Heimir Snorrason sálfræðingur skrifaði pistil sem birtist í Kjarnanum um jafnréttismál og baráttu kynjanna. Í pistlinum talar hann um átökin sem ríkja milli kvenna og karla í þjóðfélaginu í dag.
„Undanfarið hef ég orðið var við sífellt harðnandi átök milli kvenna og karla á internetinu. Kynin reyna að toppa hvort annað í formælingum eða andstyggilegu háði í garð hvors annars. Talað er um konur sem tálmandi öfgafemínista en karlar eru nauðgarar í boði patriarkíunnar.“
Heimir trúir því að opin umræða um málefnið sé til góðs.
„Ég trúi heilshugar á rétt okkar til að tjá okkur óhindrað um sem flest málefni. Ég held að það geti verið hættulegt lýðræðinu að setja tjáningarfrelsi miklar skorður. Ég trúi því einnig að umræða í samfélaginu hafi ekki verið neitt skárri fyrir tíma internetsins. Það er stórkostlegt að við höfum nú nægan tíma og orku þegar vinnudegi lýkur til að ræða samfélagið út frá flóknum félagsfræðilegum sjónarhornum. Þetta eru forréttindi sem allir jarðarbúar deila svo sannarlega ekki með okkur. “
Hann segist falla í flokk „góða fólksins“.
„Ég, eins og aðrir hef orðið fyrir áhrifum frá foreldrum, félagsstöðu, efnahag, menntun og samfélagi og hafa þessi öfl að sjálfsögðu mótað skoðanir mínar. Ég er frjálslyndur í viðhorfum til kynvitundar, feminisma, jafnaðarmennsku, félagslega kerfisins, trúmála og Evrópusambandsins og alls hins sem fólk er ósammála um.“
Heimir segist trúa því í sál sinni að hægt sé að bæta við samfélagið með því að færa okkur nær þeim gildum sem hann taldi upp.
„Þessi afstaða mín hefur þó breyst nokkuð undanfarið þar sem mér sýnist að skoðanasystkyni mín séu farin að sýna sífellt meira óþol gagnvart skoðunum á hinum vængnum og beiti oft bolabrögðum til að kveða íhaldsamari raddir í kútinn. Við gleymum því oft að aðrir hafa líka myndað skoðanir sínar á sama hátt og við. Munum að það að hafa rétt til tjáningar þýðir ekki að maður þurfi þess alltaf. Það sýnir þroska að verða ekki alltaf við hneykslunarhvötum sínum og bregðast við minnsta áreiti á internetinu. Reyna heldur að skoða umræðuna út frá stærra sjónarhorni og sýna öðrum skilning. Við berum ábyrgð á orðum okkar og gjörðum.“
Hann segir að þegar kemur að þessu stríði milli karla og kvenna þá sé honum eiginlega alveg nóg boðið.
„Ég er jafnréttissinni en ég hef hins vegar líka látið mér mjög annt um karllæg gildi í starfi mínu sem sálfræðingur. Ég tala fyrir mikilvægi þess að meira sé hlustað á tilfinningar og raddir karlmanna í umræðunni. Ég hef í starfi mínu aldrei hitt vonda manneskju þótt ég hafi hitt marga sem hafa gert slæma hluti og meitt aðra. Við höfum öll gengið í gegn um erfiðleika og stundum tengjast þeir fólki af hinu kyninu. Það eru pabbar sem lemja mömmur, mömmur sem drekka of mikið, makar sem halda fram hjá, kynbundin skekkja á vinnustað, samfélag sem dregur okkur niður og svo framvegis. Það er eðlilegt að við förum að draga upp mynd af konum eða körlum sem fjandsamlegum hópi sem við þarft að bregðast við og berjast gegn. Við erum jú öll fórnarlömb með einhverjum hætti. “
Hann segir að þessi átök kynjanna muni ekki leiða til góðs.
„Við höfum ítrekað verið særðar/ir af af gagnstæða kyninu og notum tjáningarfrelsið til að ná okkur niðri á þeim. Gott og vel. Þetta er allt skiljanlegt út frá sálfræðilegu sjónarhorni þess særða en sem samskiptaregla milli hópa er þetta afleitt. Þessi átök kynjanna munu ekki leiða til góðs. Við höfum öll orðið fyrir skaða og liðið illa.“
Heimir talar næst um rannsókn á áfallasögu kvenna sem nú er í gangi í samstarfi Háskóla Íslands og Íslenskrar Erfðagreiningar.
„Um er að ræða gríðarlega viðamikla rannsókn sem nær til meira en 30 þúsund kvenna sem svarað hafa spurningalistum um áföll á lífsleiðinni og heilsufar. Samkvæmt fyrstu niðurstöðum hefur um fjórðungur kvenna orðið fyrir nauðgun eða tilraun til nauðgunar og fjórar af tíu lent í framhjáhaldi eða höfnun frá maka. Samkvæmt rannsókninni sýnir ríflega fimmtungur íslenskra kvenna einkenni áfallastreitu sem meðal annars koma fram í stoðkerfisverkjum, lágu orkustigi, skapsveiflum og forðun. Svona yfirlitstölur eru mjög verðmætar.“
Hann segir að sársauki fólks verði nánast áþreifanlegur þegar það segir frá persónulegu dæmunum sínum um áföll.
„Fleiri og fleiri konur hafa notað kraftinn sem losnaði úr læðingi í Metoo byltingunni til að tjá sig opinberlega og segja sögu sína. Nýlega hafa tvær konur sem ég þekki persónulega sagt mér reynslusögur sínar af kynferðislegri misnotkun og ofbeldi. Í sálfræðiviðtölum hafa konur deilt með mér ótal áfallasögum í gegn um tíðina. Sumar þessara kvenna lýsa atburðum sem eru ömurlegri en orð fá lýst á meðan aðrar segja frá hversdagslegri hlutum sem hafa samt haft djúpstæð áhrif. einnig hafa þær sagt frá áföllum sem komu fyrir mæður þeirra eða ömmur til að varpa ljósi á sína eigin stöðu í dag. Konur hafa búið í samfélagi þar sem þær upplifa ótta og varnarleysi í mörgum aðstæðum sem við karlar erum ekki meðvitaðir um. Konan mín notaði eftirfarandi dæmi til að útskýrði þetta fyrir mér.
,,Allar konur sem ég þekki hafa varann á sér þegar þær ganga einar heim seint heim um kvöld . Það er alltaf þessi 20 prósent ótti. Óttinn við að verða fyrir skyndilegri árás eða áreiti sem við höfum allar lent í. Aukin spenna, árvekni og meðvitund um umhverfð. Einu sinni var ég elt af hópi stráka þegar ég var búsett erlendis sem ætluðu sér að nauðga mér. Ég átti fótum mínum fjör að launa. Þetta er munurinn á mínum og þínum raunveruleika.”
Við þurfum ekki að láta okkur koma á óvart að konur séu reiðar og vilji breyta þessu. Því verður að sýna skilning. “
Heimir segir að það sé ekki allt í góðu hjá karlmönnum heldur.
„En hvað með okkur karlana? Er bara allt í gúddí hjá okkur? Erum við bara heima að skara eld að eigin köku og efla feðraveldið við hvert tækifæri? Að sjálfsögðu ekki. Karlmenn tjá sig að vísu mun sjaldnar um kynferðislegt ofbeldi við mig en lýsa oft líkamlegu ofbeldi, skorti á föðurímynd, óraunhæfum kröfum, fjandsamlegu skólakerfi, fjölskyldumissi og nístandi einmanaleika. Ég hef heyrt að í burðarliðnum sé önnur rannókn um áfallasögu karla og það er til mikillar fyrirmyndar.“
Hann segir karla ekki geta meiri skömm, þeir séu líka fórnarlömb sama kerfis sem skóp vanlíðan kvenna.
„Flest er að breytast í rétta átt. Karlar hafa gegnt stóru hlutverki í þeirri jafnréttisbyltingu sem orðið hefur síðustu tvær kynslóðir á vesturlöndum. Þeir eru þátttakendur í þessum stórkostlegu breytingum. Já, karlar gera merkilega hluti. Ég get ekki stutt að karlar séu úthrópaðir sem ofbeldisseggir eða varðmenn úreltra gilda í sífellu. Þetta er óuppbyggileg og meiðandi umræða. Með því að tala svona út í tómið (internetið) um að allir karlar séu svona eða hins seginn þá missir sú gagnrýni ávallt marks og hittir þá sem eru veikastir fyrir. Karlar eru ekki að tala úr einhverjum fílabeinsturni forréttinda. Sú umræða eykur bara ruglinginn og beiskjuna. Drengirnir okkar þurfa ekki á svona umræðu að halda. Þetta er einungis skaðlegt. Syndir feðranna verða ekki leystar með því að koma skömm yfir á þá. Styðjum drengina okkar frekar áfram til góðra verka.“