„Ég hélt í vonina um að þetta væri ekki að gerast,“ segir Trausti Þór Þorsteinsson hlaupari sem undafarin misseri hefur stundað nám og keppt með liði Wagner háskóla í Bandaríkjunum. Þegar Covid-19 faraldurinn skall á var heimavist skólans lokað og öll mót og atburðir felld niður. Trausti tjáir sig um vandræði sem hann lenti í í viðtali við fjölmiðilinn Silive.com.
Trausti Þór hefur undanfarin misseri stundað nám í kvikmynda- og fjölmiðlafræði og keppt með hlaupaliðinu í Wagner háskóla í New York fylki. Í grein Silive kemur fram að hann hafði náð gífurlegum framförum á stuttum tíma og þykir hann einkar efnilegur.
Um miðjan mars síðastliðinn, þegar Covid-19 faraldurinn var farinn að breiðast hratt um Bandaríkin, var fjölskylda Trausta, foreldrar og systir stödd, í heimsókn hjá honum. Þegar skóla og keppnishald var fellt niður var ljóst að Trausti væri á leið heim til Íslands á ný.
„Ég var afar heppinn að því leyti að fjölskylda mín var hjá mér. Þetta er stressandi,“ segir Trausti í símaviðtali við Silive í seinustu viku. Hann segir fjölskylduna hafa leitað logandi ljósi að flugi heim til Íslands, á meðan hverju fluginu á fætur öðru var aflýst.
„Ég vildi vera áfram úti í Bandaríkjunum. Ástandið í New York fór sífellt versnandi. Þú þarft að passa upp á öryggi þitt. Fjölskyldan vildi bara fá mig heim.“
Á endanum tók það fjölskylduna heila viku að finna flug heim til Íslands en á meðan bjó Trausti áfram á heimavist skólans en foreldrar hans og systur gistu í Airbnb íbúð sem þau höfðu tekið á leigu.
Trausti segist ætla að halda æfingum áfram á meðan faraldurinn gengur yfir og undirbúa sig undir næstu leiktíð. „Við þurfum að laga okkur að aðstæðum,“ segir hann.
Trausti segist jafnframt hafa unað hag sínum vel vestanhafs og var búinn að koma sér vel inn í bandaríska menningu áður en faraldurinn skall á. „Það horfa allir bara á björtu hliðarnar á þessu og vonast til að geta snúið til baka í enn betra formi en áður.“
Þá segir Trausti að ástandið undanfarnar vikur sé í raun nokkurs konar prófsteinn á þrautseigju og viljastyrk þeirra sem vilja ná langt í íþróttum.
„Þessi staða er langt frá því að vera fullkomin á allan hátt en þetta snýst um að missa ekki sjónar á takmarkinu.“
Þá segir hann að samstaðan sé mikil á meðal skólafélaganna.
„Við erum öll í þessu saman. Andrúmsloftið var þungt þegar þetta skall á. Háskólaárin eru svo stuttur tími,“ bætir hann við en hann kveðst sakna þess að hlaupa og vera í kringum liðsfélaganna. „Ég held að allir séu að takast á við þetta eins vel og þeir geta.“