Fréttablaðið skýrir frá þessu. Fram kemur að reglugerðin hafi verið unnin í samráði við Matvælastofnun og samtökin Villiketti sem fagna því að heimilislausir kettir fái loksins úrbót sinna mála.
„Við erum búin að berjast fyrir þessu í fjögur ár. Það var mjög stór áfangi þegar dýraverndunarlögin voru sett árið 2014, en það vantaði skilgreininguna á villiköttum sem eru fyrrum heimilisdýr. Staða þeirra hefur verið mjög bágborin í gegnum tíðina og við vitum að þeir eru enn þá skotnir sums staðar á landsbyggðinni.“
Hefur Fréttablaðið eftir Arndísi Björg Sigurgeirsdóttur, formanni Villikatta.
Samkvæmt reglugerðinni mega félagasamtök, sem stuðla að velferð villikatta, láta skera lítinn hluta annars eyrans af eftir geldingu. Þetta verður að gera hjá dýralækni eftir svæfingu. Þetta segir Arndís vera mjög mikilvægt þar sem samtökin vinna eftir verklagi sem nefnist TNR (trap-neuter-return) eða fanga-gelda-sleppa.
„Við komum oft inn í stór kattasamfélög, þar sem eru á bilinu 50 til 100 kettir, allir ógeldir og hver undan öðrum og því svipaðir á litinn. Við getum ekki séð hverjir eru geldir og hver ekki nema það sé búið að sneiða af eyranu.“
Er haft eftir Arndísi sem benti á að þetta geti einnig gagnast þeim sem finna kött og viti ekki hvort hann sé týndur.
Hún sagði að um 2.000 kettir lifi villtir hér á landi og að fólk vilji hafa þá. Flestir kattanna hafast við nærri höfnum og þar sem æti er að hafa. Þeir gegni ákveðnu hlutverki við að halda rottum í burtu því þær forðist lyktina af kattarhlandi.