Michele Roosevelt Edwards, stjórnarformaður USAerospace Associates LLC, segir að WOW air fari í loftið eftir fáeinar vikur. Þetta segir Michele á LinkedIn-síðu sinni. Fréttablaðið vakti fyrst athygli á þessu.
Ýmislegt hefur gengið á í undirbúningi að fyrsta flugi félagsins, en þann 6. september síðastliðinn sagði Michele á blaðamannafundi á Hótel Sögu að fyrsta flug félagsins eftir endurreisn færi í loftið í október. Fyrstu ferðirnar yrðu milli Keflavíkur og Washington. Ekkert varð af því.
Í tilkynningu sem Michele birti á LinkedIn segir að WOW air fari í loftið „eftir fáeinar vikur“ en nákvæm dagsetning er ekki tíunduð. Í tilkynningunni segir Michele að markmið félagsins sé einfalt: Það eigi að vera skemmtilegt að fljúga og kveðst hún hlakka til að kynna lykilþætti félagsins hvað það varðar.