Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði fimmtán ára ökumann í Kópavogi skömmu eftir miðnætti. Að sögn lögreglu var pilturinn kærður fyrir akstur án ökuréttinda og þá var eldri farþegi í bílnum kærður fyrir að fela piltinum stjórn bílsins. Haft var samband við forráðamann piltsins og málið tilkynnt til barnaverndar venju samkvæmt.
Um svipað leyti, eða klukkan 00:18, kom öryggisvörður að manni sem hafði farið yfir girðingu í Suðurbæjarlaug. Þegar öryggisvörðurinn kom á vettvang var maðurinn í setlauginni. Hann var rekinn upp úr lauginni og látinn laus eftir upplýsingatöku lögreglu.
Loks óskaði starfsfólk verslunar í Hlíðunum eftir aðstoð lögreglu vegna þjófnaðar á matvörum. Sakborningur var látinn laus að lokinni skýrslutöku.
Þessu til viðbótar var nokkur fjöldi ökumanna tekinn úr umferð vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.