fbpx
Laugardagur 30.maí 2020
Fréttir

 „Fólk er að vakna og sjá hvar kúkurinn er farinn að fljóta í þessu kerfi“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 20. september 2019 12:25

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í sumar voru haldnir tveir stofnfundir fyrir sameiningaraflið Að rótunum sem stefnir á þátttöku í næstu alþingiskosningum. Stofnandinn, Ragnar Erling Hermannsson, hefur marga fjöruna sopið, og þekkir frá fyrstu hendi þær brotalamir sem finna má í íslenska kerfinu, þá einkum í mennta- og heilbrigðiskerfinu. Hann segir tíma kominn á gagngerar breytingar, umbyltingu á kerfinu, sem miði að því að ala af sér hamingjusama þjóðfélagsþegna. Núverandi kerfi stuðli bara að meiri óhamingju.

Uppljómun í Brasilíu

Ragnar ánetjaðist ungur fíkniefnum. Hann var lagður í einelti í skóla fyrir að vera öðruvísi og þráði fátt heitar en að falla í hópinn og líða betur. Vímuefnaneyslan ágerðist í gegnum árum og náði hámarki þegar Ragnar var handtekinn í Brasilíu árið 2009 fyrir fíkniefnasmygl, sem hann hafði tekið að sér til að losna úr fíkniefnaskuldum. Í Brasilíu var hann áfram í mikilli neyslu, en á hann leituðu þó áleitnar spurningar um hvernig hann hefði endað í þessum ógæfusporum.

„Á mínum versta tíma þarna úti í Brasilíu fékk ég senda bókina Gæfuspor eftir Gunnar Hersvein. Við lesturinn opnaðist eitthvað í huganum á mér. Síðar fékk ég senda bókina Orðspor eftir sama höfund. Fyrri bókin fjallar um gildi í lífinu, en seinni bókin er um gildin í samfélaginu. Gunnar talar í bókinni um tannhjólið í samfélaginu. Tannhjól sem er bara hannað á einn hátt og virkar bara á nákvæmlega þann hátt. Hver sem reynir að breyta gangi tannhjólsins er dæmdur til að mistakast. Þetta talaði mikið til mín. Kerfið verður ekki bætt eins og það er, það þarf að endurhugsa það eins og það leggur sig og byggja það aftur upp frá grunni.

Ég var í rosalega mikilli neyslu á meðan ég var í Brasilíu og valdi ítrekað að setja sjálfan mig  í aðstæður þar sem ég var niðurlægður líkamlega og andlega. Til dæmis bauðst mér í eitt skiptið að fara með vini mínum í ferð í einhvern geggjaðan strandbæ, sem hljómaði mjög vel, hins vegar valdi ég frekar að fara í krakkbæli. Hvers vegna valdi ég það? Hvers vegna gerði ég þetta? Þarna var ég farinn að velta þessum hlutum mikið fyrir mér.“

Hann var ekki bara farinn að velta hlutunum meira fyrir sér, heldur tók hann einnig betur eftir. „Á 12 spora fundum í Brasilíu þá tók ég eftir því að allir höfðu sambærilega sögu að segja í grunninn. Fólki leið illa, þorði ekki að vera það sjálft og leitaði í vímuefni til að líða betur.“ Ragnar fór þá að velta því fyrir sér hvort hann og fleiri hefðu tekið sömu hliðarsporin í lífinu ef heildarkerfið í samfélaginu væri betra.

Einveldi á Íslandi

Ragnar veiktist alvarlega úti í Brasilíu og fékk í kjölfarið að fara aftur til Íslands. Eftir að heim var komið hélt Ragnar áfram að taka betur eftir og sá brotalamir í íslenska kerfinu nánast hvert sem litið var.

„Klaustursmálið sýndi okkur að það er einveldi á Íslandi. Ég hitti Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þingmann Miðflokksins, fyrir rælni fyrir utan jarðböðin við Mývatn. Ég nýtti tækifærið og þakkaði honum fyrir: „Takk fyrir að leyfa okkur að skyggnast inn í hugarheim ykkar þingmanna og sýna okkur hvernig þið virkilega hugsið. Þegar yfir níutíu prósent þjóðarinnar vilja ykkur út af þingi en þið sitjið samt sem fastast, þá er það ekkert annað en bara einveldi.“

Ragnar segir ljóst að í kerfi sem er hannað af þeim sem mest græða á því, þá sé erfitt að koma í gegn breytingum til að bæta hag almennings. Þar vill hann að Að rótunum komi inn. Beint lýðræði með beinni þátttöku kjósenda í öllum ákvörðunum og stefnumótun.

„Ég ætla ekki að sitja og semja stefnuskrá og þess háttar. Ég vil upphefja hugtakið lýðræði og að stefnuskrá verði sameiginlega samin af almenningi,“ segir Ragnar. „Við myndum vilja að þjóðin hefði atkvæðarétt í hverju einasta þingmáli. Ég sé til dæmis fyrir mér eitthvert kosningakerfi í gegnum internetið eða í smáforriti og fólk hefur þetta í hendi sér, getur látið sína skoðun í ljós og haft vægi. Á þessum stofnfundum í sumar komumst við að þeirri niðurstöðu að við viljum ekki sitja á þingi til að ráða einu né neinu, við viljum að þjóðin ráði. En það eru þó tvö málefni sem við viljum berjast fyrir og erum ekki tilbúin að víkja frá. Það er annars vegar alhliða breyting á núverandi kerfi, við ætlum ekki að vinna eftir því, það er ekki að virka og þó svo að stjórnmálaflokkar á borð við Flokk fólksins og Pírata, sem eru með geggjaðar hugmyndir, hafi reynt, þá er staðreyndin bara sú að gildandi kerfi virkar bara á einn veg og því verður ekki breytt nema það sé byggt upp aftur frá grunni. Hins vegar er það stjórnarskráin okkar sem þjóðin hefur valið sér og kosið um. Þó svo ráðamenn hafi talað um þjóðaratkvæðagreiðslu sem einhverja „ráðgefandi kosningu“ þá er vilji þjóðarinnar ljós í þessum málum. Við viljum nýja stjórnarskrá og það strax.“

Kerfi sem framleiðir óhamingju

„Heili manna byrjar að mótast og þroskast strax í móðurkviði. Síðan elst einstaklingur upp og upplifir kannski sem barn tilfinningalega vanrækslu, ofbeldi – líkamlegt og/andlegt – eða önnur áföll og þá þroskast heilinn ekki eðlilega. Á þessu hafa verið gerðar rannsóknir. Því er gífurlega mikilvægt og algjör grunnkrafa að það kerfi sem börnin okkar alast upp í sé miðað að því að styrkja og efla. Maður heyrir sögur af börnum sem vakna á morgnana og neita að fara í skólann eða segjast ekki nenna því. Ef kerfið væri gott þá ættu börn að hlakka til að mæta. Samkvæmt rannsóknum frá vísindamönnum NASA eru um 98 prósent barna skapandi snillingar við fimm ára aldur, en þetta hlutfall lækkar niður í tólf prósent þegar komið er á unglingsárin og svo niður í aðeins tvö prósent á fullorðinsaldri. Þetta er skólakerfinu að kenna. Kerfið reynir að móta alla eins til að allir passi í sömu kassana og fólk elst upp hrætt við að vera það sjálft, með lágt sjálfsmat og enga sjálfsvirðingu. Það er bara þannig að fólk með góða sjálfsvirðingu er gott við sig, það leiðist ekki út í fíkniefni.“

Ragnar segir stöðuna á Íslandi slæma. „Að meðaltali eru um fimmtíu ungir drengir sem falla fyrir eigin hendi á ári hverju, þar eru þó ótalin andlát sem rekja má óbeint til andlegra veikinda eða fíknisjúkdóma, svo sem í bílslysum eða ofskömmtunar á vímuefnum. Þetta sýnir að við þurfum breytingar. Kerfið eins og það er í dag er að búa til þessi vandamál sem við erum að glíma við. Við erum að framleiða óhamingjusamt fólk. Að byggja upp sjálfsmyndina og sjálfsvirðingu það er ekki flókið. Það þarf ekki að taka neina brjálaða fyrirhöfn. Líkt og barn sem elst upp við vanhæfar aðstæður, ofríki foreldra og tilfinningalega vanrækslu er íslenska samfélagið að upplifa það sama gagnvart þinginu.“

Fjármagnið til, það fer bara ekki á rétta staði

En hvernig sér Ragnar fyrir sér að fjármagna þessa kerfisbreytingu? „Auðmenn sem borga aðeins skatt í formi fjármagnstekna, greiða, líkt og Gunnar Smári Egilsson sósíalisti benti eftirminnilega á á dögunum, ekkert útsvar. Stórar fjárhæðir eru settar í skattaskjól erlendis og skila engu í þjóðarbúið. Ef þessir peningar væru að skila sér í ríkissjóð, ef auðmenn væru að greiða það sama og hinn almenni borgari þá væri til meira en nóg fyrir þessum breytingum. Það er almenn óánægja í samfélaginu með þessa hluti.“

Dæmi um það sem Ragnar telur mikla brotalöm í kerfinu er til dæmis nýkynnt heilbrigðisstefna Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. „Plan til 2030, hvað þýðir það? Þá er hún löngu farin úr embætti. Það þarf eitthvað að gerast núna. Það sem ég vil sjá er að fólk sé kosið inn, fólk sem hefur persónulega reynslu af þeim málum sem það vinnur með, ekki að það séu manneskjur að fjalla um fíknisjúkdóma sem hafa kannski í mesta lagi smakkað hvítvín í lífinu. Ég vil konur sem hafa misst frá sér börn inn í barnaverndarnefnd, ég vil sjómann til fjörutíu ára sem sjávarútvegsráðherra. Ég vil að þeir sem stýri málaflokkum hafi persónulega reynslu og þekkingu á þeim málum sem þeir hafa með höndum.“

Sameinuð getum við stuðlað að betra kerfi

„Maður spyr sig, er þetta kerfi að virka? Er það að þjóna meirihlutahagsmunum? Nei, það er alveg á hreinu. Það er ekki eðlilegt að Alþingi njóti jafn lítils trausts meðal almennings og raun ber vitni, og þess vegna held ég að ég hafi fengið þennan meðbyr sem ég fékk þegar ég byrjaði að birta myndbönd á Facebook-síðunni minni og við þeim hugmyndum sem ég hef. Fólk er að vakna og sér hvar kúkurinn er farinn að fljóta í þessu kerfi,“ segir Ragnar sem segist loksins þora að vera hann sjálfur. „Íslendingar hafa tekið rosalega vel á móti manni og eru tilbúnir að fyrirgefa það sem tilheyrir fortíðinni. Óttinn sem ég hafði fundið fyrir frá því að ég var barn, að þora ekki og geta ekki sagt hvað mér lá á hjarta, er farinn.“

Ragnar trúir því enn fremur að ef þau félög/samtök og aðrir sem berjast fyrir kerfisbreytingum taka sig saman þá séu allir vegir færir. „Ég væri einnig til í þau samtök sem berjast fyrir kerfisbreytingum, sama í hvaða formi er, minnihlutahópar á borð við Metoo, Samtökin 78 og svo framvegis tækju slaginn saman. Sameinuð getum við haft vægi. Sameinuð getum við komið á nýju og betra kerfi.

Ef fólk hefur spurningar og vill vita meira þá bara hiklaust hafa samband og endilega kíkja á fundinn á laugardaginn. Ef við trúum því að hægt sé að skapa hamingjusama þjóðfélagsþegna, snúa við óhamingjunni og breyta kerfinu þá eru okkur allar leiðir færar. Þessu trúi ég staðfastlega og mun standa og falla með þessari sannfæringu minni.“

Kynningarfundur sameiningaraflsins Að rótunum, verður haldinn í húsnæði íslenskrar erfðagreiningar á laugardaginn frá 16:00-18:00. 

 

Frekari upplýsingar um fundinn má finna á Facebook síðu viðburðarins með því að smella hér

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

2,5 milljón króna verðlaun í stærsta hakkaþoni Íslandssögunnar

2,5 milljón króna verðlaun í stærsta hakkaþoni Íslandssögunnar
Fréttir
Í gær

Wei Li var með ófalsaða mynt

Wei Li var með ófalsaða mynt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hótel Saga bregst við aðstæðum: Hyggjast bjóða háskólanemum að leigja herbergi

Hótel Saga bregst við aðstæðum: Hyggjast bjóða háskólanemum að leigja herbergi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ingimar ákærður fyrir stórfelld skattsvik og peningaþvætti – Hefur sett tvær starfsmannaleigur á hausinn

Ingimar ákærður fyrir stórfelld skattsvik og peningaþvætti – Hefur sett tvær starfsmannaleigur á hausinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Neyðarlínan kölluð á teppið – „Almenningur á skilið að það sé hlustað og brugðist við“

Neyðarlínan kölluð á teppið – „Almenningur á skilið að það sé hlustað og brugðist við“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt á suðupunkti í netheimum eftir Kastljóssviðtalið við Kára

Allt á suðupunkti í netheimum eftir Kastljóssviðtalið við Kára
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kári reiður út í Svandísi: „Afskaplega hrokafull eins og lítil tíu ára stelpa“

Kári reiður út í Svandísi: „Afskaplega hrokafull eins og lítil tíu ára stelpa“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Meintur barnaníðingur liðlega tvítugur – Níðingar á öllum aldri segir sérfræðingur

Meintur barnaníðingur liðlega tvítugur – Níðingar á öllum aldri segir sérfræðingur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Nýtt smit á Íslandi

Nýtt smit á Íslandi