„Svo fór að forstjórar Útgerðarfélags Akureyrar og Samherja fengu því framgengt að Árna Steinari var meinað að stíga í ræðustól en í stað hans var fengin Valgerður Sverrisdóttir, ráðherra. Hún sagði í ræðu sinni að nóg væri komið af gagnrýni í kvótakerfið.“
Þetta segir Ögmundur Jónasson, þingmaður VG til margra ára, í upprifjun á heimasíðu sinni. Árið 2002 stóð til að Árni Steinar Jóhannsson, fyrrverandi formaður Þjóðarflokksins og á sínum tíma einn af helstu forsvarsmönnum VG, héldi ræðu á Sjómannadeginum á Akureyri. Árni var á þessum tíma þingmaður VG og helsti talsmaður flokksins í sjávarútvegsmálum.
„Árni Steinar hafði verið umhverfisstjóri Akureyrar í um 20 ár og mótað bæinn. Sem slíkur naut hann mikillar virðingar. En jafnframt óvildar af hálfu þeirra sem féll ekki hve staðfastlega hann gagnrýndi fiskveiðistjórnunarkerfið.“
Í grein sem Ögmundur skrifaði um málið á sínum tíma benti hann á að Árni hafði nokkrum mánuðum áður kynnt stefnu VG þar sem lagt var til að núverandi kvótakerfi yrði fyrnt á næstu tuttugu árum. Ögmundur sagði að fyrirhuguð ræða Árna á sjómannadeginum hafi lagst illa í fulltrúa stórútgerðarinnar sem höfðu samband við Sjómannadagsráð á Akureyri og höfðu í hótunum.
„Yrði Árni Steinar Jóhannsson ræðumaður þá yrði eitthvað lítið um fjárhagslegan stuðning Samherja og Útgerðarfélags Akureyrar við hátíðahöldin. Í framhaldinu er Árna Steinari Jóhannssyni tilkynnt að nærveru hans verði ekki óskað við hljóðnemann á Sjómannadaginn. Ákveðið hafi verið að finna einhvern útgerðinni þóknanlegri. Síðar er tilkynnt að ræðumaður verði Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra. Í fjölmiðlum um kvöldið kom fram að hún hefði sagt að tímabært væri að hætta að gagnrýna kvótakerfið.“
Ögmundur sagði að þetta veitti innsýn í íslenskt samfélag, hvernig auður og vald fléttast saman og hvernig fulltrúar ríkisstjórnarinnar ganga erinda auðvaldsins. „Menn stýra því í krafti auðs og valda hvaða mál fást tekin á dagskrá og hverjir fá að tjá sig.“