

Jónatan Sævarsson varð fyrir hrottalegri árás á leið í útför föður síns í fyrradag. Óður ökuníðingur réðst á hann því hann taldi Jónatan hafa svínað á sig. Maðurinn sló Jónatan svo harkalega að það blæddi og hann lá í götunni.
Það er Fréttablaðið sem greinir frá þessu. Móðir Jónatans, Hólmfríður Bjarnadóttir, segir þetta hafa verið á milli tólf og eitt í fyrradag. Jónatan býr í Noregi og var hér til að vera viðstaddur útför föður hans, Sævars Hafnfjörðs Jónatanssonar. „Þetta var á milli tólf og eitt. Kistulagningin er rétt fyrir tólf og hann fer með strákinn sinn smávegis á rúntinn,“ segir Hólmfríður.
Hún segir að Jónatan hafi verið að fara út úr hringtorgi þegar ökuníðingurinn byrjar að flauta á hann. Jónatan ku hafa stöðvað bílinn en þá stökk maðurinn út úr bílnum, reif upp hurðina á bíl Jónatans og kýldi hann. Ungur sonur Jónatans var í framsætinu og sá allt.
Lögreglumenn urðu vitni af þessu og náðu að stöðva ökuníðinginn, sem var handtekinn. „Við hin erum öll í safnaðarheimilinu, við hliðina á Hafnarfjarðarkirkju, og erum að bíða eftir því að gestirnir komi í kirkju. Þá hringir strákurinn og segir það hafi verið ráðist á pabba sinn. Og við náttúrulega fáum þarna ákveðið áfall eða þannig,“ segir Hólmfríður.
Hún segir að Jónatan hafi verið blóðugur þegar hann mætti. „Hann kemur svo í útförina rétt áður en hún á að hefjast með fullt af servéttum í nefinu og blóð á skyrtunni og snarast þarna inn á einhverja snyrtingu og þrífur sig aðeins,“ lýsir Hólmfríður og bætir við að allt hafi gengið vel eftir það: „Sem betur fer, ég veit það allavega með mig, að þá náði þessi gaur ekki að slá mig út af laginu. Því ég var náttúrulega að fara að fylgja manninum mínum síðasta spölinn og maður vill nú fá að gera það í friði.“