Lögregla þurfti að sinna ýmsum verkefnum í borginni í gærkvöldi og í nótt, til að mynda rafmagnshlaupahjólaslysi, þjófnaði og sofandi mann í barnaherbergi húss.
Um kvöldmatarleytið í gær var tilkynnt um slys við Klambratún í Reykjavík. Tveir menn á rafmagnshlaupahjóli óku á gangandi konu, sem datt og meiddi sig. Sjúkrabíll var sendur á staðinn, en lögregla veit ekki hversu alvarleg meiðsl konunnar voru. Maðurinn sem stýrði hlaupahjólinu er grunaður um ölvun við stýri.
Kallað var eftir aðstoð lögreglu á fimmta tímanum í nótt þegar ókunnugur maður hafði farið inn í ólæst hús í miðborg Reykjavíkur. Þar lagðist hann til svefns í barnaherbergin en húsráðendur þekktu ekki manninn. Ekki er greint frá því hvort barn hafi verið í herberginu. Þá greinir lögregla heldur ekki frá því hvort manninum hafi verið komið til síns heima eða hann fengið að gista fangageymslur.
Um klukkan tvö í nótt handtók lögreglan ölvaðan mann fyrir líkamsárás. Sá sem varð fyrir árásinni var fluttur á slysadeild, en ekki er vitað hversu alvarlega slasaður hann er.
Laust eftir klukkan tvö var maður í annarlegu ástandi handtekinn í miðborg Reykjavíkur. Hann er grunaður um innbrot, þjófnað og eignaspjöll. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins.