Líklega mun það koma í ljós í vikunni eftir páska hvernig aflétting á hömlum vegna COVID-19 verður háttað en samkomubann stendur til 4. maí. Þórólfur Guðnason sagði á upplýsingafundi dagsins að afléttingin verði í skrefum og muni taka langan tíma.
Aflétting aðgerða verður líklega á þriggja til fjögurra vikna fresti og halda áfram fram á sumar. Líklegt er að takmarkanir verði á stórum samkomum í sumar. Engum núverandi hömlum verður aflétt fyrr en eftir 4. maí.
Þó að flestum hömlum verði aflétt í sumar er mikilvægt að fylgja ráðleggingum um handþvott, fjarlægð milli einstaklinga og fleiri slíkum ráðum út árið.
Ennfremur kom fram að búast megi við einhverjum hömlum á ferðum til og frá landinu. Segir Þórólfur að útfærslur á því verði kynntar síðar, en spurningar um þetta brenna mjög á ferðaþjónustunni.