fbpx
Þriðjudagur 29.september 2020
Fréttir

Rafboga stefnt vegna vangoldinna launa

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 8. desember 2019 13:00

Meðal annars er Rafboga stefnt fyrir að neyða starfsmann til að búa í Hveragerði

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrrverandi starfsmaður verktakafyrirtækisins Rafboga ehf. hefur stefnt fyrrverandi vinnuveitanda sínum í dómsmáli sem hefur verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur. Er Rafboga gert að sök að hafa vangreitt laun miðað við taxta sem gefinn var upp í ráðningarsamningi sem og vanrækt að greiða kjarasamningsbundnar aukagreiðslur. Heildarkrafan nemur tæpum 700 þúsund krónum. Rafbogi krefst sýknu og hafnar öllum kröfum.

Ungur maður í ævintýraleit

Starfsmaðurinn, Konrad Lang, kom til Íslands í apríl 2018. Framkvæmdastjóri Rafboga var með starfsnema frá Eistlandi í fyrirtækinu og bað hann að verða fyrirtækinu úti um eistneska rafvirkja. Þannig heyrði Konrad af starfinu og ákvað að slá til, ungur maður í ævintýraleit sem vildi prófa að búa og starfa í nýju landi.

Engan fékk hann skriflegan samninginn þó, þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir, fyrr en að ári liðnu, en þá hafði honum verið sagt upp störfum og fékk, að eigin sögn, aðeins afhentan samning til að hann hefði skrifleg gögn til að leggja fram hjá vinnumálastofnun úti í Eistlandi. Í ráðningarsamningi var tilgreint hærra tímakaup en Konrad hafði fengið greitt og krefst hann því mismunar á útborguðum launum og þeim launum sem honum bar að fá samkvæmt ráðningarsamningi.

Neyddist til að búa í Hveragerði

Það var í janúar 2018, sem Konrad fékk að vita með skömmum fyrirvara að hann þyrfti nú að sinna verkefni í Hveragerði. Rafbogi er skráð í Reykjavík og samkvæmt kjarasamningi Rafiðnaðarsambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins ber í þeim tilvikum sem vinna fer fram innan við 61 kílómetra frá þeim stað sem fyrirtækið er skráð á, að greiða ferðakostnað starfsmanna sem þurfa að ferðast fram og til baka daglega. Eins telst ferðatíminn til vinnutíma og skal því greitt fyrir hann.

Til að byrja með fór Konrad daglega fram og til baka frá Hveragerði. Hins vegar hafði Rafbogi einbýlishús í Hveragerði þar sem margir starfsmenn bjuggu saman. Var Konrad því tilkynnt að ekki yrði greiddur fyrir hann ferðakostnaður fram og til baka frá Reykjavík. Þess í stað skyldi hann búa í þessu húsi í Hveragerði þar sem hann þyrfti að deila herbergi með öðrum einstaklingi. Þetta reyndist Konrad þungbært. Hann hafði komið sér vel fyrir í Reykjavík þar sem hann leigði herbergi hjá konu sem einnig er frá Eistlandi og var þeim vel til vina. Í Hveragerði hafði hann ekkert bakland og einangraðist mikið. Verkinu í Hveragerði seinkaði mikið og átti Konrad að vera á tánum og tilbúinn að snúa aftur til Reykjavíkur með litlum sem engum fyrirvara þegar Rafbogi færi fram á það. Hins vegar hefði það reynst Konrad þungbært að þurfa sjálfur að standa straum af ferðakostnaði fram og til baka frá Hveragerði á hverjum degi og hann féllst því á að búa í húsinu í Hveragerði, enda vildi hann ekki missa vinnuna og taldi sig ekki hafa um annað að velja.

Í stefnu er farið fram á að fá ferðakostnaðinn greiddan, enda hefði Konrad ekki viljað búa í Hveragerði þar sem hann þekkti lítið til.

Segja ekkert hæft í kröfunum

Í greinargerð Rafboga í málinu er því hafnað að Konrad eigi inni laun hjá fyrirtækinu. Rangur taxti hafi verið skráður fyrir mistök í ráðningarsamning, og Konrad hefði ekki verið neyddur til að búa í Hveragerði heldur bauðst honum þar tækifæri til að vinna sér inn auka pening og sleppa við að greiða fyrir leigu og fæði.

Hefði honum ekki boðist þessi kostur hefði hann verið samferða öðrum starfsmönnum Rafboga ehf. til Reykjavíkur klukkan 16 á hverjum degi og því hvorki boðist að vinna lengur né að vinna á laugardögum. Var umrætt fyrirkomulag því í fullri sátt við Konrad, enda mun hann í raun ekki hafa haft heimilisfesti í Reykjavík heldur bjó hann í einu herbergi hjá áðurnefndri konu við þröngan kost. Var fyrirsvarsmanni Rafboga ehf. ekki kunnugt um annað en að þetta fyrirkomulag hentaði Konrad mjög vel, ekki síst vegna þess að hann var í fríu fæði og húsnæði meðan hann starfaði í Hveragerði. Var um að ræða verulega kjarabót fyrir Konrad sem Rafbogi ehf. veitti honum langt umfram skyldu.

Varðandi ráðningarsamning og töf á að afhenda Konrad slíkan segir í greinargerð:

„Í byrjun árs 2018 hafði kona að nafni […] samband við Rafboga ehf. og lýsti áhyggjum af K [Konrad] en hann mun hafa búið hjá henni um skeið. Meðal þess sem hún nefndi í tölvubréfi sínu var að ekki hefði verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við K og það hefði valdið honum vanlíðan. Brugðist var við þessu af hálfu Rafboga ehf. með því að ganga frá ráðningarsamningi nokkru síðar.“

Hins vegar er rétt að benda hér á að viðbrögð Rafboga við vanlíðan Konrad tóku töluverðan tíma. Konan sem hafði samband gerði það í janúar, samningurinn fékkst ekki afhentur fyrr en í maí. Samkvæmt gildandi kjarasamningi þegar Konrad var á Íslandi að störfum þá bar atvinnurekanda að gera við hann samning innan tveggja mánaða.

Það verður því fróðlegt að sjá hvernig dómari metur rök Rafboga, um að taxti í samningi hafi verið rangur og miðað við kjarasamningsbundin laun á þeim tíma sem ráðningarsamningurinn var loks afhentur, en samningurinn sem DV hefur undir höndum er dagsettur miðað við þann dag er Konrad hóf störf hjá Rafboga.

Ekki einsdæmi

Konrad er nú farinn aftur til Eistlands en hefur valið sér umboðsmann sem er málsvari hans í máli þessu. Að sögn umboðsmannsins er Konrad ekki eina dæmið um erlenda starfsmenn sem Rafbogi hefur ekki komið rétt fram við. Það sé eins og atvinnurekendur leyfi sér verri framkomu, og að bjóða verri kjör, í garð erlendra aðila en íslenskra og það sé ástand sem verði að vekja athygli á, enda á engu máli að skipta hvaðan hæft fólk kemur.

Samkvæmt ársreikning nam hagnaður Rafboga á árinu 2018, eftir skatta, 41,5 milljónum. Þórður Bogason, framkvæmdastjóri, fyrirtækisins, er eini hluthafinn. Fyrirtækið var einnig í 471 sæti á lista CreditInfo um framúrskarandi fyrirtæki á árinu 2019.

Nánar verður fjallað um málið síðar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ekki ástæða til að herða aðgerðir – „Toppnum náð núna eða á næstu dögum“

Ekki ástæða til að herða aðgerðir – „Toppnum náð núna eða á næstu dögum“
Fréttir
Í gær

39 ný smit í gær – Ekki fleiri í einangrun síðan 16. apríl

39 ný smit í gær – Ekki fleiri í einangrun síðan 16. apríl
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Bílslys á Vesturlandsvegi

Bílslys á Vesturlandsvegi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hakkar í sig pistil Önnu Karenar – „Erfitt að gera upp á milli hvort er verra, málfarið eða efnið“

Hakkar í sig pistil Önnu Karenar – „Erfitt að gera upp á milli hvort er verra, málfarið eða efnið“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Landsréttur sýknar dagmömmu af líkamsárás gegn 20 mánaða barni – Sagði það hafa dottið úr stól

Landsréttur sýknar dagmömmu af líkamsárás gegn 20 mánaða barni – Sagði það hafa dottið úr stól
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Milljónabætur vegna „stórfellds gáleysis“ á Landspítalanum – Vaknaði aldrei aftur eftir aðgerð

Milljónabætur vegna „stórfellds gáleysis“ á Landspítalanum – Vaknaði aldrei aftur eftir aðgerð