
Ekki eru allir hrifnir af komu varaforsetans þar sem hann hefur afar íhaldsöm viðhorf. Þar má nefna að Pence hefur beitt sér gegn hjónaböndum samkynhneigðra og gegn þungunarrofi. Þykir mörgum viðhorf þessa valdamikla manns stríða gegn mannréttindum.
Það eru þó sumir sem eru hæstánægðir með komu varaforsetans en maður að nafni Halldór Kristjánsson er einn af þeim. Hann er sannfærður um að fjöldinn allur af fólki vilji bjóða Pence hjartanlega velkominn til Íslands. Halldór ákvað þess vegna að safna undirskriftum frá íslenskum stuðningsmönnum varaforsetans á vefsíðunni Change.org.
„Það hefur komið upp á daginn að það eru einhverjir, en fáir, Íslendingar sem eru á móti komu þinni til landsins okkar. Okkur sárnar þetta þar sem þú talar fyrir okkar mikilvægastu bandalagsþjóð.“
Hann telur að fjöldinn allur af fólki muni ekki geta sýnt stuðning sinn í verki vegna vinnu.
„Mörg okkar munu vera of upptekinn við vinnu svo það sé hægt að niðurgreiða lífstílinn hjá því fólki sem hefur ekkert betra að gera en að mótmæla komu þinni til landsins.“
Nú hefur undirskriftasöfnunin staðið yfir í tvo daga en viðbrögðin eru eflaust ekki jafn mikil og Halldór hafði búist við þar sem einungis 30 manns hafa skrifað undir. Þrátt fyrir það að við séum fámenn þjóð þá eru þetta samt ákaflega fáar undirskriftir.
Hér fyrir neðan má sjá opið bréf Halldórs frá undirskriftasöfnunarsíðunni í heild sinni.
„Til virðulegs varaforseta Bandaríkjanna, Mike Pence.
Það hefur komið upp á daginn að það eru einhverjir en fáir Íslendingar sem eru á móti komu þinni til landsins okkar. Okkur sárnar þetta þar sem þú talar fyrir okkar mikilvægastu bandalagsþjóð.
Mörg okkar gætu verið ósammála þér í einhverju, hvort sem þau eru fá eða fjölmenn, kannski munu flest okkar vera sammála þér um flest – en það skiptir ekki máli.
Íslendingar eru yfirleitt stoltir af gestristni sinni og við viljum að það nái til allra þeirra sem heiðra okkar fábrotnu þjóð með heimsókn. Við höfum líka langa og stolta hefð þegar kemur að tjáningarfrelsi, sem á líka við um þá sem einhverjir gætu kallað „hálfvita“, afsakaðu orðbragðið.
Reyndar þá eru hálfvitar á Íslandi og mikið af þeim. Hér eru mestu hálfvitarnir og sumir þeirra eru að skipuleggja fjöldafund til að mótmæla þinni göfuglyndu heimsókn. Sum okkar vilja bjóða þér að kaupa þessa „heimsins mestu hálfvita“ þar sem stærsta eyja heims [Grænland] mun ólíklega vera seld. Því er verr að eftirspurnin eftir hálfvitum fer lækkandi þar sem framboðið á þeim er gríðarmikið á heimsvísu.
Mörg okkar munu vera of upptekinn við vinnu svo það sé hægt að niðurgreiða lífstílinn hjá því fólki sem hefur ekkert betra að gera en að mótmæla komu þinni til landsins. Það er því ekki víst hvort það séu nógu margir sem komast til að styðja þig. Við höfum því ákveðið að skrifa hér undir til að fullvissa þig um að það eru til Íslendingar sem útskrifuðust úr leikskóla þegar kemur að samskiptum og hvort sem við séum sammála þér eða ekki, þá bjóðum við þig hjartanlega velkominn til Íslands og við vonum að þú munir eiga ánægjulega dvöl í landinu sem við erum svo stolt af.“