Maður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás sem átti sér stað á veitingastaðnum Chuck Norris Grill, Laugavegi 30. Maðurinn kýldi annan mann í andlitið með þeim afleiðingum að sá hlaut bólgu í vinstri kinn og brot í framtönn. Manninum var virt til refsiþyngingar að hann hefur sakaferil að baki en til refsilækkunar að hann játaði brot sitt skýlaust og að rannsókn lögreglu á málinu dróst óhóflega en árásin átti sér stað sumarið 2017.
Þolandi árásarinnar varð fyrir því að tennur losnuðu í munni hans og brot varð í tönn en ekki þurfti að fjarlægja tennur og þurfti ekki að fara í sérstaka tannviðgerð. Var talið að áverkar brotaþola væru óverulegir.
Sem fyrr segir var refsingin 30 daga skilorðsbundið fangelsi en auk þess þarf hinn seki að greiða verjanda sínum 150.000 krónur í málsvarnarlaun og tæplega 40.000 krónur í annan sakarkostnað.