Í morgun var greint frá því á DV að fulltrúar Neyðarlínunnar hafa verið kallaðir á fund hjá Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar kl. 13 í dag þar sem þeir þurfa að svara gagnrýnum spurningum. Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður ráðsins, og borgarfulltrúi Pírata ræddi við DV um málið.
„Almenningur á skilið að það sé hlustað og brugðist við. Það væri alvarlegt ef viðhorf Neyðarlínunnar einkennist af fordómum sem leiðir til mismununar í garð jaðarsettra hópa, fólks af erlendum uppruna og fólks sem neytir vímuefna, á verstu mögulega stundu sem snýst um líf og dauða. Jafnvel ásýnd slíks viðhorfs, þó bara væri um ásýnd að ræða, getur verið gríðarlega skaðleg og því þarf að svara fyrir þetta.“
Þá mætti hún einnig í morgunþátt Rásar 2 og ræddi málið, en nú hefur Neyðarlínan birt yfirlýsingu vegna orða hennar í þættinum.
„Neyðarlínan harmar að borgarfulltrúinn Dóra Björt Guðjónsdóttur, hafi í morgunþætti Rásar 2 í morgun kosið að setja fram grófar en tilhæfulausar ásakanir á hendur starfsfólki Neyðarlínunnar. Ásakanirnar lutu að viðbrögðum við hringingu í neyðarnúmerið 112 þar sem óskað var aðstoðar vegna ölvunarástands. Velti borgarfulltrúinn því upp hvort viðbrögð neyðarvarðar bæri vott um kvenfyrirlitningu og /eða andúð á útlendingum og sjúkraliðar ekki kvaddir til með forgangi af þeim sökum.“
Í yfirlýsingunni segir Neyðarlínan að ummæli Dóru eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum. Hún er sögð fara með ósannindi og ætlast Neyðarlínan til þess að hún biðjist afsökunar.
„Þessar ásakanir eiga sér auðvitað enga stoð í raunveruleikanum, enda staðfesti borgarfulltrúinn í viðtalinu að hún hafi ekki leitað upplýsinga um málið áður en hún kaus að setja fram grófar og meiðandi ásakanir í fjölmiðlum.
Eins og áður segir, laut umrætt atvik að beiðni um aðstoð vegna ölvunarástands ungra stúlkna sem þegar var komið til lögreglu og sendi hún lögreglubifreið á vettvang. Í þriðja símtali sem barst Neyðarlínunni og því lýst að viðkomandi andaði ekki, voru kvaddir til tveir sjúkrabílar sem fóru í forgangsakstri á staðinn. Var stúlkunum komið til bjargar 8 mínútum eftir að fyrst var beðið um aðstoð sjúkraliða og nokkrum mínútum síðar voru þær komnar á bráðadeild Landsspítalans. Fleiri vegfarendur hringdu inn til Neyðarlínunnar að þessu tilefni, en færslur sýna að viðbrögð neyðarliða, lögreglu og sjúkraliða voru í senn fumlaus og hröð. Ásakanir borgarfulltrúans eiga sér því enga stoð.
Borgarfulltrúinn hafði áður óskað eftir því að fulltrúi 112 þjónustunnar mætti á nefndarfund hjá Reykjavíkurborg, sem hún stýrir og kynnti þar verklag Neyðarlínunnar við móttöku neyðarboða frá almenningi. Hafði jafnframt verið staðfest skriflega frá Reykjavíkurborg að ekkert sérstakt tilefni væri fyrir þessari ósk. Fundurinn var haldinn fyrr í dag og var borgarfulltrúum gerð ítarlega grein fyrir verklagi. Jafnframt var farið vandlega yfir atburðarás í því máli sem borgarfulltrúinn hafið kosið að ræða við almenning á Rás 2 í morgun, áður en hún kynnti sér málið.
Neyðarlínan fer fram á afsökunarbeiðni Dóru Bjartar Guðjónsdóttur vegna ósannra og meiðandi ummæla hennar.“