bakvarðasveit Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða með því að framvísa fölsuðum gögnum um menntun sem sjúkraliði. Anna Aurora skráði sig í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar í tengslum við COVID-19 og var send til Bolungarvíkur til að starfa á Hjúkrunarheimilinu Bergi. Eftir stutta dvöl á Bergi var Anna fjarlægð af lögreglu. Mál Önnu Auroru liggur hjá héraðssaksóknara þar sem tekin verður ákvörðun um hvort gefin verði út ákæra.
Listi yfir starfsheiti sem Anna hefur tekið sér samkvæmt heimildum DV er langur. Anna Aurora virðist hafa verið og/eða sagst vera eftirfarandi og ótal margt fleira til: Sjúkraliði, hjúkrunarfræðingur, læknir, rét tarmeinafræðingur, afbrotafræðingur, framkvæmdastjóri, vörubílstjóri, lögfræðingur, ökutækjasali, ráðgjafi í skattamálum og rekstrarráðgjöf, ferðasali og ferðaskipuleggjandi.
Jón Birkir Jónsson sveik árið 2018 pening út úr fjölda manns í gegnum Facebook-hópinn Brask og brall og í gegnum vefsíðuna bland.is. Auglýsti hann þar alls kyns varning til sölu. Hann fékk kaupendur til að millifæra peninga inn á sinn reikning en afhenti aldrei varninginn. Meðal þess sem Jón auglýsti til sölu var iPod Nano, miðar á tónleika með hljómsveitinni Dimmu, dekk, gírkassi, rúm og bifreið. Jón Birkir var dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir brot sín og til að greiða sakarkostnað upp á tæpa milljón.
Sakaferil hans má rekja allt til ársins 2006 en árið 2009 var hann dæmdur fyrir skjalafals, ránstilraun, brot gegn valdstjórninni, hótanir og umferðarlagabrot.
Svikarinn Marinó Einarsson átti sér margar hliðar. Á hestamótum erlendis kynnti hann sig iðulega sem Marinó Bárðarson, bróður Sigurbjarnar Bárðarsonar, margverðlaunaðs knapa. Þannig stóðu honum allar dyr opnar. Marinó átti það til að villa á sér heimildir til að ganga í augun á konum. Hann kynnti sig um tíma með nafni skipstjóra á einum aflamesta togara landsins. Hann bætti því við að hann væri sonur látins skipstjóra úr Vestmannaeyjum. Þá sagði hann að konan hans hefði látist eftir að hafa ekið í höfnina í Vestmannaeyjum þar sem naumlega náðist að bjarga ungu barni þeirra. Hann náði að heilla konu og kynntist foreldrum hennar sem ráku þjónustufyrirtæki fyrir sjávarútveg. Hann fékk þau til að framleiða fyrir sig dýra hluti. Svo komu þau upp um svikin, Marinó flúði af heimilinu og sagðist vera að fara í kvöldverð með sjávarútvegsráðherra.
Hann flúði þá upp á Skaga þar sem hann hélt áfram að kynna sig sem skipstjóra á aflaskipi frá Vestmannaeyjum. Skagamenn komust fljótt að svikum Marinós. Flúði hann vestur á firði þar sem hann var orðinn skipstjóri á öðru aflaskipi og hélt hann áfram að heilla konurnar. Eftir að Vestfirðingar komust að svikum hans breytti hann um stíl á svikum sínum. Hann hætti að vera skipstjóri frá Vestmannaeyjum og sneri sér að hrossaviðskiptum á Suðurlandi. Eitt haustið réð hann sig sem dönskukennara í grunnskóla á Suðurlandi. Hann sagðist vera danskur og bar danskt nafn. Hann kunni þó lítið meira í dönsku heldur en börnin sem hann kenndi. Athygli vakti hversu góðum tökum hann hafði náð á íslensku þrátt fyrir að hafa búið á landinu í stuttan tíma. Marinó bjó um tíma í Noregi. Þar bar hann nafnið Guðmundur Ólafsson og sagðist vera heila- og taugaskurðlæknir. Hann flutti svo til Filippseyja þar sem hann lést árið 2011.
Magnús Ólafur Garðarsson er fyrrverandi forstjóri kísilverksmiðjunnar United Silicon. Stjórn félagsins kærði Magnús vegna gruns um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals. Hlaupa upphæðirnar sem rannsóknin snýst um á hundruðum milljóna.
Magnúsi Ólafi er gefið að sök að hafa stofnað erlent gerviverktökufélag til að draga sér fé, falsað reikninga til að dylja brot sín, brotið gegn lögum um bókhald og ársreikninga og gert tilraun til að villa um fyrir skiptastjóra. Í bland við auðgunarbrotin, sem enn eru til meðferðar innan dómskerfisins, hefur Magnús verið dæmdur fyrir ofsaakstur á Teslu-bifreið sinni með þeim afleiðingum að annar bíll endaði utanvegar og ökumaður slasaðist.
Árni Johnsen, fyrrverandi alþingismaður, var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir fjárdrátt og umboðssvik í opinberu starfi, mútuþægni og rangar skýrslur til yfirvalda. Árið 2001 kom í ljós að Árni, sem þá var nefndarmaður í byggingarnefnd Þjóðleikhússins, hafði notað varning sem keyptur var fyrir Þjóðleikhúsið til byggingar á bjálkahúsi sínu í Vestmannaeyjum. Árni hlaut uppreist æru árið 2006.
Karl Olgeirsson, starfsmaður hjá Nóa-Síríus, laug til um hörmungar innan fjölskyldunnar árið 2000. Söfnun var sett af stað til að hjálpa manninum í gegnum hörmungarnar. Svikin byrjuðu á því að súkkulaðisvindlarinn laug því að vinnufélögum að dóttir hans hefði slasast alvarlega í bílslysi og berðist fyrir lífi sínu á spítala í Svíþjóð. Viku síðar kom hann til vinnu og tilkynnti að móðir hans hefði fallið skyndilega frá. Stuttu síðar átti dóttir hans að hafa látist eftir bílslysið í Svíþjóð. Í öllum hörmungunum ákvað súkkulaðisvindlarinn að segja frá því að hann saknaði síðari eiginkonu sinnar sem lést úr krabbameini eftir átta mánaða hjónaband þeirra.
Starfsfólki NóaSíríus fannst nóg komið og ákvað að efna til söfnunar fyrir manninn. Mörg hundruð þúsundum var safnað. Það fóru að renna tvær grímur á samstarfsfólk hans þegar móðir hans var jörðuð í skyndingu. Farið var að grennslast fyrir um meinta jarðarför. Kannaðist enginn við umrædda konu og ekki var á dagskrá að jarða einhverja með nafni hennar.
DV hafði samband við súkkulaðisvindlarann á sínum tíma og viðurkenndi hann brot sín. „Ég verð að leita mér hjálpar. Þetta er eitthvað sjúklegt sem ég ræð ekki við. Mig vantaði peninga og því spann ég söguna upp,“ sagði súkkulaðisvindlarinn, sem leitaði sér í kjölfarið meðferðar við lygasýki.
Árið 2013 fékk Halldór Viðar Sanne fjölda fólks til að kaupa iPhone á raðgreiðslum í Danmörku sem hann ætlaði svo að selja fyrir hærra verð. Halldór hirti alla símana, seldi þá og hirti peninginn. Hann fékk um 110 milljónir króna fyrir söluna. Flest fórnarlömbin voru íslenskir námsmenn í Danmörku.
Halldór auglýsti einnig lífvarðanámskeið sem fara átti fram í Kaupmannahöfn. Fjölmargir skráðu sig á námskeiðið og greiddu fyrir það 400.000 krónur. Námskeiðinu var sífellt frestað og að lokum varð ekkert úr því. Árið 2017 var Halldór settur í gæsluvarðhald, grunaður um milljónasvik með því að hafa fé af fólki á leigumarkaði. Halldór hefur einnig notast við nafnið Aldo Viðar Bae.