Kristján Vigfússon, aðjúnkt í Háskólanum í Reykjavík, deildi fyrr í morgun mynd af auglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Þar er tilkynntur stofnfundur Félags Sjálfstæðismanna um fullveldismál en auglýsingin virðist fara öfugt ofan í marga. Sumir telja myndmálið full þjóðernissinnað og jafnvel nasískt.
Kristján segir óþægilegt að sjá öfl sem þessi vakna. „Frekar óþægilegt að vakna við þetta. Myndskreytingin segir meira en mörg orð og er ætlað að minna okkur á feðraveldið og hverjir drottna. Frjáls þjóð í frjálsu landi já – hér er áherslan á eina þjóð í frjálsu fullvalda landi sem hún á og ræður ein. Hátíðarávörp eru talin mikilvæg svona á fyrsta fundi, svo einhverjir karlpungar fái að láta ljós sitt skína. Að þessi öfl séu að vakna á Íslandi sem hefur verið fullvalda þjóð í rúm 100 ár og sjálfstæð í næstum 80 er dapurt. Þetta er ljótt á svo margan hátt,“ skrifar Kristján.
Færsla hans hefur vakið talsverða athygli. Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, skrifar til að mynda athugasemd: „Usss, ekki trufla sjálfstæðisflokkinn við að minnka og minnka og minnka svo aðeins meira“. Felix Bergson virðist vera uggandi en hann birtir tjákn þess efnis.
Karen Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, deilir færslu Kristjáns og skrifar: „Blundar í þér xxxxxx? Ertu karl! Ef svo er þá er þetta rétti fundurinn fyrir þig! Já, þetta er ný auglýsing,“ skrifar Karen. Smári McCarthy skrifar svo: „Sumsé Sjálfstæðisflokkurinn er að endurreisa nasistadeild sína?“
Líkt og DV fjallaði um í fyrra þá fóru flestir íslenskir nasistar í Sjálfstæðisflokkinn eftir stríð. Birgir Kjaran til að mynda sat sat á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn um átta ára skeið.