fbpx
Sunnudagur 12.júlí 2020
Fréttir

Heimilisleysi á Íslandi – Brýn þörf á úrræðum: „Við erum gleymdir hér og óttumst framtíðina“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 13. október 2019 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heimilislausum á Íslandi hefur fjölgað mikið undanfarin ár. Frá mælingu sem gerð var árið 2012 fram að mælingu sem gerð var 2017 hafði heimilislausum fjölgað um 95 prósent. Ljóst er að brýn þörf er á að fast verði tekið á málaflokknum.

Árið 2017 voru 349 einstaklingar skráðir heimilislausir og/eða utangarðs í Reykjavík, það ár var gerð skýrsla Velferðarsviðs Reykjavíkur um hagi heimilislausra í borginni. Af þessum 349 bjuggu 153 við ótryggar aðstæður, 118 gistu í gistiskýli og 76 sögðust hafast við á götunni að einhverju leyti.

Umboðsmanni Alþingis barst fjöldi kvartana

Umboðsmaður Alþingis hóf frumkvæðisathugun á síðasta ári vegna húsnæðisvanda heimilislausra á Íslandi, einkum þeirra sem glíma við fjölþættan vanda. Tilefni athugunarinnar var mikill fjöldi kvartana sem umboðsmanni höfðu borist vegna málaflokksins. Niðurstaða umboðsmanns var sú að á Íslandi væri til staðar almennur og viðvarandi vandi í tengslum við húsnæðismál utangarðsfólks og einstaklinga með fjölþættan vanda. Málsmeðferðartími í málaflokknum væri ekki í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar og úrræði ekki næg.

Umboðsmaður beindi þeim fyrirmælum til stjórnvalda að ráðast eins fljótt og auðið væri í ráðstafanir til að bæta úr framboði húsnæðisúrræða og málsmeðferðartíma umsókna. Í niðurstöðukafla álits síns segir umboðsmaður um þá sem til hans höfðu leitað: „Þetta hafa bæði verið einstaklingar í þessari stöðu og aðstandendur þeirra og vinir. Í ýmsum tilvikum hafa þessir einstaklingar beðið í mörg ár, jafnvel lengur en áratug, eftir að komast í varanlegt húsnæði þótt sveitarfélagið hafi fallist á umsóknir þeirra. Virk neysla áfengis og/eða vímuefna hefur þá staðið í vegi fyrir því að þeir hafi í raun komið til greina við úthlutun á hefðbundnu félagslegu leiguhúsnæði þótt þess hafi ekki séð stað í reglum um úthlutun á slíku húsnæði.“

„Það hefur vakið athygli mína að fjölgun í hópi þeirra sem leitað hafa til umboðsmanns Alþingis vegna þessara mála allra síðustu ár er ekki síst vegna ungra einstaklinga sem stríða í senn við vanda vegna áfengis- og/eða vímuefnaneyslu og geðraskana, stundum samhliða líkamlegri fötlun.“

Við erum gleymdir hér og óttumst framtíðina

DV hefur undanfarið fjallað nokkuð um málefni heimilislausra og þær aðstæður sem þeir búa við. Hafa þar bæði heimilislausir og starfsmenn úrræða fyrir heimilislausa greint frá óviðunandi aðstæðum.

Svanur Elíasson

Svanur Elíasson bjó í tjaldi í Laugardal þar til hann fékk inni í húsnæði í Víðinesi.  Hann tók á móti blaðamanni DV í apríl og greindi frá því að erfitt væri að velkjast um í óvissu varðandi framtíðina.  „Við erum gleymdir hér og óttumst framtíðina.“ Þá var óvíst hvort að íbúar á Viðinesi fengju að vera þar til lengri tíma þar sem aðeins átti að vera um neyðarúrræði borgarinnar að ræða.  Nú hins vegar ætti óvissan að vera minni þar sem Reykjavíkurborg stefnir á að koma þar á fót áfangaheimili fyrir þá sem eru að koma úr áfengis- eða vímuefnameðferð. Hins vegar eru það slæmar fréttir fyrir þá sem hafast við í Víðinesi og eru í virkri áfengis- eða vímuefnaneyslu og ekki í samræmi við þá hugmyndafræði sem best hefur þóst reynast í málefnum utangarðsmanna, húsnæði fyrst (e. housing- first). Undanfarið heur verið unnið að því að koma íbúum Víðiness í önnur úrræði, en enn þurfa þó nokkrir að bíða.

Í júní stigu í DV fram tveir heimilislausir karlmenn sem sögðust ákaflega þreyttir á hlutskipti sínu. Höfðu þeir báðir verið heimilislausir í fjölda ára og  vildu báðir komast í varanlegt húsnæði.

Davíð Ingi Þorsteinsson og Steinar Stefánsson Mynd: Eyþór Árnason

„Ég vil bara húsnæði fyrir þennan mann hérna, húsnæði fyrir þennan og húsnæði fyrir okkur alla, Hvað er ég að gera hérna? 20 ár á götunni! Húsnæði er fokking málið og ef að Íslendingar geta ekki reddað því núna skilurðu, þá kveiki ég í fokking Alþingishúsinu og sit inni fyrir það glaður,“ sagði Davíð Ingi Þorsteinsson, heimilislaus áratugum saman og greinilega kominn með meira en nóg af úrræðaleysinu.

Í júní ræddi DV við Stefán Stefánsson, sem er bundinn við hjólastól vegna MS-sjúkdómsins. Hann sagði að það að þurfa að leita til Gistiskýlisins væri líkt og að fara í fangelsi, þar væri ekkert frelsi.

Stefán Stefánsson

„Það er litið á mann sem þriðja flokks manneskju og allt ákveðið fyrir mann. Núna skaltu vakna, núna skaltu borða, núna skaltu sofa.“ Hann þurfti að bíða í röð til að freista þess að fá inni í skýlinu. Hann sagðist engan forgang fá vegna fötlunar sinnar og veikinda. Þeir sem ekki fengju inni í skýlinu yrðu að redda sér með öðrum leiðum, svo sem með því að sofa í upphituðum bílastæðahúsum.  Stefán hafði, þegar hann ræddi við DV, verið á biðlista eftir félagslegu húsnæði hjá bæði borginni og Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins, í níu mánuði.

Starfsmaður í gistiskýlinu við Lindargötu greindi DV frá því í vor að ófremdarástand væri í skýlinu og óviðunandi vinnuaðstæður þar sem þar væri blandað saman heimilislausum í neyslu og þeim sem ekki eru í neyslu.  Slík staða væri ekki mönnum bjóðandi. Sprautufíklar og alkóhólistar ættu hreinlega ekki saman í slíkum aðstæðum. Alkóhólistarnir kæmu þangað til að nýta sér gistingu á meðan sprautufíklar kæmu til að nýta aðstöðuna sem neyslurými.

Nærumhverfið mótmælir

Borgarráð samþykkti í nóvember kaup á húsnæði við Grandagarð til að nota sem gistiskýli fyrir unga heimilislausa karlmenn í verulegum vímuefnavanda. Kaupin eru liður í þeim úrbótum sem borgin er að ráðast í í málefnum heimilislausra.  Í maí var greint frá því að nokkrir fasteignaeigendur á Granda hafi kært starfræksluna til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ljóst sé að starfseminni muni fylgja félagsleg vandamál sem muni hafa neikvæð áhrif á blómlegan fyrirtækjarekstur á svæðinu.

Í ágúst greindi DV frá því að íbúar á Njálsgötu, þar sem bæði er að finna félagslegt húsnæði og heimilli fyrir heimilislausa, væru uggandi yfir starfseminni. Einkum hefur verið gagnrýnt að slík starfsemi og úrræði séu í boði þar sem einnig er rekinn leikskóli. Þegar húsnæðið fyrir heimilislausa að Njálsgötu 74 var tekið í notkun árið 2007 mótmæltu íbúar harðlega og töldu staðsetninguna út í hött.

Ljóst er að mikil þörf er á auknum úrræðum fyrir heimilislausa. Hins vegar virðist samfélagið að einhverju leyti ekki taka slíkum fyrirætlunum opnum örmum.

Hvert geta heimilislausir leitað? 

Gistiskýlið Lindagötu

Alls 349 einstaklingar hið minnsta eru heimilislausir á Íslandi. Athuga ber þó að sú tala er frá árinu 2017 og í ljósi þeirrar miklu aukningar sem átti sér stað frá árinu 2012 má telja að þessi tala sé í dag nokkuð hærri. Í Gistiskýlinu á Lindargötu er gistirými fyrir 25 karlmenn. Í Konukoti er rými fyrir átta konur auk neyðarrýmis. Á Miklubraut er að finna heimili fyrir allt að átta karla í vímuefnavanda, annað slíkt heimili er á Njálsgötu þar sem einnig eru átta rými. Á Hringbraut eru 11 íbúðir, þar af fimm fyrir konur. Þetta eru rýmin sem eru í boði fyrir þá sem eru í áfengis- eða vímuefnaneyslu. Önnur 87 pláss eru tiltæk fyrir einstaklinga sem hafa lokið meðferð.  Samkvæmt kortlagningu Reykjavíkurborgar frá árinu 2017 um aðstæður heimilislausra hafa flestir úr hópnum verið utangarðs og/eða heimilislausir lengur en í tvö ár og neyta flestir áfengis og/eða annarra vímuefna að staðaldri. Því er ljóst af þessum tölum að töluverður fjöldi heimilislausra hefur ekki möguleika á næturstað miðað við þau úrræði sem í boði eru í dag.

Aðsóknin í gistiskýlin er mikil. Fyrir utan gistiskýlið á Lindargötu standa menn í röð eftir þeim 25 plássum sem í boði eru. Tugir komast ekki að og þurfa að hverfa frá. „Aðsóknin á gistingu í Gistiskýlinu er mjög mikil en skýlið er það eina sinnar tegundar á Íslandi og ekkert annað sveitarfélag rekur slíka starfsemi. Vegna aðsóknarinnar var fleiri dýnum bætt við tímabundið en unnið er að standsetningu á öðru neyðarskýli og verður það vonandi tilbúið til notkunar í haust,“ sagði Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, deildarstjóri þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða í samtali við DV í júní.

Önnur úrræði

Öll spjót beinast nú að ríki og sveitarfélögum, aðallega Reykjavíkurborg. Viss aðgerðaráætlun hefur verið sett sem miðar að úrbótum í málaflokknum á komandi árum. Hins vegar, líkt og með aðrar aðgerðaráætlanir stjórnvalda, er gert ráð fyrir að úrbæturnar komi til framkvæmda í skrefum yfir næstu fimm árin. Nú er að kólna mikið í veðri og ljóst að ekki allir hafa í hús að venda og eru neyddir til að vera á götunni. Minningarsjóðurinn Öruggt skjól tekur við fatagjöfum á sérstökum minningarvegg í Mæðragarðinum í Lækjargötu í Reykjavík. Þar geta aflögufærir skilið eftir fatnað en einnig matvöru og annað nýtilegt. Öruggt skjól hefur það þó að langtímamarkmiði að vinna að varanlegum úrræðum á vanda heimilislausra og hefur staðið fyrir hátíðarmatarboðum fyrir heimilislausa og minningartónleikum svo eitthvað sé nefnt. Sjóðurinn var stofnaður í minningu Þorbjörns Hauks Liljarssonar, sem lést á götunni. Móðir hans, Guðrún Hauksdóttir Schmidt, stofnaði sjóðinn.

Rauði krossinn vinnur einnig mikilvægt skaðaminnkunarstarf með verkefninu Frú Ragnheiði sem starfrækir sérútbúinn bíl sem sjálfboðaliðar aka um borgina og veita skaðaminnkandi heilbrigðisaðstoð, nálaskiptaþjónustu en einnig aðra nauðsynlega þjónustu á borð við félagslegan stuðning, fatnað, mat og drykk og svona mætti áfram telja.

Samhjálp rekur kaffistofu fyrir utangarðsmenn í Borgartúni. Þar geta heimilislausir hafst við yfir daginn og fengið heita máltíð í hádeginu og morgunkaffi.

Víðines

Langt í land

Flestir heimilislausra hafast við í Reykjavík. Borgin hefur nú sett sér stefnu í málaflokknum til ársins 2025.  Yfirmarkmið stefnunnar er að enginn neyðist til að sofa úti. Í ljósi takmarkaðra úrræða sem í boði eru í dag er ljóst að nokkuð langt er í land áður en því markmiði verður náð og nokkuð langur tími er til ársins 2025.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Katrín svarar Kára

Ekki missa af

Ja-ja ding dong
Fréttir
Í gær

Íbúar í Rimahverfi kvarta enn yfir „ofbeldis“ólykt – Stybban sögð rýra verðgildi fasteigna

Íbúar í Rimahverfi kvarta enn yfir „ofbeldis“ólykt – Stybban sögð rýra verðgildi fasteigna
Fréttir
Í gær

Guðjón sekur um stórfelldan fjárdrátt – hafði 17 milljónir úr Björgunarfélagi Árborgar

Guðjón sekur um stórfelldan fjárdrátt – hafði 17 milljónir úr Björgunarfélagi Árborgar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Geymslutækni fornra íkorna gæti bjargað forðabúrum jarðar

Geymslutækni fornra íkorna gæti bjargað forðabúrum jarðar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rektor Háskólans á Akureyri segir að húsin séu í góðu ástandi og Sigurður sé að ýkja

Rektor Háskólans á Akureyri segir að húsin séu í góðu ástandi og Sigurður sé að ýkja
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þórólfur bregst við gagnrýni frá læknum – „Fjarri öllu lagi“

Þórólfur bregst við gagnrýni frá læknum – „Fjarri öllu lagi“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mál lektorsins komið til ákærusviðs

Mál lektorsins komið til ákærusviðs
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Meintur nauðgari með réttargæslumann brotaþola á vitnalista

Meintur nauðgari með réttargæslumann brotaþola á vitnalista
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Bilun í sorpbrennslustöð á Suðurnesjum – Slökkvilið og lögregla á vettvang

Bilun í sorpbrennslustöð á Suðurnesjum – Slökkvilið og lögregla á vettvang