„Ég glími við margvísleg geðræn vandamál og hef verið á sjúkrahúsi á Íslandi í tvær vikur. Þegar ég var tvítugur fékk ég vægt hjartaáfall,“ segir Amin Ghayszadeh, 26 ára gamall maður frá Íran, hælisleitandi á Íslandi.
Beiðni Amins um að umsókn hans um hæli verði tekin fyrir hefur verið hafnað og verður hann sendur til Grikklands en þaðan kom hann hingað til lands.
„Í Grikklandi er líf mitt í hættu og íslensk yfirvöld vilja senda mig aftur til Grikklands,“ segir Amin við DV en hann freistar þessa að setja þrýsting á yfirvöld með hungurverkfalli sínu og koma í veg fyrir brottför sína til Grikklands.
Samtök sem berjast gegn brottvísunum flóttamanna hafa ritað eftirfarandi texta um stöðu Amins:
„Yfirvöldum er alveg sama um líf flóttafólks.
Yfirvöldum er aðeins minna sama um almenningsálit og þess vegna er sýnileiki þeirra einstaklinga sem ákveða að fara í hungurverkall lykilatriði. Einn þáttur samstöðu er þess vegna að tala um Amin, láta vita af baráttunni sem hann er í, sem er í senn barátta fyrir lífi hans og mannlegri reisn, barátta gegn miskunnarlausri landamærastefnu íslenskra og evrópskra yfirvalda.“