Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Tryggvi Rúnar lést 2009. Eiginkona hans og dóttir fengu samtals 171 milljón í bætur í upphafi árs á grundvelli laga sem voru samþykkt á síðasta ári um heimild til að greiða dómþolum og erfingjum þeirra bætur vegna málsins.
Arnar beindi nýlega 85 milljóna króna kröfu um miskabætur að forsætisráðherra sem vísaði málinu til Andra Árnasonar setts ríkislögmanns.
Í bréfi, sem er dagsett 15. júní, var bótakröfunni hafnað með vísan til þess að ættleiddur sonur teljist ekki lengur barn kynföður síns í lagalegum skilningi. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Arnars, staðfesti þetta við Fréttablaðið.
„Já það er rétt, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er búin að hafna kröfu umbjóðanda míns þó að réttur hans til bóta samkvæmt lögum sem hún mælti fyrir sé skýr og ótvíræður að mínu mati. Forsætisráðherrann okkar virðist hins vegar vera frábær leikkona því hún blekkti mig og fleiri þegar hún beygði af í umræðum um lögin í þinginu í fyrra. Nú er komið í ljós að hún grét krókódílstárum. Það skiptir nefnilega ekki máli hvað þú getur, heldur hvað þú gerir, en því miður virðist forsætisráðherra ekki hafa hlustað mikið á Purrk Pillnik.“
Sagði hann í samtali við Fréttablaðið. Hann sagði einnig ljóst að ríkinu verði stefnt fyrir dóm og því muni dómstólar skera úr um rétt Arnars til bóta.