

Skattsvikamáli sem héraðssaksóknari höfðaði gegn liðsmönnum Sigur Rósar var vísað frá í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Héraðssaksóknari hefur ákveðið að áfrýja málinu til Hæstaréttar.
Fréttablaðið greinir frá þessum málalyktum.
Fjórir liðsmenn Sigur Rósar voru grunaðir um að hafa komið sér hjá því að greiða rúmar 150 milljónir í skatt.
Fjórir meðlimir sveitarinnar, Georg Holm, Kjartan Sveinsson, Orri Páll Dýrason og Jón Þór Birgisson voru ákærðir í málinu. Voru þeir sagðir hafa staðið skil á efnislega röngum skattaframtölum gjaldárin 2011 til og með 2014.
Fréttablaðið hefur eftir Bjarnfreð Ólafssyni, lögmanni sveitarinnar, að frávísunarkrafa, sem dómurinn tók undir, hafi byggst á því að um væri að ræða tvöfalda málsmeðferð sem samræmist ekki mannréttindasjónarmiðum.
„Það er bara útaf þessum kerfisvanda sem að er hér á landi. Það er tvöföld refsing í svona stærri skattalagamálum. Það er lögð á refsing hjá ríkisskattstjóra og síðan fer málið í aðra meðferð sem er sjálfstæð rannsókn hjá saksóknara og dómstólamál og farið fram á viðbótarrefsingu í máli sem þegar er búið að refsa fyrir,“ segir hann við Fréttablaðið.