Björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út um hádegisbil í dag vegna tveggja einstaklinga sem voru komnir í sjálfheldu í brattlendi við Tröllafoss í Mosfellsdal.
Þetta kemur fram í tilkynningu Slysavarnafélagsins Landsbjargar, en þar kemur fram að fyrstu björgunarsveitarmenn voru komnir á svæðið um klukkan eitt, rétt um 40 mínútum eftir að neyðarkall barst.
Fyrstu menn á vettvang voru fljótir að finna fólkið í hlíðinni. Aðgerðum lauk á vettvangi tuttugu mínútur yfir tvö. Þá voru allir komnir niður, bæði björgunarfólk og fólkið sem lenti í sjálfheldu.
Björgunarmenn sigu niður til fólksins sem var skelkað en óslasað. Aðgerðin gekk vel og var fólkið ánægt að komast niður.