

Þetta segir Helga Williamson, ung íslensk kona, sem hvetur foreldra til að skilja ekki börn sín eftir ein í bílnum. Þessi áminning kemur ekki til af góðu því um liðna helgi kviknaði í nýlegum jepplingi sem er í eigu foreldra hennar. Bíllinn var kyrrstæður fyrir utan heimili foreldra hennar í Fossvoginum en aðeins fimmtán mínútum áður hafði þessi sami bíll verið á ferðinni. Það sem er einna óhugnanlegast er sú staðreynd að hurðirnar aftur í læstust. Allt gerðist þetta á mjög skömmum tíma.
„Ég hef séð mæður játa að þær skilji börnin sín eftir ein í bíl ef þau sofna, hvort sem það er í stutta stund eða ekki. Við höldum flestar að ekkert getur gerst og sumar töldu að öruggara væri fyrir barnið að vera úti í bíl en úti í vagni,“ segir Helga.
Bifreiðin er 2015 árgerð af Nissan Qashqai. Hún byrjaði skyndilega að fyllast af reyk en Helga vekur athygli á því að engin viðvörunarljós hafi logað þegar bifreiðinni var ekið, skömmu áður en eldurinn kom upp.
„Reykurinn var svartur og svo þykkur að ekki var hægt að koma að bílnum, framrúðan byrjaði að springa. Það kviknaði í bílnum, hann bráðnaði að innan og kom risa gat fyrir neðan stýrið. Það sem var verst, var að hurðarnar í aftursætunum læstust og þar sem rafmagnið eyðilagðist, þá var ekki hægt að aflæsa þær, eins með skottið. Ef mamma og pabbi hefðu verið á ferðinni með barnabörnin í aftursætinu þá hefðu þau ekki náð að bjarga þeim út. Barnið mitt hefði dáið í bílnum, hann er bara tveggja ára og getur ekki losað sig sjálfur,“ segir Helga.
Í samtali við DV segir Helga að fjölskyldan hafi verið heppin. „En næsta fjölskylda sem lendir í þessu verður það kanski ekki. Því er mikilvægt að vara fólk við,“ segir hún.
Hún segir að þetta hafi gerst hratt, bíllinn sé nýlegur og hafi ekki verið til neinna vandræða fyrr en nú. Helga sagði fyrst frá þessu á Facebook og hvatti fólk til að deila færslunni því hún vill að sem flestir viti af þessu. „Þetta hræðilega atvik fær þá að nýtast sem mikilvæg forvörn.“




