

Ný herferð FÍB (Félag íslenskra bifreiðareiganda) virðist fara misvel ofan í fólk. Herferðin kemur fram undir nafninu Það tekur aðeins tvær sekúndur, en markmið herferðarinnar er að biðja ökumenn um að vera með hugann við aksturinn.
Í einni af mörgum auglýsingum herferðarinnar er fólk varað við því að hugsa um næstu máltíð, í annarri er hættan að hlusta á hip hop-tónlist undir stýri.
„Að dilla sér við hip hop getur drepið, þegar þú ert við stýrið.“
Tónlistarmaðurinn þjóðþekkti Logi Pedro deildi skjáskoti af auglýsingunni á Twitter með ansi kaldhæðnislegri yfirskrift. „Allir hressir.“
Allir hressir. pic.twitter.com/qRDuPLfYy5
— Logi Pedro (@logipedro101) September 29, 2019
Færsla Loga vakti mikla athygli en þegar þessi frétt er skrifuð hafa 221 einstaklingar líkað við hana, en Logi hefur gefið út mikið af hip hop-tónlist.
DV hafði samband við FÍB sem sagði að auglýsingin hefði ekki verið með hip hop-stefnuna sem sérstakt skotmark, frekar en hverja aðra stefnu. Markmiðið væri í raun bara að benda á hversu lítið þurfi til að alvarlegt slys geti átt sér stað.
„Þetta var raunverulega langt frá því að vera vísað á einhverja ákveðna tónlistarstefnu eða til að taka út einhvern ákveðin hóp. Það er mjög leitt að þetta hafi farið fyrir brjóstið á einhverjum.“
Samkvæmt FÍB er herferðin unnin í samvinnu við FIA, alþjóðasamtök bifreiðaeigenda, en samskonar auglýsingar hafa birst erlendis undanfarna daga.