

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók ökumann rafmagnshlaupahjóls sem ók á erlendan ferðamann á Klambratúni um helgina. Í Facebook-færslu lögreglu er greint frá þessu og þar segir að ökumaður hjólsins hafi verið heldur hissa á afskiptum lögreglu og þótti honum frekar mikið úr þessu gert. Ferðamaðurinn var fluttur á slysadeild en frekari upplýsingar um slysið koma ekki fram.
Alls tók lögregla 22 ökumenn fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur í umdæminu um helgina og var ökumaður umrædds rafmagnshlaupahjóls einn af þeim.
Þá komu fimmtán líkamsárásar- og heimilisofbeldismál á borð lögreglunnar og þá var tilkynnt um sautján þjófnaðarbrot í umdæminu. Nokkuð var líka um minni háttar eignaspjöll, þ.m.t. nokkur rúðubrot.