Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, var í viðtali í Silfrinu í dag og greindi nokkuð frá einkahögum sínum. Dorrit Moussiaeff, eiginkona Ólafs, smitaðist af kórónuveirunni og af því leiddi að hún þurfti að vera í einangrun og hann í sóttkví. Ólafur segir í viðtalinu að sóttkvíin hafi verið hálfgerður léttir því hann hafi verið búinn að ferðast allt of mikið og það hafi verið gott að vera bara heima hjá sér og njóta náttúrunnar í Mosfellsbænum.
Dorrit er í áhættuhópi en hefur engu að síður náð bata frá COVID-19. Sjálfur fór Ólafur í nokkur smitpróf en þau reyndust öll neikvæð. „Dorrit var bara orðin lokuð inni í herbergi og ég varð að leggja matinn fyrir utan dyrnar hjá henni, passa að hún fengi eitthvað að borða og gat aldrei snert hana eða komið nálægt henni. Við vorum bara tvö ein í húsinu í Mosfellsbæ,“ segir Ólafur. Hann segir að fjölskyldan hafi keypt í matinn fyrir þau og skilið eftir fyrir utan húsdyrnar.
Ólafur segir að þessi einangrun hafi verið mögnuð lífsreynsla og hún sýni hvernig veira af þessu tagi getur umturnað lífi allra.