Jón Baldvin Hannibalsson mætti ekki í fyrirtöku meiðyrðamáls síns gegn dóttur sinni Aldísi Schram, Sigmari Guðmundssyni fjölmiðlamanni og RÚV, í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Þetta kemur fram á vef Fréttablaðsins.
Jón Baldvin höfðar málið vegna ummæla sem Aldís lét falla í morgunútvarpi Rásar 2 í sumar. Umsjónarmenn þáttarins voru tveir, þeir Sigmar Guðmundsson og Helgi Seljan, og er stefnt vegna ummæla sem Sigmar lét falla í þættinum auk ummæla Aldísar, en ekki stefnt vegna framgöngu Helga.
Í þættinum sagði Aldís að Jón Baldvin hefði misnotað stöðu sína sem sendiherra í Bandaríkjunum til að fá lögreglu til að ryðjast inn á heimili Aldísar með lækni í för, fullkomlega að óþörfu. Hafi hún síðan verið nauðungarvistuð.
Á síðasta ári stigu fjölmargar konur fram og sökuðu Jón Baldvin um kynferðislega áreitni. Meðal þeirra voru fyrrverandi nemendur hans úr Hagskóla frá sjöunda áratug síðustu aldar. Nýjustu ásakanirnar eru frá sumrinu 2017 þar sem Jón Baldvin er sakaður um að strjúka afturenda ungrar gestkomandi konu.
Aldís hefur sakað Jón Baldvin um að hafa misnotað sig kynferðislega.
Ásakanir í þessa veru gegn Jóni Baldvini urðu fyrst opinberar árið 2012 er frænka hans Guðrún Harðardóttir lýsti bréfaskriftum hans er hún var á táningsaldri, skrifum sem voru að hluta klámfengin.
Samkvæmt prentútgáfu Fréttablaðsins gerir Jón Baldvin fjárkröfu á Sigmar vegna ummæla hans en ekki á Aldísi. En hann krefst þess að ummæli hennar um sig verði dæmd dauð og ómerk.
Fyrirtaka er það stig dómsmáls þegar málsaðilar leggja fram greinargerðir. Málflutningur verður síðar.