fbpx
Miðvikudagur 14.maí 2025
Fréttir

Engin útskriftarferð, engin endurgreiðsla

Erla Hlynsdóttir
Föstudaginn 29. maí 2020 18:30

Birta Björk Haraldsdóttir og samnemendur hennar sem eru að útskrifast frá Menntaskólanum við Sund segjast í óvissu. Hér eru þau í Berlín. Mynd úr einkasafni

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ferðaskrifstofan Tripical sendi útskriftarnemum í Borgarholtsskóla tölvupóst daginn fyrir útskriftarferð til Krítar þar sem ferðinni var aflýst. Útskriftarnemendur í Menntaskólanum við Sund eiga bókaða ferð með Tripical til Krítar þann 4. júní. Birta Björk Haraldsdóttir, sem er að útskrifast af félagsfræðibraut, segir nemendur við MS engin skýr svör fá frá Tripical varðandi ferð þeirra. „Þessi óvissa veldur útskriftarnemum kvíða og streitu,“ segir hún.

Beðið eftir ráðherra

Í pósti frá Tripical til nema í Borgarholtsskóla segir að stefna fyrirtækisins sé að efna samninga um ferðir við alla viðskiptamenn félagsins eftir því sem frekast er unnt, færa ferðir með samkomulagi við hópa eða bjóða þeim inneignarnótur til 12 mánaða: „Í því sambandi viljum við vekja athygli á því að nú er til meðferðar fyrir Alþingi stjórnarfrumvarp ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um endurgreiðslur til farþega vegna pakkaferða sem ekki verða farnar á tímabilinu frá 15. mars til 30. júní á þessu ári, sbr. þingskjal 1256, mál nr. 727. Í frumvarpinu felst, verði það að lögum, að ferðaskrifstofum verður heimilt að endurgreiða ferðamanni greiðslur sem hann hefur innt af hendi með inneignarnótu til 12 mánaða sem heimilt verður að innleysa að þeim tíma liðnum hafi hún ekki verið nýtt. … Verði frumvarpið að lögum, sem telja verður líklegt með vísan til framangreinds, myndi það því taka til útskriftarferðar Borgó til Krítar.“

Samkvæmt samtölum blaðamanns við útskriftarnemendur í Borgarholtsskóla og foreldra þeirra er áhugi á inneignarnótum takmarkaður, heldur vilja nemendur einfaldlega fá endurgreitt.

Frumvarp veki falskar vonir

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, bendir á að frumvarp sé ekki lög og að ferðaskrifstofum rétt eins og öðrum beri að fylgja landslögum. „Það er mjög bagalegt að þarna hangi inni frumvarp og í raun engum til góðs því þetta veitir ferðaskrifstofum falskt yfirvarp til að skýla sér á bak við. Það veitir þeim líka falska von því það er ekkert sem staðfestir að þetta frumvarp verði að lögum,“ segir hann.

Varðandi póstsendingu um að ferð nema við Borgarholtsskóla sé aflýst aðeins degi fyrir brottför segir hann að samkvæmt pakkaferðalögum verði að aflýsa ferðum með tilhlýðilegum fyrirvara. „Það lá lengi fyrir að það yrði ekki flogið til Grikklands á þessum tíma,“ segir hann en útskriftarnemar í Borgarholtsskóla áttu bókað flug út 25. maí.

Elísabet Agnarsdóttir, eigandi Tripical, segir það miklu skipta fyrir ferðaþjónustufyrirtæki að frumvarpið verði að lögum og bendir á að sambærileg lög hafi þegar farið í gegn í nágrannalöndum okkar. „Okkur þykir leitt að nemendur upplifi sig í óvissu. Við erum það hins vegar líka. Tripical er lítið fjölskyldufyrirtæki og við viljum gera okkar besta fyrir viðskiptavini,“ segir hún. Meðal þess sem þau hafa boðið útskriftarnemum er að fara í ævintýraferð innanlands í staðinn.

Heilt sumar að safna fyrir ferðinni

Birta segir að um 150 útskriftarnemendur við MS hafi bókað útskriftarferð hjá Tripical og allir hafi borgað hana að fullu, en lægsta gjaldið var 170 þúsund krónur. „Tripical er því með að lágmarki 26 milljónir króna bara frá okkur í MS. Ég var heilt sumar að safna mér fyrir þessari ferð,“ segir hún.

Elísabet hjá Tripical bendir hins vegar á að fyrirtækið sé ekki með neitt af þessum peningum hjá sér. „Við erum búin að greiða út til flugfélaga, hótela og annarra birgja fyrir nokkrum mánuðum síðan en það verðum við alltaf að gera til að tryggja hótel, flug og fleira. Þessir aðilar neita að endurgreiða okkur og erum við því í miklum vanda,“ segir hún.

Uppfært: Tilkynnt var í dag að flugvellir á Grikklandi opna að nýju þann 15. júní. Ísland er hins vegar ekki á meðal þeirra 29 ríkja sem þá hafa heimild til lendingar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Edda minnist Lalla Johns – „Lalli var alltaf blíðan uppmáluð, brosandi gleðigjafi og góður við allt og alla“

Edda minnist Lalla Johns – „Lalli var alltaf blíðan uppmáluð, brosandi gleðigjafi og góður við allt og alla“
Fréttir
Í gær

Uggandi yfir uppsögnum: „Þjóðminjasafn án fornleifafræðinga“

Uggandi yfir uppsögnum: „Þjóðminjasafn án fornleifafræðinga“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kom fyrir myndavélum á klósetti Airbnb íbúðar sinnar – Vildi bera getnaðarlimi gestanna saman við sinn

Kom fyrir myndavélum á klósetti Airbnb íbúðar sinnar – Vildi bera getnaðarlimi gestanna saman við sinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sólveig Anna lætur „megins-straums femínista“ heyra það – Vinsælt áhugamál kvenna sem hafi náð jafnrétti

Sólveig Anna lætur „megins-straums femínista“ heyra það – Vinsælt áhugamál kvenna sem hafi náð jafnrétti