Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem MMR gerði fyrir Íslandsstofu í Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi. Fréttablaðið skýrir frá þessu.
„Könnunin gefur okkur forsendur til að meta hvernig best sé að nálgast mismunandi markhópa með ólíkum hætti. Á þeim markaðssvæðum sem opnast fyrr, til dæmis Bretland og Þýskaland, þurfum við að vera með beinskeytta markaðssetningu fyrir Ísland sem áfangastað. Í Bandaríkjunum þurfum við hins vegar að byggja upp ímynd og áhuga til lengri tíma.“
Er haft eftir Daða Guðjónssyni fagstjóra hjá Íslandsstofu.
Í niðurstöðum könnunarinnar, sem einblíndi á fólk sem er líklegra til að ferðast fyrr en aðrir, kemur fram að um 30% Þjóðverja geta hugsað sér að ferðast næsta hálfa árið, um 24% Breta og 16% Bandaríkjamanna. Niðurstöðurnar benda til að flestir Bretar og Þjóðverjar, sem eru reiðubúnir til að ferðast til útlanda á nýjan leik, horfi til haustsins en Bandaríkjamenn horfa hins vegar til áramótanna.
Haft er eftir Matthíasi Kjartanssyni, sölustjóra hjá Iceland Protravel, að áhugi sé til staðar á ferðum hingað til lands en margir séu hikandi vegna skimunargjaldsins. Auk þess hafi misvísandi skilaboð frá stjórnvöldum ekki bætt úr skák.