fbpx
Þriðjudagur 01.desember 2020
Fréttir

Ólga í Vesturbæ útaf hundapissi – Blóðug forsaga – „Ég hef líklega kallað það yfir mig“

Jón Þór Stefánsson
Föstudaginn 22. maí 2020 18:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í vikunni vakti færsla Svövu Ástudóttur mikla athygli í Facebook-hóp Vesturbæinga. Færsla Svövu var ætluð hundaeigendum sem hún fór ekkert einstaklega fallegum orðum um, en hún var ósátt með að sjá hundapiss á húsinu sínu.

„Kæru heiðvirðu fjandans hundaeigendur.

Viljiði vinsamlegast hætta að leyfa hundunum ykkar að míga og skíta á – og við húseignir fólks.

Sýna örlitla virðingu fyrir vinnu og viðhaldi á húsum bæjarins. Þessi yfirsteypta 150 ára gamla steinhleðsla er nýmáluð meðal annars vegna hundapiss á báðum hornum og milli glugga.

Já þið megið éta skít mín vegna.“

„Ég myndi fá mér hús fjarri mannabyggð“

Hringbraut fjallaði um málið stuttu eftir að færslan birtist, en eins og áður kom fram voru viðbrögðin voru ansi mikil. Nú hafa 122 ummæli verið látin falla undir færsluna. Ansi mörg þeirra eru skrifuð af fólki sem er ósammála Svövu, þó að einhverjir séu sammála.

„Ég myndi fá mér hús fjarri mannabyggð ( og hunda ) ef þetta er ástæða til að henda í status,“

„Voðaleg heift er þetta. Það er mjög erfitt að stýra því hvar hundarnir á-kveða að míga í göngutúrnum, því miður.“

Svarar nágrönnunum vegna skítkastsins

Svava svaraði nágrönnum sínum í gær. Hún segir að margir af þeim sem hafi látið ummæli falla séu sjálfhverfir gagnvart eigum annara. Svava telur að margir aðrir hafi lagt mikið á sig fyrir húsin sín, en að flestir séu ekki jafn „tannhvassir“ og hún.

 allir og takk fyrir frábær viðbrögð. Það má með sanni segja að mér hafi tekist að láta Vesturbæinga svelgjast á kaffinu í dag. Ég get ekki sagt annað en ég er á heildina litið mjög ánægð með árangurinn þó svo ég hafi þurft að láta hundaeigendur alla hafa það óþvegið í andlitið. Ég hins vegar dreg þá ályktun af fjölda kommenta að margir eru töluvert sjálfhverfir þegar kemur að eignum annarra og sameign okkar hér í bænum. Ég held að allir skilji ef það er aðeins skoðað að míga og skíta á eignir annarra hvort það sé sameign eða séreign er ekki lagi hvort sem það eru dýr eða menn- hvernig sem viðrar- hver svo sem eigandi/eigendur eru hér eða annars staðar. Hver dýraeigandi þarf að ala sitt dýr í samræmi við við þéttbýli við aðra. Ég veit fyrir víst að það eru fleiri sem eiga þessi gömlu hús hér í borg og hafa líka lagt blóð svita og tár í viðhald á þessum eignum. Þó ég sé tannhvassari en aðrir þá eru margir hér sem vita hvað ég er að tala um- því það virðist sem miðaldra fólk og okkar eldri kynslóð eigi eignirnar og beri mikla virðingu fyrir þessum fyrstu húsum Reykjavíkur.“

„Ég hef líklega kallað það yfir mig sjálf “

Svava segist skiljanlega hafa fengið mikinn skít yfir sig. Hún bendir á að hluti hússins sé jafngamall alþingishúsinu og bráðlega verði það allt alfriðað. Hún hafi eytt miklum tíma í viðhald sem sé leiðinlegt ef að afraksturinn verði bara útmiginn.

„Ég hef að sjálfsögðu fengið hér mikinn skít til baka og skiljanlega, ef ég þarf að taka á móti öllum 300 hundum hér í Vesturbæ að skíta á lóðina mína, þá dæmir það sig sjálft. Og ég hef líklega kallað það yfir mig sjálf fyrir að fordæma sóðaskap á Internetinu. Ef það dugar ekki til að höfða til sómakenndar samborgara og sýna eigendum húsa hér í bænum lágmarks virðingu er hér annar vinkill.

Hluti hússins er jafngamall Alþingishúsinu, hér er steinhleðsla eins og í húsi rifrilda og eitt mesta stolt landsins (hver svo sem er þar inni). Til að vinna steininn í byggingu eru þúsundir klukkustunda í vinnu og var þessi tilhögni steinn aðeins framleiddur í örfá ár. Sá hluti er nú útmiginn eftir viðgerðir og málun. Húsinu fylgir mikil saga og er til dæmis helmingur hússins friðað og verður alfriðað eftir 6 ár sem söguminjar. Ég tel mig bara tímabundinn eiganda að húsinu og ber skylda til að varðveita þetta merkilega hús.“

„Slátrað á miðri lóðinni með tilheyrandi blóðslettum“

Svava átti sjálf hænur í Vesturbænum, en þær voru myrtar af hundi í fyrra. Fréttablaðið greindi frá því á sínum tíma, en þá sagði Svava þetta:

„Þetta hefur gerst upp úr hádegi, þær voru ekki allar orðnar stífar greyin. Þegar við komum að þessu voru hænsnalík, blóð og hundaspor út um allt. Við höfum haldið þessi hænsn í þrjú og hálft ár með mjög farsælu samstarfi í nágrenninu og þær eru ótrúlega skemmtilegar. Ég hefði ekki trúað því að hænur gætu verið svona skemmtilegar svo þetta er mjög sorglegt fyrir okkur,“

„Það var vægast sagt skelfingar aðkoma sem drengurinn kom að. Það var búið að brjótast inn í heimili hænsnanna og slátra þeim hver af annarri. Ein fannst örend oná eggjunum sínum, önnur bitin í gegn út í horni önnur hafði náð að sleppa út þar sem brotist hafði verið inn og var slátrað á miðri lóðinni með tilheyrandi blóðslettum í snjónum og fiðri útum gjörsamlega allt,“

Veit hvaða hundur drap hundur drap hænsnin

Svava viðurkenndi í færslu sinni í gær að tenging sín við hænurnar gæti hafa veitt henni samúð. Hún segir að þær hafi veitt henni mikla gleði, en telur þó að það væri óábyrgt af sér að fá sér hænur aftur.

„Ég skal viðurkenna að ég sé eftir því að hafa bendlað sjálfa mig við hænurnar þar sem ég gæti hafa fengið auka samúð. Fyrir okkur sem höfðum mikið gaman af hænunum þá er ennþá verið að spyrja mig um þær, nú 2 árum seinna. Þær veittu mikla gleði og egg á hverju degi- sumir svo heppnir að vera í eggjaáskrift. Ég er ennþá í dag spurð hvort ég ætli ekki að fá mér hænur aftur. Svarið er nei. Enda væri það mjög óábyrgt af mér. Ég veit hvaða hundur þetta er, hann á, eða átti heima hérna norðan við hús. Hef ekki séð til hans í ár eða svo. Ég tel að eigandi hundsins viti upp á sig skömmina því ein hænan fannst aldrei- hundurinn hefur líklega tekið hana með sér heim eins og dýrum er tamt þegar þau vilja leika/gleðja eigendur sína. Svo af eigin skinni mæli ég ekki með hænsaeign í Vesturbænum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt