

„Hvað veldur að fólk vill verja vetrinum fjarri Íslandi, og á helst á Spáni? Tvennt ræður mestu, veðrið og verðið. Best að leggja út frá þessu.“
Þetta segir Sigurjón M. Egilsson, fjölmiðlamaður og ritstjóri Miðjunnar, sem hefur vetursetu í Campoamor á Spáni. Sigurjón tók Norrænu til Danmerkur fyrr í þessum mánuði ásamt eiginkonu sinni og óku þau svo sem leið lá suður til Spánar. Nú hafa hjónin verið á Spáni í rúma viku og kunna vel við sig eins og Sigurjón lýsir í færslu sem birtist á vef Miðjunnar í gær. Þar fer Sigurjón yfir kosti þess að búa á Spáni.
„Veðrið hér á Spáni opnar ótal möguleika til þægilegrar útiveru. Okkar útivera er golf. Golfið er dýrast af öllu. Við borgum um nærri 30.000 á mánuði hvort í þá sex mánuði sem við hyggjumst vera hér,“ segir Sigurjón sem bætir við að eiginkona hans, Kristborg, sé sjúk í golf og hann fylgi eftir. Bendir hann á að hver hringur kosti þau um 1.100 krónur, hvort um sig, og það sé ekki mjög dýrt ef mikið er spilað.
„Við leigjum nýlega og fína þriggja herbergja íbúð í nýlegri blokk á 550 evrur á mánuði. Borguðum að mestu þegar við pöntuðum. Þá var krónan öflugri en hún er í dag. Húsaleigan kostar okkar rétt um 73.000 á mánuði,“ segir hann og nefnir svo fleiri dæmi um hagstætt verðlag.
„Hefðbundið „myllubrauð“ kostar hér 85 krónur og fyrir þau sem drekka kostar vodkaflaska 885 krónur. Þvottur í bílaþvottastöð kostar um 700 krónur. Fleiri dæmi nefni ég síðar,“ segir hann. Hann bendir þó á að allt neysluvatn kaupi þau sjálf og kostar átta lítra tankur um 110 krónur.
Þau hjónin eru með aðgang að kaldri sundlaug sem er í garðinum. Sigurjón segir það litlu skipta þó hún sé ekki upphituð enda var Sigurjón það lengi á sjónum að kalt vatn stöðvar hann ekki. „Stuttur sundsprettur og afslöppun á bakkanum er fínt. Minnir á kalda pottinn í lauginni heima. Lagar margt að úr úr hita í kulda og svo áfram og áfram.“Sigurjón segir að þau hafi ekki þurft að leita eftir læknisaðstoð á Spáni en apótekin séu fín.
„Helsti kosturinn við að vera hér í hitanum er samt sá, að bilaðir og slitnir skrokkar eru bara allt aðrir og betri í hitanum. Allt þetta, og hvert og eitt, segir að hér sé mjög gott að vera. Einkum yfir veturinn.“