fbpx
Sunnudagur 23.júní 2024
FréttirLeiðari

Aumingjasamfélagið

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Föstudaginn 13. desember 2019 14:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stormur skellur á og árshátíð samfélagsmiðlagrínara hefst með pomp og prakt. Fólk keppist við að búa til skrýtlur. Fjölmiðlar taka saman fyndnustu tístin. Allir hlæja. „Við erum að ala upp aumingja,“ gasprar einhver þegar að loksins, loksins, borgarbúa hlýða fyrirmælum viðbragðsaðila út af veðurviðvörunum. Börn sótt snemma, fyrirtækjum er lokað, göturnar eru mannlausar. Milljarðatjón út af þessum eina degi blasir við. Þá fjárhagslegt tjón. Með því að hlýða spornuðum við borgarbúar við tjóninu sem hefði getað orðið og ekki yrði metið til fjár. Sem betur fer.

Við borgarbúar erum heppnir. Rafmagninu sló ekki út hjá okkur. Við komumst öll heim til okkar. Vissulega fuku einhverjar þakplötur hér og þar og stöku trampólín var á vergangi en yfir heildina litið sluppum við vel. Þó að sprengilægðin hefði verið meira eins og lítil ýla en ekki tugþúsunda flugeldakaka hér í höfuðborginni þá var ég allavega fegin að ég hlýddi. Maður veit nefnilega aldrei hvernig náttúran hagar sér og sagan sýnir að það er ómögulegt að tjónka við henni þegar hún skiptir skapi og þá ekki síst þegar um íslenskt veðurfar er að ræða.

Gaspur á samfélagsmiðlum um hvað við erum miklar mannleysur að láta svona í þessum andvara varð síðan í meira lagi hjákátlegt þegar borgarbúar litu upp af Netlifx-þættinum og kláruðu dreggjar sellerísdjússins og fylgdust aðeins með því sem var að gerast utan borgarmarka. Rafmagnsleysi, ekki í nokkrar mínútur heldur marga klukkutíma og svo dögum skipti. Fólk komst ekki heim til sín, þurfti að leita skjóls í hjálparmiðstöðvum. Fallnir rafmagnsstaurar. Bátar losnuðu frá bryggju. Kindur fennti inni í fjárhúsum. Nei, þetta er ekki prentvilla. Þær voru ekki fastar úti í gaddi og stormi. Þær festust inni og enginn gat komist til þeirra.

Það er ekki flókið að leika mikið karlmenni og tala digurbarkalega um „smágjóstur“ í nokkuð góðu skjóli af Esju á sama tíma og fólk í öðrum landshlutum glímir við veðraham sem á sér vart hliðstæðu í seinni tíð.

Það sem setti þessar náttúruhamfarir síðan í enn skýrara, og ósegjanlega dapurlegra, samhengi var hjálpsami unglingspilturinn sem er týndur. Hann féll í Núpá. Stormurinn varð þess valdandi að erfiðlega gekk fyrir viðbragðsaðila að komast hratt og örugglega á staðinn til að hefja leit. Unglingspilturinn lagði líf sitt í hættu til að aðstoða bónda að koma rafmagni aftur á.

Þannig að þetta er ekkert grín. Náttúran lætur ekki að sér hæða og lætur hressilega í sér heyra ef við reitum hana til reiði. Þótt megi gera grín að nánast öllu og öllum þá er þessi rígur, landsbyggðin gegn höfuðborginni, orðinn frekar þreyttur – sérstaklega þegar kemur að veðráttunni. Þetta snýst nefnilega ekki bara um veðrið, hve stóran hluta af foknu þakplötunum við fáum til baka úr tryggingunum eða að maður sjái ekki í bílinn sinn fyrir snjó. Í þessu tilviki, og svo margoft áður, snýst þetta fyrst og fremst um alvöru fólk. Mannslíf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Tók magnað drónamyndband við gosstöðvarnar í nótt

Tók magnað drónamyndband við gosstöðvarnar í nótt
Fréttir
Í gær

Sigrún Ýr er með ólæknandi krabbamein og á ekki rétt á bótum – Safnað fyrir meðferð – „Hún er algjör gullmoli“

Sigrún Ýr er með ólæknandi krabbamein og á ekki rétt á bótum – Safnað fyrir meðferð – „Hún er algjör gullmoli“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hilda Jana gáttuð á framgöngu meirihlutans á Akureyri – Láta aldraða bíða, neita að borga reikningana og neita að gera grein fyrir máli sínu

Hilda Jana gáttuð á framgöngu meirihlutans á Akureyri – Láta aldraða bíða, neita að borga reikningana og neita að gera grein fyrir máli sínu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dagur Þór dæmdur í tveggja ára fangelsi – Beitti hnúajárni gegn starfsmanni í Nettó

Dagur Þór dæmdur í tveggja ára fangelsi – Beitti hnúajárni gegn starfsmanni í Nettó
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ástin dó í Bandaríkjunum – Fyrrverandi eiginkona Gísla Hjálmtýssonar krefur hann um hundruð milljóna

Ástin dó í Bandaríkjunum – Fyrrverandi eiginkona Gísla Hjálmtýssonar krefur hann um hundruð milljóna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mörg hundruð milljóna Ferrari stórskemmdur eftir að hafa keyrt á austfirska rollu

Mörg hundruð milljóna Ferrari stórskemmdur eftir að hafa keyrt á austfirska rollu