fbpx
Þriðjudagur 07.júlí 2020
Fréttir

Sundkennari í Hólabrekkuskóla sagður niðurlægja börnin: „Hann rakkaði dóttur mína niður fyrir framan hina krakkana“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 11. október 2019 08:00

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margir foreldrar barna í Hólabrekkuskóla í Breiðholti hafa kvartað undan sundkennara sem starfar við skólann og samskiptum hans við börn þeirra. Ásakanir um meinta harkalega framkomu hans og óviðeigandi kennsluaðferðir ku ná langt aftur í tímann en foreldrar sem DV hefur rætt við vegna málsins hafa tekið málið upp við skólann á seinni árum, sumir margoft. Það hefur þó ekki leitt til þess að ástandið hafi lagast, að þeirra mati.

„Hann rakkaði dóttur mína niður fyrir framan hina krakkana, sagði að hún kynni ekki að synda og væri ómöguleg,“ segir faðir einnar stúlku. Segir hann að fundir með skólayfirvöldum vegna málsins hafi ekki breytt neinu. „Ég mætti þarna á tvo fundi í fyrra með þremur öðrum foreldrum. Þar voru líka skólastjóri og aðstoðarskólastjóri. Þau höfðu aldrei heyrt á þetta minnst áður, sögðu að þetta væri svo yndislegur maður og góður kennari. En þau myndu skoða þetta. En það varð ekkert úr því, mér vitanlega,“ segir maðurinn.

Mest ber á þrenns konar kvörtunum undan manninum. Í fyrsta lagi er hann sagður eiga í útistöðum við suma nemendur sem æfa sund hjá sundfélögum og hafi jafnvel fellt þá í skólasundi þar sem hann virðist ekki sáttur við sundtök þeirra. DV ræddi ekki við foreldri neins nemanda sem fellur undir þetta en þrír foreldrar minntust á þetta í samtölum við DV.

Algengasta kvörtunin sem foreldrarnir báru upp við DV var að kennarinn tíðkaði að niðurlægja suma nemendur fyrir framan aðra nemendur. Það geri hann helst með því að segja þeim að þau syndi vitlaust, hann láti þau synda fyrir framan hina nemendurna og segi þeim eitthvað á þá leið að einmitt svona eigi þau ekki að synda.

Í þriðja lagi er hann sagður beita börn þeirri refsingu að láta þau hlaupa í kringum sundlaugina á sundfötum þegar kalt er í veðri.

Mynd: Eyþór Árnason

Ellefu ára stúlka komin á kvíðalyf

Ellefu ára stúlka, sem var nemandi hjá kennaranum bæði í íþróttum og sundi er hún var tíu ára, er komin á kvíðalyf og sálfræðingur rekur hluta af orsökinni til samskipta við kennarann. Stúlkan sagði móður sinni að í íþróttatíma hefðu börnin eitt sinn ekki verið látin gera neitt annað en að hlaupa í hringi í íþróttahúsinu í heilar fjörutíu mínútur og aldrei mátt stoppa. Hún kvartaði líka undan framkomu hans í sundtímum þar sem hann tíðkaði að taka einn og einn nemanda fyrir og segja, líkt og áður var greint frá, við hina krakkana að svona eigi maður ekki að fara að.

„Dóttur minni fór að líða svo illa yfir þessari hegðun að hún hætti að mæta í sundtíma og leikfimitíma. Síðan vatt þetta upp á sig með þeim hætti að hún hætti að mæta í skólann þá daga sem voru leikfimitímar eða sundtímar og loks hætti hún alveg að mæta í skólann,“ segir móðirin, en dóttir hennar hefur nú ekki mætt í skóla svo heitið getur í fjóra mánuði. Unnið er að því að finna henni skólavist annars staðar. Foreldrar stúlkunnar komu henni til sálfræðings sem greindi hana með félagskvíða og skólakvíða.

Sálfræðingur barnsins telur að kennarinn hafi komið kvíðanum af stað en orsakir kvíðans hjá barninu séu þó margbrotnari. Hins vegar mælir sálfræðingurinn mjög gegn því að barnið hitti manninn.

„Ég veit um foreldri sem fór til skólastjórans fyrir tveimur árum og kvartaði undan framkomu hans við barnið sitt. Það sama er upp á teningnum núna, ekkert hefur breyst,“ segir faðir þessarar stúlku. Hann segir jafnframt: „Á síðasta skólaári sagði eitt foreldri mér að hann léti krakkana labba í sundfötum hringinn í kringum laugina þegar þau gerðu eitthvað af sér, í vetrarveðri og frostkulda. Ein móðirin hringdi brjáluð í skólastjórann út af þessu og þá var henni bara boðið upp á að ræða við kennarann. Skólastjórinn bauð okkur líka að hitta hann og að stelpan hitti hann en við höfum ekkert við þennan mann að tala og dóttir okkar hefur alls ekki gott af því að sjá hann.“

Móðir stúlkunnar telur jafnframt að skólayfirvöld hafi gefið í skyn við hana að þau börn sem kvörtuðu undan kennaranum væru of viðkvæm.

Mynd: Eyþór Árnason

Fékk frábæra niðurstöðu úr kennslumati

Faðirinn fór með nokkrum öðrum foreldrum á fund skólastjóra í maí til að kvarta undan sundkennaranum. Skólastjórinn hafði þá gripið til þess ráðs að láta óháðan fagaðila gera kennsluúttekt á vinnu mannins. Fylgdist matsaðilinn með kennaranum að störfum í nokkra kennslutíma. Á fundinum kom fram að kennarinn hefði fengið frábæra niðurstöðu í matinu og aðferðir hans voru taldar vera til fyrirmyndar.

Faðir stúlkunnar bendir hins vegar á að kennarinn hafi vitað að hann var undir eftirliti og því væntanlega hagað framgöngu sinni í samræmi við það. Matsaðilinn var á fundinum og faðirinn sagði við þá manneskju: „Jæja, þú sást ekki í vetur þegar hann lét krakkana labba á sundfötunum í kringum sundlaugina í kulda og frosti.“

„Barnið á ekki að þurfa að þola að vera niðurlægt af fullorðnum manni“

„Hann niðurlægði hana og aðra krakka,“ segir móðir einnar stúlku. Segir hún kennarann hafa niðurlægt dóttur hennar fyrir framan önnur börn. „Hann sagði að hún kynni ekki að stinga sér almennilega og lét hana gera það fyrir framan hin börnin til að sýna hvernig ætti ekki að stinga sér. Hann var líka almennt hranalegur og hreytti í hana. Einu sinni meiddi hún sig í sundi og þá var bara gert lítið úr því og hlegið að henni. Hann hefur líka tekið þau upp úr lauginni og niðurlægt þau fyrir framan hina krakkana.“

Móðirin tók stúlkuna úr skólasundi. „Ég ákvað bara að fyrst þetta væri svona þyrfti barnið mitt ekkert að mæta í sund. Barnið mitt á ekki að þurfa að þola að vera niðurlægt af fullorðnum manni. Hún er ekki skráð í skólasund næst fyrr en eftir áramót og ef þetta verður ekki búið að lagast þá fer hún bara ekkert í sund.“

Nýtur líka vinsælda

Sundkennarinn er kominn vel á sjötugsaldur og hefur áratuga langan kennsluferil að baki í hinum ýmsu skólum. Hann hefur vissulega notið vinsælda margra og þykir margt hafa til brunns að bera sem kennari. En lengi hefur verið óánægja með framkomu hans við suma nemendur, sérstaklega þá sem eru lakari í sundi og leikfimi, auk þess sem hann virðist stundum eiga í útistöðum við nemendur sem æfa sund.

Í Facebook-umræðum um manninn, sem hefur verið eytt úr íbúahópi Breiðholts, er farið almennt hörðum orðum um hann en einn maður segir hins vegar:

„Hann er góður maður, var sjálfur í íþróttum hjá honum. Hann getur verið pínu harður en bara ef maður er eitthvað að slæpast. Vann með honum í lauginni líka og hann er bara að reyna að kenna krökkum agann sem tekur til að komast áfram í íþróttum.“

Þess skal getið að kennarinn er ekki ásakaður um neitt saknæmt. Margt bendir til að hann sýni stundum af sér viðmót og beiti aðferðum sem ekki eru lengur gjaldgengar í samskiptum við börn en hefðu liðist fyrir nokkrum áratugum. Maðurinn er talinn hafa mikla þekkingu á sundíþróttinni og vera kappsamur og metnaðarfullur kennari. Ljóst er að hann er í miklum metum hjá skólayfirvöldum í Hólabrekkuskóla.

Mynd: Eyþór Árnason

Ríkir ráðaleysi þegar kvartað er undan kennara?

Viðkvæmt er að fjalla með neikvæðum hætti um mann sem er í svo berskjölduðu hlutverki sem kennarastarfið er, jafnvel þó að maðurinn sé ekki nafngreindur. En DV sá sig knúið til að sinna ákalli fjölmargra foreldra sem telja að ekki sé lengur öðrum úrræðum til að dreifa en að fara með málið í fjölmiðla. Reynt hafi verið til þrautar að fá skólayfirvöld til að leysa málið en það hafi ekki tekist. Þeir foreldrar sem hér eru tilgreindir eru aðeins hluti þeirra sem komu við sögu við vinnslu fréttarinnar. Í þeim undirbúningi bar töluvert á röddum ungs fólks sem höfðu verið nemendur hjá manninum fyrir áratug eða lengur og báru honum illa söguna. Ljóst er því að óviðunandi framkoma hans við suma nemendur nær langt aftur í tímann.

Allt saman vekur þetta þær spurningar hvort ráðaleysi sé reglan þegar foreldrar kvarta þráfaldlega undan sama kennara. Leiða slíkar kvartanir til þess að kennarinn er látinn fara eða verða þær til þess að hann bæti ráð sitt? Í þessu máli virðist hvorugt hafa gerst.

DV sendi fyrirspurn um málið á skólastjóra Hólabrekkuskóla, Hólmfríði Guðjóndóttur. Hólmfríður sagði að hún gæti ekki tjáð sig um málefni einstaklinga. Hvað varðar kvartanir undan kennurum þá væri brugðist við eftir atvikum hverju sinni en allar kvartanir væru teknar til meðferðar af stjórnendum skólans. Hún sagði jafnframt að brugðist væri við samkvæmt tilteknu verkferli. Það felur meðal annars í sér inngrip mannauðsfulltrúa skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Stundum er barnavernd kölluð til. Lokastig ferlisins er það að mannauðsráðgjafi Skóla- og frístundasviðs lokar málinu formlega. Ekki er hægt að sjá í fljótu bragði að þetta ferli tryggi úrlausn allra mála og ljóst er að það hefur ekki gert það í tilviki sundkennarans við Hólabrekkuskóla.

DV leitaði einnig til Sigrúnar Björnsdóttur, upplýsingafulltrúa á sviði skóla- og frístundamála hjá Reykjavíkurborg. Svar hennar var eftirfarandi:

„Eins og þér er ljóst er um að ræða einstaklingsmál sem hvorki skólastjórnendur eða skrifstofa skóla- og frístundasviðs geta tjáð sig um. Öll mál er varða einstaklinga eru viðkvæm og full ástæða til að stíga varlega til jarðar. Grunnskóli er vinnustaður barna og því vil ég biðja þig um að sýna fyllstu nærgætni og skoða málið vel frá öllum hliðum. Ég vil líka vísa í það sem þegar hefur komið fram í svari frá skólastjóra að brugðist er við eftir atvikum hverju sinni og að allar kvartanir eru teknar til meðferðar af stjórnendum skólans. Verkferillinn sem þú fékkst sendan á ekki við í öllum tilfellum sem kvartanir berast.“

DV reyndi árangurslaust að ná tali af sundkennaranum en uppgefið símanúmer hans er ekki virkt. Skólastjóri gat ekki veitt rétt símanúmer kennarans. Enn fremur sendi DV honum tölvupóst sem var ekki svarað.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Repúblikanir í vandræðum

Repúblikanir í vandræðum
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Fangelsinu á Akureyri lokað varanlega. 42 ára saga á enda.

Fangelsinu á Akureyri lokað varanlega. 42 ára saga á enda.
Fréttir
Í gær

Ekki einn lögreglustjóri er lögreglumaður – Allir lögfræðingar frá HÍ

Ekki einn lögreglustjóri er lögreglumaður – Allir lögfræðingar frá HÍ
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fólk sem fékk COVID-19 en lagðist ekki á spítala þarf endurhæfingu

Fólk sem fékk COVID-19 en lagðist ekki á spítala þarf endurhæfingu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hjálpartæki til að fylgja eftir mikilvægri endurhæfingu ekki talið nauðsynlegt og styrkbeiðni hafnað

Hjálpartæki til að fylgja eftir mikilvægri endurhæfingu ekki talið nauðsynlegt og styrkbeiðni hafnað