Meðal þess sem kom fram á COVID-19 upplýsingafundi dagsins var að hér á landi hefur enginn fullorðinn smitast af barni af veirunni. Þetta sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Þessi staðreynd er stór þáttur í þeirri ákvörðun almannayfirvalda að létta takmörkunum af skólastarfi. Víðir minnir á að skólaskylda er í landinu. Foreldrar þurfa að koma börnum sínum í skólann svo skólastarf geti verið með eðlilegum hætti.
Enginn smitaðist af COVID-19 hér á landi síðasta sólarhring. Er þetta í þriðja skipti sem það gerist frá því faraldurinn hófst hér. Enn ánægjulegra er að töluvert mörg sýni voru tekin, eða um 800.