fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Ugla svarar Guðmundi áhyggjufulla – „Ekki er hægt að neyða fólk til að vera eitthvað sem það er ekki“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 12. september 2019 09:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Persónulega finnst mér það frábært þegar fólk tekur þátt í umræðum um hinsegin fólk, því fyrir mér er það kjörið tækifæri fyrir fólk að fræðast og eiga uppbyggileg samtöl um hlutina,“ segir Ugla Stefanía Kristjönudóttur Jónsdóttir í grein í Morgunblaðinu í dag. Kristjana er kynjafræðingur og formaður Trans Íslands. Tilefni greinar hennar er grein eftir Guðmund Oddsson, fyrrverandi skólastjóra og fyrrverandi alþingismann, þar sem hann amaðist við hinsegin dögum og regnbogafánanum og óttaðist að kyn fólks væri orðið að tískufyrirbrigði. Grein Guðmundar vakti mikla athygli og jafnvel reiði en Ugla fer um hann mildum höndum.

Rifjum upp hvað Guðmundur sagði. Hann var mjög ósáttur við að fyrirtæki og stofnanir hefðu flaggað regnbogafánanum við komu Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til landsins á dögunum og spurði hvort búið væri að skipta um þjóðfána. Regnbogafánann kallaði hann marglita dulu. Þá segir Guðmundur:

„Ég átta mig raunar ekki á á hvaða vegferð við erum. Í nokkur ár hafa verið haldnir svokallaðir hinsegin dagar, þar sem allir fjölmiðlar keppast við að auglýsa göngu þeirra sem eru einverra hluta vegna öðruvísi en aðrir. Götur eru málaðar í regnbogalitum og fólk fer í skrúðgöngur í alls konar skrautlegum fatnaði til að vekja athygli á málstaðnum. Hvaða málstað? Að vera eitthvað öðruvísi en fjöldinn. Þarf þjóðfélagið virkilega að fara á annan endann þótt einhverjir séu öðruvísi en aðrir? Nú í ár þótti ekki nægilegt að hafa einn dag til að vekja athygli á þessu hinsegin heldur þurfti heila viku. Hvers eiga þeir að gjalda sem ekki eru hinsegin? Það virðist enginn áhugi á að vekja athygli á þeim.“

Þá  segist Guðmundur vera orðinn verulega áhyggjufullur vegna hinsegin orðræðunnar. Segist hann fá á tilfinninguna að það sé bara tískufyrirbæri hvers kyns fólk sé. Hann skrifar:

„Ég er að verða verulega áhyggjufullur vegna orðræðu sem er í gangi varðandi þessi mál. Börn og unglingar eru mjög viðkvæm gagnvart þessum hlutum og þegar svo er komið að Siggi
frændi er einn góðan veðurdag orðinn Anna frænka finnst mér mælirinn vera fullur. Maður fær það einhvern veginn á tilfinninguna að það sé orðið tískufyrirbæri hvort maður er karlkyns, kvenkyns eða jafnvel hvorugkyns. Við Íslendingar höfum miklar áhyggjur af því hve fjölgun þjóðarinnar er lítil og ekki er líklegt að þeir sem ekki vita hvers kyns þeir eru muni bæta mörgum við.“

Mannréttindabrot gegn hinsegin fólki

Ugla segist í upphafi greinar sinnar fagna því að fólk taki þátt í umræðum um hinsegin fólk því það sé kjörið tækifæri fyrir fólk til að fræðast og eiga uppbyggileg samtöl. Um komu Mike Pence og afstöðu hans til hinsegin fólks skrifar Ugla:

„Ekki er að undra að Guðmundi hafi fundist regnbogafánamálið frekar dramatískt, enda ekki á hverjum degi sem þjóðarleiðtogi annars ríkis kemur á klakann. Ekki er Mike Pence heldur bara hvaða þjóðarleiðtogi sem er, heldur þjóðarleiðtogi sem er þekktur fyrir grófa fordóma gagnvart hinsegin fólki í þokkabót. Ástæða þess að regnbogafáninn blakti við hún var sú að Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, finnst að það sé í lagi að reka fólk eins og mig úr vinnu og neita mér um þjónustu fyrir það eitt að vera eins og ég er. Ekki finnst honum það bara í lagi, heldur hefur staðið fyrir lagasetningum og breytingum á lögum sem leyfa það.

Hann styður sömuleiðis svokallaðar „afhommunarbúðir“, þar sem er reynt að fá fólk til að hætta að vera hinsegin með öfgafullum hætti, eins og t.d. pyntingum, heilaþvotti og ofbeldi. En það veit allt vel þenkjandi fólk að ekki er hægt að neyða fólk til að vera eitthvað sem það er ekki, enda held ég að þá enginn myndi vera hinsegin.“

Hinsegin dagar hafa verið lengi

Í grein sinni undrast Guðmundur fyrirganginn á Hinsegin dögum og spyr hvers vegna þurfi heila viku undir hátíðina. Þá spyr hann hvers fólk sem ekki er hinsegin eigi að gjalda. Ugla bendir á að Hinsegin dagar eigi sér nú um tveggja áratuga sögu og þeir hafi lengi verið hluti af íslenskri dægurmenningu. „Þessi hátíð er haldin til að vekja athygli á hinsegin málefnum og hverju þarf enn að berjast fyrir svo við getum öll lifað í réttlátu og frjálsu samfélagi – og auðvitað til þess að fagna fjölbreytileikanum í okkar litla og víðsýna samfélagi,“skrifar Ugla og bætir við:

„Einnig spyr Guðmundur hvers fólk sem er ekki hinsegin eigi nú að gjalda. Ég get huggað Guðmund með því að hann þurfi nú að hafa litlar áhyggjur af því, enda er staða fólks sem er ekki hinsegin yfirburðagóð. Engin lög eru í gildi neins staðar í heiminum sem hefta frelsi þess né þarf það að óttast fordóma, skilningsleysi og jafnvel ofbeldi fyrir það eitt að vera ekki hinsegin. En það er alltaf í myndinni að stofna bara sína eigin hátíð og sýna þannig frumkvæði. Það ætti nú að vera lítið mál ef áhyggjurnar eru einlægar og drifkrafturinn til staðar.“

Áhyggjur af börnum og tískufyrirbærum

Í grein sinni viðrar Guðmundur áhyggjur af börnum og óæskilegum áhrifum af meintri hinseginvæðingu. Ugla staldrar við það og segir:

„Hinsegin ungmenni upplifa mikla vanlíðan vegna þess að þau geta ekki verið þau sjálf og upplifa jafnvel einelti í skólum fyrir það að vera hinsegin eða sýna hegðun sem fellur út fyrir normið. Það er því rosalega mikilvægt að við byggjum frjálst og réttlátt samfélag þar sem fólk getur verið það sjálft og fengið að vera hamingjusamt.

Þess vegna er jafningjafræðsla Samtakanna ’78 einmitt svo dýrmæt. Þar lærir fólk að virða annað fólk og að það sé ekkert óeðlilegt að vera hinsegin. Með því að fræðast um hinsegin fólk og fjölbreytni þá sköpum við samfélag þar sem við getum öll dafnað og átt sömu tækifærin. Samfélag, þar sem fólk þarf að skammast sín fyrir að vera svona eða hinsegin, er ekki samfélag sem ég vil búa við og efast ég um að Guðmundur vilji það.“

Í grein sinni viðraði Guðmundur miklar áhyggjur af hinsegin orðræðunni og sagðist fá á tilfinninguna að það sé bara tískufyrirbæti hvers kyn fólk sé. Ugla segir þessar áhyggjur vera fullkomlega óþarfar. Engin manneskja fari þessa leið í kæruleysi enda hafi hún mikla fyrirhöfn og erfiðleika í för með sér:

„Guðmundur kemur einnig aðeins inn á það að hann hafi áhyggjur af því að það að vera trans sé orðið tískubylgja. Ekki er ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að nokkur manneskja geri slíkt af einhverju kæruleysi, enda er það erfitt og flókið ferli að koma út sem trans manneskja. Um er að ræða margra ára ferli sem krefst tíma, þrautseigju og mikillar fyrirhafnar.

Fólk burðast oft með þetta í mörg ár og jafnvel áratugi og er það frábært að við sem samfélag séum orðin víðsýnni og farin að gera ungu fólki kleift að koma fyrr út. Málið snýst alls ekki um að trans fólk sé á einhvern hátt óvisst um hver þau eru, heldur þvert á móti snýst þetta um að þau vita nákvæmlega hver þau eru.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni

Lögregla kölluð út vegna tjaldbúða í miðborginni
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar