fbpx
Föstudagur 10.júlí 2020
Fréttir

Gildi endurgreiðir útlendingum ekki iðgjöld: „Margir úr þessum hópi misnotuðu heimildarákvæðið“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 8. september 2019 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í fyrstu málsgrein 16. gr. samþykkta Gildis lífeyrissjóðs hefur um árabil mátt finna heimild til að endurgreiða ríkisborgurum ríkja utan EES  iðgjöld þegar þeir flytja frá Íslandi: „Heimilt er að endurgreiða iðgjöld til erlendra ríkisborgara þegar þeir flytjast úr landi, enda sé slíkt ekki óheimilt samkvæmt milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. […] Óheimilt er að endurgreiða iðgjöld til ríkisborgara annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins (EES).“ Er um lögfesta heimild að ræða og nýta margir lífeyrissjóðir landsins sér hana.

Misvísandi upplýsingar á heimasíðu

Í svari Gildis við fyrirspurn blaðamanns segir að þrátt fyrir heimildina hafi stjórnin tekið ákvörðun fyrir sex árum um að nýta hana ekki. „Stjórn Gildis ákvað árið 2013 að hætta að nýta heimildarákvæði þess efnis í lögum og samþykktum sjóðsins. Þar með hafa allir sjóðfélagar sömu réttindi, sem eru að þeir geta hafið töku ellilífeyris við sextíu ára aldur.“

Þrátt fyrir ítarlega leit gat blaðamaður hvergi á heimasíðu Gildis fundið upplýsingar um þessa ákvörðun, þvert á móti fann blaðamaður aðeins áðurnefnt heimildarákvæði sem birtist síðast í samþykkt stjórnar frá aðalfundi þessa árs. Ríkisborgarar utan EES geta því ekki fengið iðgjöld endurgreidd, þrátt fyrir lagaheimild, þrátt fyrir heimild í samþykktum, og geta með engu móti nálgast þessar upplýsingar fyrirfram til að geta tekið upplýsta ákvörðun um hvaða lífeyrissjóð þeir greiða í. Jafnframt gerir Gildi þeim ekki grein fyrir þessu er þeir hefja greiðslur í sjóðinn. Engu að síður er það mat Gildis að réttindi sjóðfélaga komi með skýrum hætti fram á heimasíðu þeirra.

„Samþykktir stjórnar eru birtar í heild á heimasíðu Gildis eins og á heimasíðum allra lífeyrissjóða. Hjá Gildi birtist þá umrætt heimildarákvæði sem hluti af samþykktum. Sjóðurinn leggur á heimasíðu sinni áherslu á að birta upplýsingar um hvaða réttindi standa sjóðfélögum til boða. Síðan hefur margoft verið yfirfarin og þykir sýna á skýran hátt hvaða réttindi sjóðfélagar eiga hjá Gildi.“

Stapi finnur ekki 2.000 sjóðfélaga á eftirlaunaaldri

Jóna Finndís Jónsdóttir, forstöðumaður réttindasviðs hjá Stapa lífeyrissjóði, greindi frá því nýlega að hætta sé á að erlendir ríkisborgarar fari á mis við réttindi sín í lífeyrissjóðum ef þeir sæki ekki rétt sinn. Um tvö þúsund sjóðfélagar Stapa á eftirlaunaaldri eru búsettir erlendis og hafa ekki sett sig í samband við sjóðinn, og sjóðurinn veit ekki um aðsetur þeirra.

Þá benti Jóna einnig á að Stapi bjóði erlendum ríkisborgurum utan EES að fá iðgjöld endurgreidd við brottflutning, þó svo margir virðist ekki gera sér grein fyrir þessum rétti sínum. Stapi má ekki nota iðgjöld þeirra sem ekki finnast í þágu annara sjóðfélaga, þar sem ekki er vitað hvort fólkið sé lífs eða liðið. Í samtali við fréttastofu RÚV sagði Jóna að hún vildi gjarnan sjá meiri samvinnu milli lífeyrissjóða, Tryggingastofnunar og Þjóðskrár til að halda utan um þessa einstaklinga og þeirra rétt.

Margir misnotuðu heimildina

Gildi nýtti heimildina fyrir árið 2013 og segir að erlendir ríkisborgarar hafi misnotað hana: „Þegar erlendir ríkisborgarar utan EES höfðu heimild hjá Gildi til að fá iðgjöld sín endurgreidd átti það að gerast þegar þeir fluttu af landi brott. Þeir þurftu að sýna fram á fyrirhugaðan flutning meðal annars með því að framvísa flugmiða. Raunin var að margir úr þessum hópi misnotuðu heimildarákvæðiðog fengu slíka endurgreiðslu ár eftir ár. Í einhverjum tilfellum var um að ræða einstaklinga sem voru og eru enn búsettir á Íslandi og eru í dag með mjög skert réttindi í lífeyriskerfinu, með tilheyrandi aukaálagi á almannatryggingakerfið.“

Í dag reynir Gildi að koma til móts við erlenda sjóðfélaga með öðrum hætti, svo sem með því að bæta upplýsingagjöf, bjóða upp á upplýsingar á ensku á heimasíðunni og senda út yfirlit á fleiri tungumálum en íslensku.

Verða sjálfir að sækja um greiðslur

3.621 ríkisborgari utan EES hefur á síðustu tíu árum greitt iðgjöld til Gildis. Ef greiðendur hafa flust af landi brott og Gildi hefur ekki upplýsingar um aðsetur þeirra fá þeir ekki greitt frá sjóðnum. Blaðamaður spurði enn fremur hvort sjóðurinn hefði, líkt og Stapi, lent í erfiðleikum við að hafa uppi á erlendum sjóðfélögum þegar þeir ná lífeyrisaldri.

„Gildi lítur þannig á að sjóðfélagar beri sjálfir ábyrgð á að sækja rétt sinn hjá sjóðnum. Tvisvar á ári eru send yfirlit til virkra sjóðfélaga um stöðu þeirra og síðan fá allir þeir sem eiga réttindi hjá sjóðnum bréf við 60 ára aldur þar sem minnt er á að þeir geti nú hafið töku lífeyris. Því til viðbótar fá þeir sjóðfélagar sem ekki hafa hafið töku lífeyris bréf frá sjóðnum við 67 ára aldur og síðan við 70 ára aldur hafi taka lífeyris enn ekki hafist. Slík bréf eru send á alla þá sem sjóðurinn hefur upplýsingar um heimilisfang hjá, sama hvar í heiminum viðkomandi býr.“

Í þeim tilvikum sem sjóðfélagi sækir ekki um greiðslur þá nýtist inneign viðkomandi til að bæta stöðu annarra sjóðfélaga.

„Gildi er lífeyrissjóður og heildareign sjóðsins er notuð til grundvallar þegar tryggingafræðileg staða hans er reiknuð út, sem að endingu sýnir getu sjóðsins til að greiða sjóðfélögum lífeyri. Ef einhver sækir ekki rétt sinn í sjóðinn, af hvaða ástæðu sem það kann að vera, er inneign hans hluti af útreikningum um tryggingafræðilega stöðu og nýtist því til að bæta rétt annarra sjóðfélaga. Þannig skiptast réttindi viðkomandi milli annarra sjóðfélaga eins og gerist í öllum samtryggingarkerfum.“

Lífeyri í óskilum

Purushottam er farinn aftur til Nepal.

Purushottam Ghimire frá Nepal var nýlega synjað um dvalarleyfi á Íslandi, eftir fjögurra ára búsetu. Hann hafði fengið þær upplýsingar að þar sem hann væri frá ríki utan EES þá ætti hann rétt á að fá iðgjöld sín aftur. Engar upplýsingar voru honum aðgengilegar um að sjóðurinn hans, Gildi, byði ekki upp á þetta. Purushottam er floginn aftur til Nepal, hann veit ekki hvar hann ætlar að búa þar, svo það er ómögulegt fyrir hann að gefa Gildi upp heimilisfang. Eins er ólíklegt að hann muni búa á sama staðnum næstu 35 árin, eða þar til hann á rétt á að fá greitt frá Gildi. Margir þeir erlendu verkamenn sem koma til Íslands gagngert til að vinna hér tímabundið eru sjóðfélagar í Gildi. Hluti þeirra kemur frá ríkjum utan EES. Nú þegar hefur einn sjóður, Stapi, greint frá því að torvelt reynist að skila lífeyrisgreiðslum til þessara manna eftir að þeir ná aldri. Því má leiða líkur að því að eins sé farið með sjóðfélaga Gildis.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Katrín svarar Kára

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Mál lektorsins komið til ákærusviðs

Mál lektorsins komið til ákærusviðs
Fréttir
Í gær

Segir Háskólann á Akureyri hafa svívirt minningu ömmu sinnar og afa

Segir Háskólann á Akureyri hafa svívirt minningu ömmu sinnar og afa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Starbucks kallaði hana ISIS

Starbucks kallaði hana ISIS
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hafnaði tugmilljóna kröfu um málskostnað á hendur Jóhanni Helgasyni

Hafnaði tugmilljóna kröfu um málskostnað á hendur Jóhanni Helgasyni