

Hönnunarfyrirtækið Ígló ehf., sem heldur utan um rekstur barnavörumerkisins iglo+indi í Garðabæ, var úrskurðað gjaldþrota 12. september síðastliðinn. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu.
Barnafatamerkið iglo + indi var stofnað árið 2008 og hefur notið töluverðra vinsælda hér á landi og einnig erlendis. Stjörnur á borð við Kardashian-fjölskylduna og ofurfyrirsætuna Coco Rocha hafa meðal annars tekið ástfóstri við merkið og þá hefur Manuel A. Mendez, stílisti dóttur Beyonce, birt mynd úr vor- og sumarherferð merkisins á samfélagsmiðlum sínum.
Félagið tapaði 78 milljónum króna árið 2017 samkvæmt seinasta ársreikningi. Jókst tap félagsins um 30 milljónir frá fyrra rekstrarári. Þá drógust tekjur félagsins saman um 29 milljónir.
Í tilkynningu Lögbirtingablaðsins kemur fram að skiptafundur verði haldinn þann 29. nóvember næstkomandi. Sveinbjörn Claessen lögmaður hefur verið skipaður skiptastjóri. Helga Ólafsdóttir, yfirhönnuður fyrirtækisins og eigandi, vildi ekki tjá sig um málið þegar DV hafði samband.