Föstudagur 21.febrúar 2020
Fréttir

Leigubílstjóri á Hreyfli óvinnufær eftir líkamsárás vinnufélaga – Árásarmaðurinn má keyra áfram hjá Hreyfli – „Ofbeldið heldur áfram“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 23. ágúst 2019 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jónbjörn Breiðfjörð, leigubílstjóri hjá Hreyfli, segist hafa orðið fyrir hrottalegri líkamsárás af hálfu kollega síns þann 22. júlí síðastliðinn. Meðal annars hafi hann rifbeinsbrotnað, fengið heilahristing, hlotið sár á hálsi og tognað á hálsi. Jónbjörn hefur verið óvinnufær síðan atvikið átti sér stað og hefur raunar átt mjög erfitt með ýmsar daglegar athafnir.

Jónbjörn er leyfishafi hjá Hreyfli og fyrir nokkrum dögum varð hann fyrir öðru áfalli þegar opnað var að nýju fyrir möguleika á því að meintur árásarmaður keyrði fyrir Hreyfil, en áður hafði verið lokað á hann. Jónbirni hafði verið lofað því að umræddur maður myndi aldrei aftur keyra hjá Hreyfli. Núna hefur stjórn Hreyfils hins vegar ákveðið að heimila honum það á ný á þeim forsendum að ekki sé búið að kveða yfir honum dóm. Jónbjörn kærði árásina en langur tími getur liðið þar til dómur verður kveðinn upp.

„Ofbeldið heldur áfram,“ segir Jónbjörn um þetta, en auk þess að þurfa að kyngja mögulegri endurkomu árásarmannsins segist hann hafa mátt þola andstyggilegan söguburð og slúður um sig í kjölfar atburðarins. Þess má geta að að unnusta Jónbjörns lést á síðasta ári og nú bættist þetta áfall við þann harm sem hann hefur þurft að glíma við vegna þess.

Var velgjörðarmaður árásarmannsins

Meintur árásarmaður ók bíl í eigu Jónbjörns og á hans leyfi. Mennirnir tveir þekktust áður og hefur Jónbjörn liðsinnt manninum töluvert. „Ég borgaði fyrir hann meiraprófið á sínum tíma,“ segir Jónbjörn sem lagði töluvert af mörkum til að þessi fyrrverandi félagi kæmist á rétta braut í lífinu.

Hann fékk hins vegar áhyggjur af því að maðurinn væri kominn í neyslu aftur. „Hann hefur glímt við morfínfíkn auk þess að vera sterafíkill. Þegar hann byrjaði að fara aftur í ræktina fyrir nokkrum mánuðum fór ég að verða var við miklar skapsveiflur hjá honum og óttaðist að hann væri kominn í sterana aftur.“ Sjálfur er Jónbjörn óvirkur alkóhólisti og hefur ekki drukkið í tæp fimm ár.

Jónbjörn tók þá að kanna akstursmynstur mannsins á bílnum og þær niðurstöður voru sláandi. Virtist honum ljóst að annaðhvort væri maðurinn að nota bílinn mikið í allt annan akstur en leigubílaferðir eða hann væri að stinga undan fjármunum. „Flestir leyfishafar hefðu sagt við hann að hann væri að stela en ég sagði það aldrei. Nýtingin var komin niður í 115 krónur á kílómetrann en meðalnýting er 200–230 krónur.“

Þegar Jónbjörn hafði samband við manninn út af þessu sagðist hann vera hættur og hann skyldi bara sækja bílinn. „Ég fór til að sækja bílinn en þessi maður býr í heilsárshúsi í Vogum á Vatnsleysuströnd, einn með tveimur Rottweiler-hundum. Ég hafði beðið hann um að tæma bílinn en hann hafði ekki gert það. Því fór ég sjálfur að taka dótið hans úr bílnum. Þegar ég var inni í bílnum kom hann að, reif upp hurðina, sparkaði í mig svo ég rifbeinsbrotnaði, og þrýsti mér með svo miklum ofsa á höfuðpúðann að mér var ófært að verja mig,“ segir Jónbjörn en hann hlaut, auk rifbeinsbrotsins, sár og tognun á hálsi og mikinn heilahristing.

„Hann hótaði mér öllu illu og augun loguðu af illsku. Hann sagði að hann myndi koma heim til mín og skera mig á háls ef ég kærði árásina.“

Ekki sér fyrir endann á afleiðingunum árásarinnar. „Ég get ekki ennþá hreyft augun til hægri eða vinstri. Ég get ekki unnið og núna ættu börnin mín, sem búa hjá móður sinni, að vera hjá mér en þau þurfa að vera hjá mömmu því ég get ekki sinnt þeim.“

Klapplið í kringum ofbeldismanninn

„Ég tók í höndina á nýjum framkvæmdastjóra Hreyfils sem sagði að þessi maður myndi ekki framar keyra fyrir félagið. En svo segir hann mér stuttu síðar að stjórnin hafi ákveðið að opna á hann aftur, þar sem ekki sé búið að dæma í málinu. Hann geti ekkert í því gert, það sé ákvörðun stjórnar. Ef hann verði dæmdur muni hann hætta,“ segir Jónbjörn, sem er mjög ósáttur við þá ákvörðun. Hefur hann sent tölvupóst bæði á Hreyfil og í stéttarfélag sitt, Frama, þar sem hann segist ekki geta unnið nálægt þessum manni framar og neyðist til að greina fjölmiðlum frá þessu.

„Mér finnst eins og það hafi verið kippt í einhverja spotta fyrir þennan mann. Það er eitthvert klapplið í kringum hann sem breiðir út um mig kjaftasögur. Þannig að ofbeldið heldur áfram. Ég á til dæmis að vera farinn að drekka aftur, en þær sögur hafa víst orðið til vegna þess að göngulag mitt er ekki eðlilegt eftir árásina, þar sem ég glími við skert jafnvægisskyn. Ég er orðinn mjög þreyttur á þessum söguburði og hef hvatt til þess að ég verði þá bara settur í áfengispróf. Ég skal gefa blóð hvenær sem er.

Ég spyr mig aftur og aftur að því hvers vegna þetta er látið viðgangast og hvers vegna Hreyfill kýs að hygla ofbeldismanni með þessum hætti,“ segir Jónbjörn að lokum.

Hreyfill vildi svara en svaraði síðan ekki

DV hafði samband við framkvæmdastjóra Hreyfils, Harald Axel Gunnarsson. Hann brást vel við erindi blaðamanns en bað um að fá það skriflegt. DV sendi honum þá eftirfarandi skriflega fyrirspurn:

„Til mín hefur leitað Jónbjörn Breiðfjörð, leigubílstjóri hjá Hreyfli, og sagt mér frá alvarlegri líkamsárás sem hann varð fyrir af hendi harkara hjá Hreyfli í sumar. Frásögn Jónbjörns af árásinni er trúverðug auk þess sem hann hefur sýnt mér áverkavottorð.

Jónbjörn er ósáttur við að stjórn Hreyfils hafi opnað fyrir möguleika árásarmannsins til að aka fyrir Hreyfil áfram (sá er þó ekki með leyfi en getur ekið fyrir aðra). Honum er tjáð að það gildi þar til dómur liggur fyrir í málinu en Jónbjörn kærði árásina. Hann lítur á þessa ákvörðun sem áframhaldandi ofbeldi á hendur sér. Hann kveðst einnig hafa orðið fyrir miklum rógi og söguburði eftir árásina.

Getur þú eitthvað tjáð þig um málið? Getur þú varið ákvörðunina? Hverjar eru almennar reglur um aðgerðir þegar leigubílstjórar eru grunaðir um lögbrot? Hvað með öryggi farþega gagnvart bílstjóra sem grunaður er um alvarlegt líkamlegt ofbeldi?“

Ekki bárust svör frá Haraldi eða Hreyfli fyrir birtingu fréttarinnar. Ef þau svör berast verða þeim gerð skil síðar í frekari fréttaflutningi af málinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Forstjóri Útlendingastofnunar segir stofnunina breiða út faðminn gagnvart fólki í viðkvæmri stöðu – En bara „ef það telst ástæða til þess“

Forstjóri Útlendingastofnunar segir stofnunina breiða út faðminn gagnvart fólki í viðkvæmri stöðu – En bara „ef það telst ástæða til þess“
Fréttir
Í gær

Davíð telur rétt að setja streymisveitum skilyrði til að verja tunguna og menningararfinn

Davíð telur rétt að setja streymisveitum skilyrði til að verja tunguna og menningararfinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þórarinn stefnir Bjarna Ben og íslenska ríkinu – Var haldið í gæsluvarðhaldi í þrjá daga

Þórarinn stefnir Bjarna Ben og íslenska ríkinu – Var haldið í gæsluvarðhaldi í þrjá daga
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ung íslensk kona ákærð fyrir stórfelld skattalagabrot og peningaþvætti – Mamma lagði háa summu inn á reikninginn

Ung íslensk kona ákærð fyrir stórfelld skattalagabrot og peningaþvætti – Mamma lagði háa summu inn á reikninginn