Olga María Þórhallsdóttir Long, náfrænka Söndru Lífar Þórarinsdóttur Long, sem ekkert hefur spurst til síðan á fimmtudag, segir í samtali við DV að bíllyklar og snjallsími Söndru hafi fundist í bíl hennar sem fannst yfirgefinn á Álftanesi á laugardag.
Einnig hafði Sandra meðferðis nokkuð stóra tösku en að sögn Olgu voru aðallega stílabækur í töskunni. Sandra er í námi í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Einnig starfar hún sem þjónn. Líklega var taskan líka í bílnum en DV hefur það ekki fyllilega staðfest.
Sandra er 27 ára gömul, einhleyp og barnlaus. Að sögn Olgu hefur Söndru vegnað vel og ekkert hefur amað að henni undanfarið.
Samkvæmt frétt á vef Fréttablaðsins skilaði leit björgunarsveita í dag einhverjum vísbendingum sem nú eru á borði lögreglu. Ekki er vitað hvers eðlis þær vísbendingar eru.