fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Haraldur Johannessen: „Ekki rétt að ég sé ógnarstjórnandi og óttastjórnandi frekar en að ég sé fasisti, nasisti og rasisti“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Mánudaginn 16. september 2019 13:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fundi Haralds Johannessen, ríkislögreglustjóra, og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, nýs dómsmálaráðherra, lauk rétt fyrir 13:00 í dag. Eftir fundinn sagði Haraldur við fjölmiðla að starfslok hans hefðu ekki komið til umræðu á fundinum og að hann hafi hugsað sér að sitja áfram næstu þrjú árin.

Fundur ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðherra átti sér stað eftir harðar deilur og ávirðingar sem hafa birst í fjölmiðlum undanfarið. Embætti ríkislögreglustjóra  sem og persóna Haraldar hafa sætt harðri gagnrýni undanfarið, meðal annars af Landssambandi lögreglumanna og Lögreglufélagi Reykjavíkur og Haraldur meðal annars sakaður um ógnar- og óttarstjórnun.

Góður og gagnlegur fundur. 

„Þetta var mjög góður og gagnlegur fundur verð ég að segja. Nú verða málefni lögreglunnar leyst innan lögreglunnar með samtölum aðila á milli og við munum hætta að karpa í fjölmiðlum,“ sagði Haraldur eftir fundinn. Samtal muni nú eiga sér stað aðila á milli til að vinna sameiginlega að áframhaldandi uppbyggingu lögreglunnar, friði og trausti. Dómsmálaráðherra vilji setja sig vel inn í málin og ræða við alla viðeigandi aðila.

Aðspurður hvort til umræðu hefði komið að hann segði af sér embætti segir Haraldur að svo hafi ekki verið. „Orðið starfslok bar ekki á góma nei.“

Um helgina birtist í Morgunblaðinu ítarlegt viðtal við Harald þar sem hann svaraði fyrir gagnrýnina. Viðtalið hefur verið harðlega gagnrýnt. Í því segi Haraldur að innan lögreglunnar þrífist spilling og hóti því að ef til starfsloka hans komi þá muni losna um málbeinið á honum og hann lýsa ítarlega baktjalda valdabaráttu innan lögreglunnar, en í viðtalinu heldur hann því einnig fram að gagnrýnin sé hluti af rógburðarherferð til að bola honum frá starfi.

Viðtal slitið úr samhengi

Spurður út í viðtalið eftir fundinn í dag segir Haraldur að ummæli hans hafi verið tekin úr samhengi. „Sko ég held nú, svo ég svari þessi, að kannski hafi þessi umræða í þessu viðtali fengið meira flug heldur en efni viðtalsins gaf tilefni til og það mætt lesa þau orð sem þar eru kannski nánar, rýna þetta viðtal.“ Hann hafi aðeins verið að greina frá því að nauðsynlegt sé að tryggja að ekki þrífist spilling, en ekki verið að fullyrða að slíkt ætti sér nú þegar stað.  Til séu dæmi um spillingu en almennt sé lögreglan á Íslandi ekki spillt.

Varðandi meintar hótanir hans í áðurnefndu viðtali segir Haraldur:

„Ég held að þetta hafi líka eitthvað skolast til, satt best að segja, og sett í eitthvað annarlegt samhengi. Þetta er engin hótun að minni hálfu. Þetta er samtal sem ég á við blaðamann og segi við hann að ég hafi nú frá ýmsu að segja eftir mjög langan embættismannaferil og það má nú ekki leggja neitt annað út af þeim orðum en nákvæmlega það.“

Umdeildur embættismaður

Haraldur viðurkennir að hann sé umdeildur embættismaður, en bendir á að stuðningsyfirlýsing stjórnenda embættis hans staðfesti að almennt séu samskipti hans við starfsmenn ríkislögreglustjóra ágæt.

Ásökunum um ógnar- og óttarstjórn vísar hann enn fremur á bug.

„Ég hef nú bara svarað því til að það sé ekki rétt að ég sé ógnarstjórnandi og óttastjórnandi frekar en að ég sé fasisti, nasisti og rasisti. Ég held að þeir sem eru með svona orðnotkun hafi notað þarna ansi gildishlaðin orð um stjórnanda sem er fastur fyrir.“

Haraldur telur þó að umræðu síðustu vikunnar hafi verið ætlað að leggja þrýsting á dómsmálaráðherra, sem honum þykir miður. Ekki greindi Haraldur nánar frá því hvað hann meinti með þeirri fullyrðingu en út frá viðtali hans í Morgunblaðinu má ætla að hann sé að vísa þar til meintrar rógburðarherferðar til að bola honum úr starfi.

„Ég hef nú svona í gegnum tíðina, á bráðum 40 ára embættisferil, hugleitt að stíga til hliðar og fara að vinna í einkageiranum, en ég er hérna ennþá fyrir einhverja ástæðu,“ segir Haraldur en bætir þó við að þó starfslok hafi ekki verið rædd á fundinum þá sé aldrei að vita hvað framtíðin beri í skauti sér.

„Ég er ekki með neina kristalkúlu og get ekki sagt ykkur eitthvað til um það.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu