fbpx
Miðvikudagur 14.maí 2025
Fréttir

Stefán sakar RÚV og Kjarnann um spillingu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 26. maí 2020 15:14

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stefán Einar Stefánsson, viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins, telur RÚV og vefritið Kjarnann hafa gert sig ber að spillingu fyrir opnum tjöldum. Snýst málið um val á viðmælendum í hinn þekkta sjónvarpsþátt Silfrið en stjórnandi þáttarins, Fanney Birna Jónsdóttir, hefur tvívegis undanfarið teflt þar fram sem álitsgjafa Þórði Snæ Júlíussyni, ritstjóra Kjarnans.

Stefán telur þetta athugunarvert af tveimur ástæðum, annars vegar sé Kjarninn svo lítið lesið rit að hann skipti engu máli í íslenskri samfélagsumræðu, hins vegar sé Fanney Birna sjálf hluthafi í útgáfufélagi Kjarnans. Þórður er einnig hluthafi þar. Þess má geta að Stefán hefur áður gagnrýnt Kjarnann fyrir að birta mestmegnis endurunnar viðskiptafréttir úr Morgunblaðinu í bland við langa skoðanapistla. Stefán ritar:

„Sum spilling þrífst fyrir opnum tjöldum og misnotkun á opinberu fé og stofnunum einnig. Enginn segir neitt. Það þykir t.d. ekkert nema eðlilegt að Fanney Birna Jónsdóttir, sem er ágætur þáttastjórnandi Silfursins, skuli tvívegis meðan á kórónufaraldrinum stendur, kalla Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans til viðtals í þættinum. Fyrst í upphafi þar sem honum var stillt upp á móti framkvæmdastjóra SA og svo í gær á móti blaðamanni á Fréttablaðinu.“

Hann víkur síðan að áhrifaleysi Kjarnans í umræðunni:

„En hví geri ég athugasemd við þetta. Fyrir því eru tvær skýringar. Í fyrsta lagi sú augljósa að Kjarninn er vefsíða sem hefur litla sem enga skírskotun í íslensku samfélagi. Lesturinn á miðlinum er svo lítill að eigendur hans þora ekki að birta mælingar á honum.“

Síðan drepur Stefán á tengsl Fanneyjar við Kjarnann:

„Í öðru lagi er Fanney Birna, starfsmaður Ríkisútvarpsins, hluthafi í Kjarnanum líkt og fram kemur á heimasíðu Fjölmiðlanefndar. Um skamman tíma var hún einnig aðstoðarritstjóri vefsins. Hún er með öðrum orðum að taka viðtöl við ritstjóra einkamiðils sem hún hefur sjálf hagsmuna að gæta gagnvart. Hvernig í ósköpunum getur það staðist hlutleysiskröfur þær sem gerðar eru til RÚV?“

Stefán bendir síðan á að Þórður sé duglegur að benda á spillingu í samfélaginu og furðulegt sé að hann sjái ekki hvað þessi staða sé sérkennileg. Hann spyr hvers vegna RÚV, sem eigi að vera hlutlaust, hampi Kjarnanum svona mikið en Stefán segir að afar oft sé vitnað til Kjarnans í umfjöllun miðla RÚV, t.d. í vikulegum innslögum á Rás 1:

„Þórður Snær er duglegri en nokkur annar Íslendingur um þessar mundir að benda á spillingu og það sem honum þykja vera alvarlegar brotalamir á samfélagsgerðinni. Af hverju sér hann ekki hversu sjúk þessi sena er? Taka mætti saman hvert aðgengi hans að Ríkisútvarpinu er, t.d. í vikulegum innslögum á Rás 1. Hvað veldur því að hið hlutlausa RÚV ýtir svo mjög undir Kjarnann sem engu máli skiptir þegar kemur að raunverulegri fréttaumfjöllun í landinu? Ætli það tengist stjórnmálaskoðunum þeim sem ritstjórinn og RÚV-fólkið deilir í ríkum mæli?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

VÆB áfram í Eurovision!

VÆB áfram í Eurovision!
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Sigurbjörg er enn á götunni og engin lausn í sjónmáli

Sigurbjörg er enn á götunni og engin lausn í sjónmáli
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Hinn siðblindi Siggi hakkari flækist inn í stóra lekamálið og Jón Óttar viðrar samsæriskenningu um Helga Seljan og héraðssaksóknara

Hinn siðblindi Siggi hakkari flækist inn í stóra lekamálið og Jón Óttar viðrar samsæriskenningu um Helga Seljan og héraðssaksóknara
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Var ekki nógu þolinmóður við að bíða eftir gluggatjöldunum

Var ekki nógu þolinmóður við að bíða eftir gluggatjöldunum
Fréttir
Í gær

Alexios og Rafail fengu þunga dóma fyrir kókaíninnflutning til Íslands

Alexios og Rafail fengu þunga dóma fyrir kókaíninnflutning til Íslands
Fréttir
Í gær

Afhjúpa áróður á TikTok – „Svo aumt af SFS að geta ekki komið fram undir eigin nafni“

Afhjúpa áróður á TikTok – „Svo aumt af SFS að geta ekki komið fram undir eigin nafni“