„Við vitum að tjón hleypur væntanlega á hundruðum milljóna,“ segir Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik, í Morgunblaðinu í dag. Enn eru víða rafmagnstruflanir þó brátt sé liðin vika frá því að óveðrið mikla gekk yfir landið með tilheyrandi tjóni.
„Nú erum við að bjarga rafmagni. Kostnaður er að hlaðast upp en við tökumst á við hann seinna. Það er sömuleiðis mikið tjón hjá viðskiptavinum okkar. Við munum skoða þetta tjón betur síðar,“ segir Tryggvi við Morgunblaðið.
Rafmagn fór af í Skagafirði í gærmorgun og hafa truflanir verið áberandi upp á síðkastið víðar. Selta í kerfinu veldur umræddum truflunum og bendir Tryggvi á að bilanir séu í Blöndudal og Svartárdal sem verið er að vinna að.
„Allt kerfið er viðkvæmt. Það er selta og það eru truflanir af og til. Það er mjög erfitt að eiga við það, í raun og veru þyrfti að fara upp í hvern einasta staur og hreinsa. Svo má vonast til þess að það rigni eitthvað aðeins svo það skolist af,“ segir Tryggvi við Morgunblaðið.