
Nokkurrar ólgu gætir meðal starfsmanna ISAVIA um þessar mundir vegna fyrirhugaðrar launalækkunar sem þeim hefur verið gert að sæta. Samkvæmt heimildum DV mun launalækkun starfsmanna í öryggisleit nema um það bil heilum mánaðarlaunum á ársgrundvelli. Samkvæmt heimildum DV skildist einhverjum starfsmönnum að styttri vaktir væru liður í að stytta vinnuvikuna og þeir því óánægðir með launalækkunina, sem var upprunalega tilkynnt í sumar.
Samkvæmt upplýsingum frá ISAVIA munu þessar breytingar vera liður í aðgerðum ISAVIA til að bregðast við fækkun ferðamanna á Keflavíkurflugvelli og miða að því að ekki þurfi að fækka stöðugildum umfram það allra nauðsynlegasta.
„Til þess að bregðast við fækkun farþega um Keflavíkurflugvöll, bæði vegna falls WOW Air fyrr á árinu og vegna minnkandi umsvifa flugfélaga á vetrarmánuðum þá hafa verið gerðar breytingar sem miða að því að draga úr kostnaði. Breytingarnar lúta meðal annars að breyttum starfshlutföllum, styttingu vakta þar sem dregið er úr yfirvinnu ásamt frestun ráðninga í laus störf og hefur því starfsmannafjöldi dregist nokkuð saman á árinu vegna þessa. Vaktir hjá starfsmönnum í öryggisleit í 100% starfi hafa almennt verið styttar úr 12 tímum í 11,5 tíma. Þá hafa starfsmenn sem þess hafa óskað getað fært sig í hlutastörf og hefur einhver fjöldi nýtt sér það. Í nýlegum aðgerðum er ekki ráðist í uppsagnir heldur farið í aðrar breytingar á vinnufyrirkomulagi sem miða að því að draga úr kostnaði.“
Að sögn Þórarins Eyfjörð hjá Sameyki stéttarfélagi er félagið meðvitað um óánægju starfsmanna en félagið muni berjast fyrir því að komið verði til móts við félagsmenn í komandi kjarasamningum.

„Þetta eru starfsmenn sem starfa að öryggismálum hjá flugstöðinni. Þetta er eitthvað sem við munum taka til umræðu í kjarasamningsviðræðunum við ISAVIA.“ Þórarinn segir það skiljanlegt að atvinnurekendur hafi þurft að bregðast við breyttum rekstrargrundvelli, sem ISAVIA er að gera vegna fækkunar farþega. „Það breytir því ekki að af þessu höfum við áhyggjur og við gerð kjarasamninga verður þetta rætt þar sem þetta er veruleg lækkun.“
Breytingarnar taka gildi núna um mánaðamótin og munu hafa áhrif á hundruð starfsmanna.
Samkvæmt ISAVIA var reynt að gæta fyllstu aðgátar við aðgerðirnar.
„Þessar breytingar voru gerðar í samráði við stéttarfélög, fulltrúa starfsmanna og trúnaðarmenn. Var markmiðið að finna eins milda lendingu og mögulegt var fyrir starfsmenn flugvallarins. Auðvitað finna allir fyrir svona breytingum, en eins og áður segir er óhjákvæmilegt að laga starfsemi flugvallarins að minni umsvifum flugfélaganna og minnkandi tekjum.“