Karlmaður hefur verið sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa handleggsbrotið konu í miðbænum fyrir þremur árum. Ýtti hann við konunni í Hafnarstræti þannig að hún féll í götuna og handleggsbrotnaði í fallinu.
Maðurinn var einnig sakfelldur fyrir að hafa kókaín í fórum sínum og fyrir brot á vopnalögum fyrir að bera á sér hníf.
Þann 29. október voru lögregla og sjúkralið send á vettvang í Hafnarstræti vegna manns sem virtist vera í flogakasti. Var viðbragðsaðilum sagt að þetta væri uppgerð og þegar manninum var synjað um akstur með sjúkrabíl spratt hann á fætur og hljóp burtu.
Stúlkan sem varð fyrir árás hans kærði árásina og stemmdi lýsing hennar við frásagnir af atferli mannsins sem var að veitast að fólki á þessu svæði.
Maðurinn neitaði sök og sagði atvikið ekki hafa verið árás heldur óviljaverk.
Hann var sakfelldur og dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Hann var jafnframt dæmdur til að greiða konunni sem handleggsbrotnaði hálfa milljón króna í skaðabætur. Ennfremur var hann dæmdur til að greiða sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun upp á 400.000.