fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Barnavernd líkleg til að grípa inn í ef hætta steðjar að barninu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 23. maí 2020 17:03

Dofri Hermannsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frétt sem birtist á Stundinni þriðjudagskvöldið 18. maí undir fyrirsögninni „Dofri nemur dóttur sína á brott“ vakti mikla athygli. Þar greinir frá því að Dofri Hermannsson, sem vakið hefur athygli fyrir baráttu sína gegn foreldraútilokun og er formaður Félags um foreldrajafnrétti, hefði ekki farið með tíu ára gamla dóttur sína til móður sinnar, föstudaginn 15. maí, í samræmi við skipta og jafna umgengni foreldranna, en barnið er með lögheimili hjá móður sinni og dvelst hjá Dofra aðra hverja viku. Í frétt Stundarinnar segir:

„Þetta staðfestir systir stúlkunnar, Katrín Arndísardóttir, fyrrverandi stjúpdóttir Dofra. „Við höfum miklar áhyggjur af henni, því við teljum að hún sé í mjög erfiðum aðstæðum,“ segir Katrín. „Við erum miður okkar.““

Dofri svaraði fréttaflutningnum í pistli á Kvennablaðinu þar sem hann harmaði að svo viðkvæmt einkamál hefði verið gert að fréttaefni. Þar greindi Dofri frá því að dóttir hans hefði kvartað undan andlegu ofbeldi móður sinnar og fjölskyldu hennar í skólanum og skólinn hefði tilkynnt málið til barnaverndar. Þar væri málið í farvegi og því ótilhlýðilegt að birta fréttir af viðkvæmum málum sem væru þar til umfjöllunar.

Sýslumaður hefur rannsóknarskyldu

DV hefur hingað til sneitt hjá fréttaflutningi um forsjár- og tálmunardeilur Dofra Hermannssonar og almenn regla er sú að fjalla ekki um slík mál nema þegar þau tengjast niðurstöðum dómstóla sem eru til opinberrar birtingar. Mál sem þessi skjóta hins vegar oft upp kollinum í fjölmiðlum með einum eða öðrum hæti og forræðisdeilur rata oft og iðulega inn á vettvang samfélagsmiðla þar sem þær eru tilefni hatrammra orðaskipta.

Sú spurning hvað almennt gerist þegar foreldri neitar að láta barn úr vörslu sinni til hins foreldris á tilskildum tíma er hins vegar áleitin – sem og sú tengda spurning hvað tekur við þegar annað foreldrið sakar hitt um ofbeldi gegn barninu.

Með öðrum orðum vakna spurningar um hvort lögregla muni lýsa eftir Dofra vegna málsins eða hvort dagsektum kunni að verða beitt. Lögregla hefur vísað á barnaverndarnefnd um slíkar spurningar og barnaverndarnefnd getur ekki veitt neinar upplýsingar.

Ekki er hlaupið að því að fá lögfróða aðila til að tjá sig um mál eins og þetta vegna þess hve viðkvæmt það er, en lögfræðingur sem hefur mikla reynslu af þjónustu við foreldra í sambærilegum aðstæðum, var tilbúinn að veita álit sitt, en vildi gera það nafnlaust þar sem viðkomandi vildi ekki tengja nafn sitt við málsaðila, enda væri hann ekki hagsmunagæsluaðili þeirra.

„Hvað varðar dagsektir þá er það lykilatriði hvort fyrir liggi staðfestur umgengnissamningur. Ef honum er til að dreifa og foreldri skilar ekki barni í sameiginlegri forsjá getur hitt foreldrið farið í dagsektarmál hjá sýslumanni. Ef foreldri hlýðir ekki þá er hægt að fara í aðför – innsetningaraðgerð og ná í börnin. Ef farið er í dagsektarmál ber sýslumaður rannsóknarskyldu og hann hefur víðtækar heimildir til að leita sér aðstoðar sérfræðinga, hann getur jafnframt freistað þess að ná sáttum með aðilum, það eru ýmis tæki og tól sem sýslumaður hefur,“ segir þessi lögfræðingur sem telur að ásakanir um ofbeldi gegn barni komi ávallt til rannsóknar hjá sýslumanni og barnaverndarnefnd.

„Dagsektarmál hafa forgang hjá sýslumannsembættinu, þau þurfa að vinnast hratt og eru ofarlega á lista,“ segir þessi viðmælandi okkar.

„Það liggur rannsóknarskylda á embættinu, sýslumaður er stjórnvald og hann beitir ekki dagsektum, sem er þvingandi úrræði, ef fyrir liggur að barnið sé í hættu í umsjá annars hvors foreldrisins,“ segir viðmælandi okkar jafnframt, en þau orð stangast nokkuð við tíðar fullyrðingar á samfélagsmiðlum þess efnis að ítrekað sé verið að senda börn í hendur ofbeldisfullra foreldra.

Treystir barnavernd

Álitsgjafi okkar segir að mjög oft við sambúðarslit ákveði foreldrar sameiginlega forsjá og jafna umgengni en svo geta aðstæður breyst sem verða til þess að annað foreldrið krefjist breytinga á fyrirkomulaginu. Til dæmis ef hitt foreldrið fer í nýja sambúð eða annað foreldrið fer að gruna hitt um ofbeldi gegn barninu. Virðist blasa við að grundvöllur sameiginlegrar forsjár í þessu máli sé brostinn og það komi til kasta yfirvalds um breytingar.

Viðmælandi okkar telur fullvíst að þegar ofbeldi eigi sér stað í málum sem þessum þá rannsaki barnavernd málið og grípi inn í ef ástæða er til:

„Ég treysti barnavernd til að meta hvort barnið er í hættu statt, ef hún metur það svo þá grípur hún til aðgerða.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi