fbpx
Mánudagur 04.mars 2024
Fréttir

Byrlun á Bar Ananas – Lögreglan taldi Íslending hafa eitrað fyrir umdeildum rithöfundi – Sýnum fargað og málið látið niður falla

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 30. janúar 2020 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Athugið – Þessi grein var fyrst birt á vef DV í byrjun desember á síðasta ári en hefur nú verið uppfærð með ástæðum þess að rannsókn á máli Roberts Spencer var látin niður falla. Þessar upplýsingar vantaði í upprunalegu greinina og var því ábótavant.

Rannsóknarlögreglumenn ásamt fyrrverandi aðstoðarsaksóknara Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu (LRH) töldu, miðað við fyrirliggjandi gögn í sakamálarannsókn, að tveir Íslendingar hefðu byrlað hinum þekkta en jafnframt umdeilda rithöfundi Robert Spencer MDMA og amfetamín þegar hann heimsótti skemmtistaðinn Bar Ananas árið 2017. Íslendingarnir höfðu stöðu sakbornings í málinu sem vakti mikla athygli hér á landi. Rannsókn málsins var hætt á sínum tíma og ekki þótti tilefni til að leggja fram kæru á hendur Íslendingunum, sökum þess að blóð- og þvagsýni sem tekin voru úr Spencer er hann leitaði sér læknisrannsóknar hafði verið fargað þegar Héraðssaksóknari sendi beiðni um frekari rannsókn á málinu til LRH. Var sú ákvörðun tekin þrátt fyrir að aðstoðarsaksóknari lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefði verið þess fullviss að málarekstur þeirra myndi leiða til sakfellingar. Þetta kemur fram í lögregluskýrslum embættisins sem DV hefur undir höndum.

Robert þessi kom til Íslands fyrir tveimur árum til þess að halda fyrirlestur sem bar yfirskriftina „Íslam og framtíð evrópskrar menningar.“ Ekki voru allir á eitt sáttir við heimsókn Roberts Spencer hingað til lands en hann hélt fyrirlestur sinn á Grand Hótel í Reykjavík. Nokkur hundruð manns sóttu fyrirlestur hans sem mætti mótmælum, meðal annars fyrir utan hótelið þar sem haldinn var samstöðufundur gegn Robert. Eftir fyrirlesturinn hélt Robert ásamt fylgdarliði í miðbæ Reykjavíkur. Leiðin lá á skemmtistaðinn Bar Ananas við Klapparstíg. Þar settist Robert til borðs ásamt samstarfsmanni sínum, Christine William, og lífverði sínum, Pasquale. Samkvæmt lögregluskýrslum tóku nokkrir gestir staðarins eftir því þegar Robert gekk inn á staðinn og veittu þeir honum þónokkra athygli eða eins og segir í skýrslunni: „Aðili 1 á barnum kemur auga á Robert og fylgdarlið, lætur aðila 2 og 3 vita. Þeir fara að skoða símana sína í kjölfarið.“

Tvöfaldur í Coke Zero með MDMA?

Einn af þeim þáttum sem lék veigamikið hlutverk í rannsókn lögreglu voru upptökur úr öryggismyndavélum staðarins. Þar sést Íslendingur gefa sig á tal við Robert og virðist bjóða honum upp á drykk. Umræddur Íslendingur sagði við yfirheyrslu lögreglu að hann hefði ákveðið „í einhverju djóki“ að fara og heilsa upp á hann. Robert þáði drykkinn og bað um tvöfaldan dökkan romm í Coke Zero. Íslendingurinn var yfirheyrður af lögreglu og var hann til dæmis spurður beint út hvort hann hefði sett amfetamín og MDMA út í drykk Roberts en hann neitaði því, hvorki hann eða félagi hans hefði gert slíkt. Hann hafði aldrei komið við sögu lögreglu vegna fíkniefna og sagðist ekki nota þau heldur, en í ljós kemur í lögregluskýrslu að það sé lygi þar sem hann hafi verið aukaaðili í máli þar sem amfetamín kom við sögu. Aftur á móti hafi vinur hans notað fíkniefni en ekki að staðaldri. Honum er síðan sýnt myndskeið úr öryggismyndavélum staðarins og hann beðinn um að lýsa því sem þar fer fram.

Í rannsóknarniðurstöðum segir orðrétt: „Upptaka úr öryggismyndavélum staðarins sýnir er kærðu kaupa umræddan drykk. Þá sést kærði Sindri afhenda kærða Sigurði sogrör sem hann í kjölfarið fer með inn á salerni staðarins. Er hann kemur til baka að barnum tekur hann drykkinn í hönd, færir hann undir barborðið og virðist vera að eiga við hann. Í kjölfarið hrærir hann ítrekað í drykknum eins og verið sé að blanda einhverju út í hann. Kærðu eru á þessum tíma varir um sig og fer ekki á milli mála að eitthvað meira er að eiga sér stað en einföld drykkjarpöntun. Þá liggur fyrir að umræddur drykkur, sem brotaþoli sést innbyrða, er sá eini sem hann neytti umrætt kvöld og barst frá óviðkomandi þriðja aðila.“

„… málið sé líklegt til sakfellis“

„Einnig skal tekið fram að brotaþoli er bandarískur fyrirlesari sem var á landinu í því skyni að flytja fyrirlestur um trúarbrögð íslam. Kvaðst hann hafa orðið fyrir aðkasti inni á skemmtistaðnum umrætt kvöld vegna skoðana hans og taldi að kærðu hafi byrjað honum ólyfjan vegna skoðana sem hann hafði tjáð á fyrirlestri sínum fyrr um daginn,“ segir í rannsóknarniðurstöðu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. En niðurstaðan gerir meira en að ýja að sekt þeirra Sindra og Sigurðar því í niðurlagi skýrslunnar stendur: „Með vísan til alls þessa og gagna málsins, einkum ofangreindrar upptöku, telur undirritaður að málið sé líklegt til sakfellis.“ Undir skýrsluna kvittar Kjartan Ólafsson, aðstoðarsaksóknari Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þá taldi lögreglan að rökstuddur grunur lægi fyrir að brotið hefði verið framið af ásetningi sem byggðist á neikvæðum viðhorfum til Spencer vegna pólitískra skoðanna hans. Því var brotið einnig talið hatursglæpur.

En hvað gerðist svo? Embætti Héraðssaksóknara sendi ákærusviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu beiðni um framhaldsrannsókn þar sem farið var fram á að aflað yrði frekari sönnunargagna og upplýsinga, þar á meðal að efnamæla og -greina blóð- og þvagprufur sem teknar voru úr Spencer er hann leitaði sér læknisaðstoð eftir örlagaríka kvöldið á Bar Ananas. Þessum prufum var hins vegar búið að farga á þessu stigi rannsóknarinnar og því var málið fellt niður.

Einn af þeim sem hafði réttarstöðu grunaðs manns í málinu, fyrrverandi rekstrarstjórinn Sindri Geirsson, staðfesti í samtali við DV að málið hefði verið fellt niður. Sindri hefur í nokkur ár starfað á skemmtistöðum borgarinnar og þekkti því allflesta þá Íslendinga sem voru á Bar Ananas umrætt kvöld. Hann vildi lítið tjá sig um umræddar lögregluskýrslur í samtali við DV. Spurður út í lýsingar lögreglunnar af atvikum, eftir því sem þær birtust þeim í upptökum úr öryggismyndavélum, þá vildi Sindri ekki tjá sig um það beint: „Svarið mitt við þessu er að þetta mál var rannsakað á sínum tíma og þeirri rannsókn var hætt samkvæmt bréfi frá aðstoðarsaksóknara.“ Ekki náðist í félaga Sindra, Sigurð Ólafsson, við vinnslu fréttarinnar.

Embættin ósammála

DV reyndi að ná sambandi við þá sem komu að þeirri ákvörðun að láta málið niður falla en hafði ekki erindi sem erfiði. Ólafur Hauksson héraðssaksóknari kom ekki að umræddu máli en í viðtali við blaðið sagði Ólafur að það væri ekki óalgengt að embættin, þá embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og embætti héraðssaksóknara í þessu tilfelli, fengju tvær mismunandi niðurstöður. Hjá einu embættinu eru fyrirliggjandi gögn talin líkleg til sakfellingar en hjá hinu embættinu eru meiri líkur taldar á sýknun. En eins og áður segir gat Ólafur aðeins talað almennt um svona atvik.

Robert kom hingað til lands í maí mánuði árið 2017 í boði samtakanna Vakurs. Eins og áður segir er hann umdeilur var bókin hans The Truth About Muhammad til dæmis bönnuð í Pakistan árið 2016. Þá var bókin Onward Muslim Soldiers bönnuð í Malasíu árið 2007. Bandaríkjamanninum einnig meinað að koma til Bretlands árið 2013 til þess að halda fyrirlestur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hart deilt um Bashar – Egill sakar Andrés um að ala á útlendingaandúð – „Þú ert kominn út á mjög hálar brautir“

Hart deilt um Bashar – Egill sakar Andrés um að ala á útlendingaandúð – „Þú ert kominn út á mjög hálar brautir“
Fréttir
Í gær

Vorboðinn ljúfi Söngvakeppnin

Vorboðinn ljúfi Söngvakeppnin
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Háskóladagurinn er í dag

Háskóladagurinn er í dag
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þjónusta skert við fárveikan mann sem heldur hvorki hægðum né mat – „Þú ert ekkert á neinum sérsamningi hér“

Þjónusta skert við fárveikan mann sem heldur hvorki hægðum né mat – „Þú ert ekkert á neinum sérsamningi hér“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bílstjóri ráðherra lagði íslenska ríkið – Fær orlofsgreiðslur á fasta 55 klukkustunda yfirvinnu

Bílstjóri ráðherra lagði íslenska ríkið – Fær orlofsgreiðslur á fasta 55 klukkustunda yfirvinnu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ástþór sakaður um ágengni þegar hann mætti óboðinn í matsal HA – „Þeir voru bara í grunnskólabörnum“

Ástþór sakaður um ágengni þegar hann mætti óboðinn í matsal HA – „Þeir voru bara í grunnskólabörnum“