

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók mann í annarlegu ástandi á bar í miðbæ Reykjavíkur laust eftir klukkan sjö í gærkvöldi. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar. Maðurinn er grunaður um brot á vopnalögum og vörslu fíkniefna. Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Lögreglan stöðvaði ökumann í Borgartúni rétt eftir miðnætti sem er einnig grunaður um brot á vopnalögum og vörslufíkniefna. Annar ökumaður var stöðvaður rúmlega tvö í nótt grunaður um ölvunarakstur.
Í Hafnarfirði stöðvaði lögreglan tvo ökumenn í gærkvöldi og nótt. Báðir voru eru þeir grunaðir um að keyra undir áhirfum og annar þeirra einnig um að keyra án ökuréttinda.
Lögreglan hafði afskipti af fólki í bíl á bílastæði verslunarmistöðvar í Kópavogi klukkan hálf ellefu í gærkvöldi. Mikil fíkniefnalykt var í bifreiðinni og viðurkenndi farþegi að eiga ætluð fíkniefni er fundust við leit. Málið var afgreitt með vettvangsskýrslu. Í Breiðholti var einn ökumaður stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum og brot á lyfjalögum. Einn ökumaður var stöðvaður á Höfðabakka grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.
Í Grafarvogi þurfti lögregla að hafa afskipti af sofandi manni í bíl. Maðurinn var í annarlegu ástandi og er grunaður um brot á lyfja- og vopnalögum. Vegna ástands mannsins var lykill bifreiðarinnar haldlagður. Rúmlega fjögur í nótt var maður í annarlegu ástandi handtekinn í hverfi 116 þar sem hann var að valda öðrum íbúum ónæði. Maðurinn er grunaður um húsbrot og fór ekki að fyrirmælum lögreglu. Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.