
„Það er hægt að ljúka þessu máli með einu símtali en það er ekki gert,” segir Baldur Borgþórsson varaborgarfulltrúi Miðflokksins og er mjög reiður yfir framkomu borgarinnar við tvö fötluð börn sem var vísað frá mánaðarlegu úrræði sínu í stofnun utan Reykjavíkur vegna þess að borgin hafði ekki greitt reikninginn.
Málið snýst um að foreldrar tveggja barna höfðu gert samning við Reykjavíkurborg um mánaðarlegt úrræði fyrir tvö fötluð börn sín. Um er að ræða frístunda- og þroskaúrræði sem börnin hlakka ávallt afar mikið til. Þann 18. október síðastliðinn, þegar foreldrarnir fóru með börnin á staðinn, sem er í nágrannasveitarfélagi Reykjavíkur, var börnunum vísað heim. Ástæðan var sú að borgin hafði ekki gengið frá greiðslum við þá aðila sem veita úrræðið. Gleði barnanna breyttist í vonbrigði og sorg.
Baldur skrifaði eftirfarandi pistil um málið á Facebook-síðu sína í gærkvöld:
„Reykjavíkurborg – Besti vinur barnanna?
Ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa aðalstarf sem ég hlakka til að takast á við á hverjum degi.
Ein ástæðan er sú, að það er fátt jafn gefandi að geta orðið að liði þegar til manns er leitað.
Stundum tekst vel til, en stundum lendir maður á vegg.
Eins og núna.
Til mín leituðu foreldrar barna sem glíma við fatlanir og erindið var miður skemmtilegt.
Foreldrarnir höfðu gert samning við Reykjavíkurborg um úrræði eina helgi í mánuði fyrir börnin. Úrræðið hefur reynst himnasending og mikil tilhlökkun hjá börnunum þegar líður að þessum helgum.
Tilhlökkunin var líka mikil þann 18.október síðastliðin, en skammvinn var gleðin, því börnunum var vísað heim þann dag.
Hvers vegna?
Jú, vegna þess að Reykjavíkurborg hefur ekki gengið frá greiðslum við þá aðila sem veita téð úrræði.
Skiljanlega var því ekki um annað að ræða en senda börnin heim, því þeim aðila er úrræðið veitir er beinlínis óheimilt að taka við börnunum í þessari stöðu.
Nú skyldi maður halda að málin yrðu leyst, hratt og vel.
En nei.
Í stað þess að fá svar um að mistök hafi verið gerð af hálfu borgarinnar og málum yrði kippt í liðinn um hæl, fékk ég annað svar.
Undarlegt svar og með öllu óskiljanlegt.Ég hef nú svarað því og vona að það dugi til að málinu verði kippt í lag hið snarasta.”
„Við eigum fatlaða dóttur og vitum hvernig þetta er og hvað við erum heppin með hvað við sluppum vel frá því og hvað aðrir foreldrar fatlaðra barna eru oft í mikill angist,” segir Baldur. Eins og fram kemur í pistlinum höfðu foreldrar barnanna sem hér eiga í hlut samband við Baldur út af málinu.
Vegna persónuverndar vill Baldur ekki greina frá hver fötlun barnanna er né hver stofnunin er sem veitir úrræðið en það er börnunum mjög mikilvægt. Baldur hafði samband við þá stofnun borgarinnar sem hefur með málið að gera en honum ofbuðu viðbrögðin:
„Ég fékk tölvupóst í gær þar sem eiginlega er verið að dissa málið og láta líta út eins og þetta sé foreldrunum að kenna sem er alrangt. Ég sendi harðorðan tölvupóst til baka og skrifaði þá þennan pistil á Facebook. Ég fékk síðan einhvern panikpóst frá sviðsstjóranum í gærkvöld. En það er enn ekki búið að ganga frá málinu. Ég vil að borgin snarist til að ganga frá þessu, þetta er svo viðkvæmur hópur, börn með þessa fötlun og svo er gríðarlegt álag á foreldrunum. Þetta var þeim mikið áfall.”