Þegar Sólveig var að ganga um á bílaplaninu með dóttur sinni og Helga tók hún eftir því að það voru einhverjir ungir drengir að stara á bróður hennar en hann er með Downs heilkenni.
„Áður en við löbbum inn þá eru tveir drengir að keyra í bíl á planinu og bróðir minn labbar svolítið hægt þannig hann var aðeins á eftir okkur. Þá var það alveg greinilegt að þeir voru að horfa á hann og síðan fóru þeir bara að skellihlægja í bílnum.“
Í samtali við DV sagði Sólveig að henni hafi verið brugðið við þetta og ekki alveg skilið hvað var í gangi. „Síðan tók ekkert betra við inni í Hagkaup,“ segir Sólveig.
„Ég tók eftir því að það var rosa mikið verið að horfa á okkur. Sama fólkið var að labba í hringi til að horfa á okkur, það kom bara til að stara. Þetta er eitthvað sem ég hafði ekki fundið fyrir í langan tíma.“
„Maður verður ekki mikið var við svona þess vegna var ég í svona miklu sjokki í gærkvöldi,“ segir Sólveig en dóttir hennar tók líka eftir þessu.
„Dóttir mín sem er 9 ára var með okkur og hún var bara stórhneyksluð. Hún tók líka eftir þessu og varð bara mjög reið.“
Hún segir foreldra sína hafa barist lengi fyrir því að þetta myndi breytast á sínum tíma og gekk það vel, Sólveig hafði ekki orðið vör við þetta í langan tíma. Nú virðist hins vegar eins og það hafi eitthvað gleymst að fræða börn um þetta í kynslóðakiptunum því fordómarnir og glápið er komið aftur upp á yfirborðið. Sólveig segir það mikilvægt að fólk fræði börnin sín um svona hluti svo bróðir hennar og aðrir í hans stöðu lendi ekki í þessu.
„Það eru 20 ár síðan ég lenti í þessu síðast, ég hélt að þetta væri bara búið“