fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Áfengi er auglýst þrátt fyrir bann – Ekki ljóst hvort áfengisauglýsingar auki neyslu

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 26. október 2019 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skjáskot af Facebook – Færslur á borð við þessa eru gjarnan kostaðar, sem felur í sér að þær birtast hjá aðilum sem er talið að þær gætu haft kauphvetjandi áhrif á.
Skjáskot Facebook

Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Þetta vita flestir Íslendingar og vita enn fremur að þó svo þetta bann hafi verið í gildi í þrjátíu ár, þá hafa seljendur áfengis ítrekað beitt ýmsum brögðum til að komast fram hjá því. Nú hafa stjórnvöld til skoðunar að afnema þetta bann, bæði hvað áfengi varðar sem og tóbak, og sitt sýnist hverjum um ágæti þeirra áforma.

Fjölmiðlar ítrekað sektaðir

RÚV var árið 2016 sektað fyrir brot gegn banni við áfengisauglýsingum. Þar hafði RÚV birt auglýsingu fyrir Egils Gull okkar bjór þar sem orðunum léttöl eða 2,25% brá fyrir örsnöggt. Taldi Fjölmiðlanefnd að þrátt fyrir orðið léttöl í auglýsingu væri fullljóst að um auglýsingu á áfengum bjór væri að ræða.

Árið 2017 voru 365 miðlar sektaðir vegna áfengisauglýsingar sem birtist í tímaritinu Glamour. Málið var athyglisvert fyrir þær sakir að eignarhald Glamour hafði verið fært til erlends aðila, 365 Media Europe Ltd. Í þremur blöðum tímaritsins birtust alls fimm heilsíður þar sem áfengi var auglýst. Fjölmiðlanefnd taldi að eignarhaldið hefði verið fært erlendis gagngert til að komast undan íslenskri lögsögu og því bæru 365 miðlar á Íslandi eftir sem áður ábyrgð á birtingu áfengisauglýsinganna og voru 365 miðlar sektaðir um eina milljón króna.

365 miðlar þurftu einnig á síðasta ári að greiða 750 þúsund króna sekt fyrir að sýna áfengi með yfir 2,25% styrkleika í þætti af þáttaröðinni Ísskápastríð á Stöð 2. Þar hafði í sjónvarpi verið sýnt inn í ísskáp sem meðal annars innihélt hvítvíns- og bjórflöskur. Hafi ein hvítvínsflaska jafnframt verið handleikin og vörumerkið þá sýnilegt. Fyrir framan dómara í þættinum hafi einnig staðið opnar bjórflöskur þar sem vörumerkjum var stillt upp með áberandi hætti, eins hafi bæði þáttarstjórnandi og keppendur drukkið úr bjórflöskum.

Auglýsingar utan lögsögu

Nú hafa áfengisauglýsingar íslenskra innflytjenda eða brugghúsa færst að miklu yfir á samfélagsmiðla, þá einkum á Facebook. Þar eru jafnvel keyptar sérkostaðar auglýsingar sem birtast neytendum á fréttaveitum þeirra að þeim forspurðum. Leikir hafa átt sér stað á Facebook þar sem fólk er hvatt til að líka við áfengisauglýsingasíður gegn loforði um að eiga kost á að vinna áfengi.

Í áliti meirihlutanefndar um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, sem birt var snemma á síðasta ári, segir: „Bent hefur verið á að bannið þjóni vart tilgangi sínum lengur þar sem slíkar auglýsingar berist Íslendingum í erlendum miðlum, hvort sem er í gegnum erlenda hljóð- og myndmiðla, erlenda vefi og samfélagsmiðla eða erlend blöð og tímarit.“ Taldi nefndin að fjárhagslegur ávinningur yrði af því fyrir íslenska fjölmiðla. Á móti kæmu síðan skuldbindingar sem Ísland hefði gengist undir á alþjóðlegum vettvangi og það regluverk sem þar gilti varðandi slíkar auglýsingar.  „Um mikla tekjumöguleika og hagsmuni sé að ræða fyrir íslenska fjölmiðla.“

Skiptar skoðanir um áhrif áfengisauglýsinga

Ólafur Stephensen vill bannið burt

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, Ólafur Stephensen, er á móti banni á áfengisauglýsingum. „Góðu rökin fyrir því að afnema þetta auglýsingabann liggja alveg fyrir. Meginatriðið er að bannið skilar ekki tilgangi sínum og bitnar fyrst og fremst á sumum fjölmiðlum og framleiðendum en ekki öllum,“ sagði Ólafur í samtali við Fréttablaðið. Ólafur hefur bent á að bjór- og vínframleiðsla sé vaxandi starfsgrein á Íslandi sem skapi störf og verðmæti, en þessum aðilum væri þó gert erfitt uppdráttar með banni við að auglýsa framleiðslu sína. Hann hefur talað fyrir því að banninu verði aflétt og þess í stað verði teknar upp siðareglur um áfengisauglýsingar. Bendir hann á að áfengisauglýsingar sem slíkar miði að því að koma vörumerki á framfæri og hvetja neytendur til að taka tiltekið vörumerki fram yfir annað, en auki hins vegar ekki almenna áfengisneyslu.

Laufey telur skaðlegt að afnema bannið

Laufey Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár, benti nýlega á það, í grein sem birtist í Læknablaðinu, að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafi bent á að áhrifaríkustu leiðirnar til að draga úr áfengisneyslu væru aðgerðir sem stjórnvöld fara í á borð við takmörkun á framboði, verðstýringu og bann við áfengisauglýsingum. Telur Laufey að það blasi við að ef slíku banni verði aflétt, eða ef einkasala ríkisins verði afnumin, þá muni það valda aukinni neyslu og þar með fjölgun dauðsfalla, meðal annars vegna krabbameina. „Við blasir að slökun á auglýsingabanni og afnám einkasölu ríkisins á áfengi mun valda aukinni neyslu og þar með fjölgun dauðsfalla, meðal annars vegna krabbameina. Vonandi ber Alþingi Íslendinga gæfu til að fara ekki í öfuga átt við lýðheilsustefnu, heldur beini kröftum sínum í farveg sem eflir heilsu, velferð og hamingju landsmanna.“

Niðurstöður rannsókna greinir á

Fjölmargar rannsóknir hafa farið fram um áhrif áfengisauglýsinga á almenning, einkum áhrif slíkra auglýsinga á unglinga og ungmenni. Niðurstöðurnar hafa þó ekki verið afgerandi. Hvorki hafa þær sýnt fram á að áfengisauglýsingar hafi áhrif á áfengisneyslu, eða að áhrifin séu engin, Þar sem áfengisauglýsingar eru bannaðar er ekki að fara fyrir nákvæmu regluverki um hvernig slíkar auglýsingar skuli settar fram. Samtímis hafa samfélagsmiðlar veitt framleiðendum og innflutningsaðilum vettvang til að auglýsa vöru sína löglega og að því virðist án takmarkana.

Bagalegt bann?

Nú hefur verið lagt fram á Alþingi frumvarp til nýrra lyfjalaga þar sem grundvallarbreyting verður gerð á heimild til að auglýsa lyf. Áður var bannað, líkt og með áfengið, að auglýsa lyf. Frá þessu banni voru svo gerðar undantekningar. Breytingin sem til stendur mun snúa þessu við. Almennt verði heimilt að auglýsa lyf, með undantekningum þó. Frumvarpið er nokkuð ítarlegt varðandi hvað bannað sé að auglýsa, þar undir falla ávanabindandi og lyfseðilsskyld lyf. Einnig hefur um árabil verið í gildi reglugerð um lyfjaauglýsingar sem miðar að því að tryggja að neytandi fái réttar upplýsingar og sé með engu móti leyndur upplýsingum um virkni lyfja, eða sannfærður um að í lyfjum felist einhver töfralausn. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur sagt að við skoðun þess að afnema bannið við áfengisauglýsingum verði einkum horft til lýðheilsusjónarmiða. Það gæti vel endað svo að það sé í almenningi í hag að bannið sé afnumið, því þá verður samhliða hægt að setja slíkum auglýsingum skorður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala